Vegalög

161. fundur
Miðvikudaginn 21. apríl 1993, kl. 15:52:06 (7414)


     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég kann stórum betur við tóninn í hæstv. samgrh. núna þegar hann ræðir þetta svona. Það er alveg rétt að framsöguræða hans í málinu í byrjun var áreitnislaus, það var frekar það sem fram kom í umræðunum síðar þegar hann svaraði hv. 1. þm. Norðurl. e. sem ég sá ástæðu til að gera athugasemdir við en auðvitað einnig ýmis ummæli innan þings og utan sem hann hefur viðhaft um þessi mál á undanförnum mánuðum. En rökræður um þetta mál á þeim nótum, sem áðan fóru fram af hálfu hæstv. ráðherra, eru af allt öðrum toga og ég er meira en tilbúinn til að taka þátt í þeim. Þá get ég lýst því yfir að ég er alveg sammála hæstv. samgrh. um það að í þessum málaflokki sem og mörgum fleirum hefur frágangur málanna þegar að því er komið að ákveða hvernig greiða skuli af teknum lánum með ríkisábyrgð eða beinlínis af ríkinu og vistuð í Ríkisábyrgðasjóði alls ekki verið sem skyldi, það er alveg hárrétt. Við bjuggum um árabil við það að þegar lánin höfðu einu sinni verið tekin og vistuð í Ríkisábyrgðasjóði þá var það upp og ofan hvort eitthvað var greitt af þeim eða ekki. Í mörgum tilvikum hafa þau safnast þar upp eða legið þar árum saman og frægt er náttúrlega dæmið af flugstöðinni sem var nefnt áðan.
    Mér er tjáð að enn séu ógreidd og í óskilum og afvelta lán sem eru að verða hátt í áratugagömul vegna raðsmíðaskipanna svonefndu og um allt þetta má lesa í ýmsum skýrslum frá Ríkisendurskoðun sem hefur farið yfir þessa deild undanfarin ár. Auðvitað er alveg hárrétt að þar er margt alls ekki í því lagi sem það ætti að vera. Þar deila náttúrlega allir, sem að málunum hafa komið undanfarin ár, ábyrgðinni og rétt að hver axli sitt í þeim efnum. Að öðru leyti vísa ég til þess sem ég áður sagði, hæstv. forseti, ég tel að ég hafi þar komið mínum sjónarmiðum fullnægjandi á framfæri.