Fjöleignarhús

160. fundur
Miðvikudaginn 21. apríl 1993, kl. 01:40:53 (7379)

     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Ég ætla mér ekki að lengja þessa umræðu um þetta mál mikið. Hér er um nokkuð mikinn lagabálk að ræða og ég vil lýsa stuðningi við það að setja ítarlegar reglur um það vandasama málefni sem hér er tekið til meðferðar um fjöleignarhús. Þetta frv. er dæmigert mál sem þarf að fá vandlega skoðun í nefnd og ég hef tækifæri til þess í félmn. að fjalla um það. Hins vegar sýnist manni í fljótu bragði við yfirlestur á þessu máli að hér sé um ansi mikla forræðishyggju að ræða í mörgum tilfellum og væri ástæða fyrir félmn. að fara rækilega yfir það hvort ástæða er til þess að setja svo ítarleg lög sem þetta frv. ber vitni. Það er spurning hvort það er þörf á því að setja það í lög að stjórnarmenn, framkvæmdastjóri og húsvörður séu skyldir til að mæta á fund nema fundarseta þeirra sé bersýnilega óþörf eða þeir hafi lögmæt forföll. Þetta er kannski heldur mikið af því góða. Síðan er endurskoðendum húsfélagsins skylt að sækja fund og taka til máls. Þetta er komið inn í lagatexta. Ég held það væri ástæða fyrir félmn. að fara nokkuð krítískt í þennan texta og velta því fyrir sér hvort það er ástæða til þess að hafa þennan lagatexta svo ítarlegan sem raun ber vitni.
    Hins vegar er náttúrleg alveg nauðsynlegt eins og stendur í 3. gr. að skilgreina það að með húsi í lögum þessum er átt við byggingu sem varanlega er skeytt við land. Þetta er náttúrlega alveg nauðsynlegt að taka fram.
    Ég ætla ekki að lengja umræðu um þetta mál, ég tel þessa lagasetningu þarfa en ég held að það eigi að varast að setja alla mögulega og ómögulega hluti inn í lagatexta, húsnæðislöggjöfin er því marki brennd því miður að það er verið að setja lög um alla mögulega og ómögulega hluti og þetta er viðbót við þá lagasetningu. Ég ætla að sjálfsögðu ekkert að hafna þessu frv. en eins og ég sagði í upphafi þá er hér þörf á því að það séu skýrar og ákveðnar reglur til þess að fara eftir í sambýli og mikil þörf á slíku en ég held að það megi gera of mikið af öllu og það verði að fara yfir þetta frv. með tilliti til þess.