Lendingar ferjuflugvéla á Rifi

161. fundur
Miðvikudaginn 21. apríl 1993, kl. 17:13:34 (7430)

     Flm. (Ingibjörg Pálmadóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þál. á þskj. 774 um lendingu ferjuflugvéla á Rifi. Auk mín eru flm. Guðjón Guðmundsson og Jóhann Ársælsson.
    Þáltill er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að kanna möguleika á aukinni notkun flugvallarins á Rifi á Snæfellsnesi til móttöku erlendra ferjuflugvéla. Í því skyni skipi ráðherra nefnd sem í eigi sæti m.a. fulltrúar Flugmálastjórnar og heimamanna. Skal nefndin gera úttekt á flugvellinum og tillögur að úrbótum, svo og hvernig fá megi erlenda ferjuflugmenn til að nota flugvöllinn. Nefndin ljúki störfum eigi síðar en 1. janúar 1995.``
    Í grg. segir:
    ,,Á undanförnum árum hefur margsinnis verið bent á hve margir flugvellir úti á landi eru vannýttir á meðan mikið álag er á Reykjavíkurflugvelli. Þar sem mikil nauðsyn er á að nýta sem best þau mannvirki, sem fyrir eru í landinu, er eðlilegt að athugað sé hvort ekki megi nýta eitthvað af ónýttum flugvöllum til móttöku ferjuflugvéla. Samkvæmt skilgreiningu samgönguráðuneytisins er ferjuflug ,,þegar loftfari er flogið (venjulega án farþega eða farms) milli staða, til dæmis til afhendingar nýjum eiganda eða milli viðhaldsstöðvar og heimaflugvallar``. Það sem í daglegu tali er nefnt ferjuflug er einkaflug, leiguflug eða annað þjónustuflug og ferjuflug. Á árunum 1988--1992 voru skráðar lendingar minni flugvéla (með hámarksmassa undir 5.700 kg), sem höfðu viðkomu hér á landi, alls 12.322 eða 2.464,4 að meðaltali á ári. Árið 1988 voru 1.420 (62,4%) lendingar á Reykjavíkurflugvelli en 854 (37,6%) á Keflavíkurflugvelli. Lendingum ferjuflugvéla í Reykjavík hefur síðan fækkað ár frá ári og voru þær á því síðasta 1.126 (47,8%) á móti 1.231 (52,2%) í Keflavík. Ástæður þess má eflaust rekja til aukins kennslu- og einkaflugs í Reykjavík, auk umræðna í tengslum við flugslys við Reykjavíkurflugvöll um staðsetningu vallarins og þá hættu sem fylgir aðflugi og lendingum ferjuflugvéla á honum.
    Á flugvellinum á Rifi á Snæfellsnesi eru tvær flugbrautir og báðar með bundnu slitlagi. Önnur er 1.000 metra löng með olíumöl sem slitlagi og er búin flugbrautar- og aðflugshallaljósum. Hin er 800 metra löng þverbraut með klæðningu sem slitlag.
    Staðsetning flugvallarins á Rifi er að mörgu leyti heppileg til móttöku erlendra ferjuflugvéla. Er því eðlilegt að fela samgönguráðherra að kanna möguleika á aukinni notkun hans í þessu skyni. Minni erlendar flugvélar geta lent á flugvellinum í samræmi við brautarlengdir og burðarþol flugbrauta. Hins vegar þyrfti væntanlega að bæta aðflugs- og snjóhreinsibúnað og eldsneytisafgreiðslu á vellinum ætti að auka notkun hans til móttöku á erlendum ferjuflugvélum. Þá þyrfti einnig að lengja opnunartíma vallarins og auka veðurupplýsingagjöf. Allt kostar þetta nokkra peninga. Því er hér lagt til að ráðherra skipi nefnd með þátttöku Flugmálastjórnar og heimamanna, auk annarra til að gera úttekt á flugvellinum og gera tillögur að úrbótum, þannig að leiða megi í ljós hagkvæmni þessara ráðstafana. Rétt þykir að nefndin skili áliti eigi síðar en 1. janúar nk.``
    Virðulegi forseti. Ég held ég þurfi ekki að hafa mörg orð um þessa tillögu, hún skýrir sig sjálf. Það er sem sé verið að gera tillögu um það að nýta betur þá fjárfestingu sem er úti á landi og ég vona að sú nefnd sem lagt er til að þarna verði skipuð verði skipuð hið allra fyrst. Ég legg til að að lokinni umræðu um þetta mál verði þessari tillögu vísað til hv. samgn.