Vegalög

161. fundur
Miðvikudaginn 21. apríl 1993, kl. 14:53:55 (7405)

     Jóhann Ársælsson (andsvar) :

    Virðulegur forseti. Ég var út af fyrir sig ekki að gagnrýna þessar aðferðir samgrh., þ.e. þær að færa þessi mál yfir til Vegagerðarinnar, ég held að það geti út af fyrir sig geti verið rétt ákvörðun þegar til lengri tíma lítur en það breytir engu í sjálfu sér um það hvernig að þessum málum hefur verið unnið. Hæstv. ráðherra nefndi t.d. Akraborgina. Í því fyrirtæki á ríkið 65% og hefur átt til margra ára. Skuldirnar hafa verið í Ríkisábyrgðasjóði og verið þar á vanskilavöxtum. Menn hafa verið að reikna upp tölur í þessu dæmi sem gefa núna í dag, eins og hæstv. ráðherra sagði, eitthvað um 100 millj. kr. í skuldum. En auðvitað er það ekki boðlegt að ríkið standi svona að málum þar sem það er meirihlutaeigandi og ætti út af fyrir sig ekki að breyta neinu þó það hefði komið yfir til Vegagerðarinnar, en mér þykir það gott ef hæstv. ráðherra stendur þá við það að koma þessum málum öllum í betra horf. Það er ekki nýtt að menn hafi gert rekstraráætlanir fyrir þessi skip og ég held að það sé út af fyrir sig ekki neitt til þess að hæla sér af en auðvitað er það nauðsynlegt og til þess að menn hafi yfirsýn yfir þessi verkefni. Ég mótmæli því heldur ekki að menn skoði málin upp á nýtt eins og það hvort það eigi að reka skip eins og Akraborg eða önnur af þeim skipum sem hér er verið að reka á ferjuleiðum. En mér finnst að það sé í sjálfu sér erfitt að sætta sig við það að þessi nýi póstur komi bótalaust yfir á vegaféð. Ég tel að það hefði verið ástæða til þess að það hafi verið staðið myndarlegar að þessum málum þegar Vegagerðin yfirtók þennan rekstur.