Atvinnuleysistryggingar

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 23:36:33 (7352)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil gjarnan svara hv. þm. Í fyrsta lagi trúi ég því nú ekki að hv. þm. Svavar Gestsson geri það að skilyrði fyrir því að svona réttindamál séu afgreidd að frv. þeirra alþýðubandalagsmanna sé afgreitt um leið því eins og ég hef sagt áður við þetta tækifæri, það frv. er þannig að ef það væri samþykkt væru lögin um atvinnuleysistryggingar ekki framkvæmanleg. Ég trúi því ekki að hann geri það að skilyrði fyrir því að afgreiða jafnan rétt til allra vinnandi manna á Íslandi til atvinnuleysisbóta að hans frv. sem þannig er gert verði samþykkt, ella fallist hann ekki á að afgreiða þetta réttindamál. Ég trúi því nú ekki að það sé rétt, enda mundi ég aldrei á slíkt skilyrði fallast.
    Hv. þm. spyr: Hvað um það búandlið sem ekki eru bændur en hafa tekjur af bústofni? Ég reikna með án þess að geta svarað því að úthlutunarnefndirnar myndu skoða saman tölul. 3 í 6. gr. og tölul. 4, þ.e. viðkomandi hafi staðið skil á tryggingaiðgjaldi af reiknuðu endurgjaldi síðustu 12 mánuði og að þau skil séu miðuð við að á síðustu 12 mánuðum hafi viðkomandi unnið samtals a.m.k. 425 dagvinnustundir miðað við viðmiðunarlaun þau sem greidd eru í landbúnaði. Mér finnst einsýnt að úthlutunarnefndirnar mundu velja þá leið. Síðan var auðvitað spurningin: Hvernig hefur viðkomandi tilkynnt sig til skattyfirvalda? Hefur hann tilkynnt sig sem launþega? Þá ætti hann ekki að vera í vandræðum. Eða hefur hann tilkynnt sig sem sjálfstætt starfandi? Einnig í þessu tilviki er það viðkomandi einstaklingur sjálfur sem ræður talsvert miklu um hvaða meðferð hann fær hjá kerfinu.
    Hv. þm. spurði um fjáraukalög í þessu sambandi. Ég vil benda á að í gildandi lögum er ákvæði sem fór fram hjá hv. þm. þegar hann samdi margumtalað frv. sitt, en í 38. gr. gildandi laga segir svo orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Nú skortir sjóðinn [þ.e. Atvinnuleysistryggingasjóð] reiðufé til að standa við skuldbindingar sínar. Skal stjórn sjóðsins þegar í stað tilkynna það ráðherra. Ríkissjóður skal leggja fram fé til að bæta úr fjárskortinum, annaðhvort sem fjárframlag eða lán``.
    Þar með lýkur tilvitnuninni. Þetta er gersamlega ótvírætt ákvæði. Ef ákvæði fjárlaga duga ekki til útgjalda sjóðsins, þá skal ríkissjóður samkvæmt lögunum leggja fram fé til að bæta úr fjárskortinum og skiptir þá ekki máli í því sambandi hvort fjáraukalög eru afgreidd að vori eða hausti. Þetta hefur verið gert meira að segja upp á milljarða kr. þó svo fjáraukalög hafi ekki verið afgreidd fyrr en fjárlagaárið er liðið. Fólk getur því verið alveg öruggt um það að þó svo eigið fé Atvinnuleysistryggingasjóðs dugi ekki til, þá stöðvast ekki greiðslur sjóðsins fremur en t.d. að greiðslur úr sjúkratryggingakerfi þó svo áætlun fjárlaga standist ekki né heldur stöðvast greiðslur ellilífeyris þó áætlun fjárlaga um lífeyrisgreiðslur vegna ellilífeyrisþega standist ekki. Þetta eru ákvæði í öðrum sérstökum lögum sem eru gersamlega ótvíræð um greiðsluskyldu ríkisins í því sambandi.