Ráðning framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 14:47:30 (7276)

     Árni Johnsen :
    Virðulegi forseti. Umræðan hér um gæslu þingskapa er ekki mjög traustvekjandi í garð nefnda þingsins. Hæstv. utanrrh. nefndi í gær að þingnefndir gætu tekið upp mál og fjallað um þau. Það hlýtur öllum hv. þm. að vera kunnugt. Það sem var sérstakt við umræðuna í gær var það að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson bauð úr þessum ræðustóli að semja við hæstv. utanrrh. um verkefnaskiptingu í nefndum þingsins. Það var ósmekklegt. Það er hvorki hlutverk þingmanna né annarra að semja úr ræðustóli við hæstv. ráðherra eða aðra um það hvernig þingnefndir taka á málum. Það er hlutverk þingnefndanna sjálfra að hafa þar forgöngu og það er rétt boðleið í gegnum formenn eða aðra í þingnefndunum. Þess vegna sýndi formaður Alþb. þingnefndum og þinginu mikla óvirðingu með ummælum sínum í gær.