Ráðning framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 14:51:53 (7279)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegur forseti. Ég tel að þessi umræða um gæslu þingskapa hafi verið mjög gagnleg og hafi leitt í ljós að það er bersýnilega meiri hluti á Alþingi fyrir því að þessi sérstöku mál verði tekin til rannsóknar í fjárln. og e.t.v. fleiri nefndum þingsins eftir atvikum. Að vísu tók ég eftir því að einn af talsmönnum Sjálfstfl. í fjárln., hv. 3. þm. Suðurl., talaði um þessi mál með nokkrum öðrum hætti. En ég segi ekki að það þurfi að breyta svo miklu þó Sjálfstfl. sé þversum í þessu máli. Hann er að vísu stjórnarflokkur en ef nýr meiri hluti myndast í fjárln. til að rannsaka mál af þessu tagi þá hefur það sinn gang. Þar og annars staðar hljóta menn að ákveða núna á næstu dögum að halda þeim málum áfram. Ég tel að svör hv. 5. þm. Austurl. hér áðan hafi eftir atvikum verið alveg skýr í þessu efni. Mér er það auðvitað ljóst að hv. þm. Alþfl. eru í þessum málum í mjög þröngri og erfiðri stöðu. Þeir hafa kosið að leita að þessari útleið í þessu efni, m.a. í framhaldi af tilboðum Jóns Baldvins Hannibalssonar, hæstv. utanrrh., í gær þannig að það er ljóst að þó að æðstu prestarnir í hinum helgu véum hafi kveðið upp dóm hér áðan þá er það ekki endanlegur dómur. Málið verður áfram til meðferðar, hæstv. forseti.