Forgangslisti um afgreiðslu mála

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 23:49:15 (7359)


     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka það fram til að fyrirbyggja allan misskilning að ég átti ekki við að hæstv. forseti hefði sýnt neinn hroka hér eða átti von á því. Það voru ummæli hæstv. heilbrrh. áðan um áhrif sín hér í þinginu fram yfir aðra þingmenn sem urðu til þess að ég hafði þessi ummæli. En hins vegar vil ég ítreka að það er mál til komið, af því að það er nú upplýst, ég var nú ekki búinn að telja það saman, að það eru aðeins 11 starfsdagar eftir af þinginu, að við fáum að vita um það hvað eru forgangsmál hér svo að við séum ekki að dunda við að afgreiða einhver mál sem á ekkert að afgreiða í vor. Við erum búnir með 9 mál, ef ég hef tekið rétt eftir, af dagskránni í dag og það eru 20 mál eftir og það væri fróðlegt að vita hvort það á að klára dagskrána í nótt því klukkuna vantar nú 10 mínútur í 12 og ekki síst ef það er nú eitthvað af þeim málum sem á ekkert að afgreiða fyrir þinglok og eru ekkert á þessum forgangslista sem virðist liggja tilbúinn á borðum ríkisstjórnarinnar.