Meðferð opinberra mála

160. fundur
Miðvikudaginn 21. apríl 1993, kl. 01:12:46 (7376)


     Frsm. minni hluta allshn. (Anna Ólafsdóttir Björnsson ):
    Virðulegi forseti. Ég held að þessi síðustu orð sem hv. þm. vitnaði til ítreki það einmitt að það er ekki sjálfgefið að það að lögreglan hafi á hendi rannsókn mála tryggi góða málsmeðferð og það sé einmitt það sem hann er að vekja athygli á að hér hafi tekist vel til og því ber að sjálfsögðu að fagna.
    Ég tek undir það að við fengum jákvæðar umsagnir þó með þeim viðvörunarorðum sem við höfum báðar rakið hér, framsögumenn álits meiri hluta og minni hluta, en að sjálfsögðu voru sumar þessara umsagna stuttaralegar. Það má vel vera að ástæða þess að tekið var undir þau sjónarmið sem koma fram, eða þær breytingar sem gerðar eru með þessu frv., geti verið að enginn vill það ófremdarástand að mál fari að hlaðast upp hjá ríkissaksóknara eins og fyrirsjáanlegt er og þarna ráði hreinlega raunsæi. Um þetta get ég í rauninni ekki sagt, ég held hins vegar að það geti alveg eins verið og ég held í rauninni að það megi greina það á ræðum framsögumanna beggja hluta allshn., meiri hluta og minni hluta, að í rauninni séum við býsna mikið sammála um að það þurfi að gæta ákveðinnar varfærni í svona viðkvæmum málum. Spurningin er bara sú hvort við veljum að styðja þá leið sem farin var með setningu laga um meðferð opinberra mála og fylgt er eftir og gerð ítarlegri eða hvort við kjósum að kanna fleiri leiðir í samræmi við þær

athugasemdir sem fram hafa komið og e.t.v. leitað annarra lausna. Ég vil alls ekki útiloka það. Ég hef hins vegar ekki séð klæðskerasniðna neina lausn sem er sjálfgefið að verði betri. Ég held að það sé of mikið að segja að valið standi einungis um það að setja upp mikið bákn í kringum ríkissaksóknaraútibú víða um land og þess að bæta á þau mál sem lögreglan hefur ákæruvaldið í. Og ég geri mér að sjálfsögðu grein fyrir því að þarna er einungis um útvíkkun ákæruvalds að ræða. Um það þarf ekkert að deila. Þarna er munur sem ég vil leyfa mér að telja stigsmun en ekki eðlis um það hvernig, á hvern hátt varfærni sé best gætt. Eins og ég tek sérstaklega fram og er búin að gera hér áður þá hef ég ekki ákveðið að leggjast gegn málinu heldur vil einungis koma með þessar ábendingar, en þar sem ekki var talin ástæða til að taka upp frekari könnun á leiðum í þessu máli þá get ég ekki staðið að afgreiðslu málsins og sit því hjá.