Ferðaþjónusta

161. fundur
Miðvikudaginn 21. apríl 1993, kl. 17:51:25 (7437)

     Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. ræðumanni, Tómasi Inga Olrich, fyrir hans orð og vil taka undir með honum að það er vissulega vandasamt verk að semja heildarlöggjöf af þessu tagi og ég tala nú ekki um þegar taka þarf að mörgu leyti tillit til nýrra sjónarmiða sem fram eru komin á síðustu árum og auðsjáanlega er kannski óvíða vandasamara að samræma við ríkjandi viðhorf eða fyrri viðhorf á sviði atvinnugreinar af þessu tagi eins og þegar í hlut eiga ferðamálin. Þá á ég auðvitað sérstaklega við ný viðhorf manna til umhverfisverndar og hugmynda um sjálfbæra þróun hlutanna sem kannski eiga hvergi betur við í raun í hnotskurn en einmitt í ferðamálunum því svo náskyld er sú grein og nátengd auðvitað hvað alla framtíðarmöguleika og afkomu snertir því að skynsamlega sé gengið um auðlindina, náttúruna í þessu tilviki.
    Aðeins vegna þess að hv. þm. nefndi til marks um það hversu erfitt þetta verk væri að í tíð fyrri ríkisstjórnar hefði ekki náðst að afgreiða þessi þingmál, þá er það rétt og ég get vissulega tekið undir það að það voru vonbrigði sérstaklega hvað frv. snertir að það skyldi ekki ná fram að ganga. Það var að vísu mjög langt komið. Þannig var að nefndin sem skipuð var um mitt sumar eða snemma sumars 1989 skilaði af sér á árinu 1990 í áföngum og frv. var lagt fyrir þingið sem sigldi í kjölfarið og var þannig statt þegar þingi lauk óvenju snemma sökum alþingiskosninga vorið 1991 að það beið 2. umr. í seinni deild, efri deild þingsins, en hafði verið afgreitt í gegnum neðri deild samhljóða. Þess vegna kom það mönnum nokkuð á óvart að upp reis ágreiningur um málið í síðari þingdeild sem varð þess valdandi í tímahraki síðustu daga þinghaldsins, sem ekki var hægt að framlengja sökum í hönd farandi alþingiskosninga, að málið dagaði uppi. Það var slys og menn væru nokkuð betur staddir að mínu mati í þessum efnum í dag ef þetta mál hefði náð fram að ganga.
    Reyndar var allt gert af hálfu þeirra aðila sem að undirbúningnum stóðu til þess að reyna að tryggja sem víðtækasta samstöðu um þetta mál. Þar á meðal voru skipaðir fulltrúar þingflokka stjórnarandstöðunnar í endurskoðunarnefndina sem náði samstöðu og lagði síðan fram sameiginlegt álit og samkvæmt venju hefði maður búist við og bjóst reyndar við að það mundi að sjálfsögðu greiða götu málsins í gegnum þingið að í nefndinni höfðu starfað hv. þáverandi alþm. Friðjón Þórðarson fyrir Sjálfstfl. og Kristín Einarsdóttir fyrir Kvennalista, höfðu skilað og skrifað undir sameiginlegt nál. og þar með var fram lagt þetta frv. En þetta fór nú engu að síður eins og það fór og þýðir ekki að fást um það. Mín heilræði til núv. ríkisstjórnar, reyni hún að koma sér að verki í þessum efnum sem ég vil vona að hún geri, eru einmitt þau að reyna frá byrjun að standa þannig að málum með tilliti til þess að þetta er vandasamt verkefni að reyna að ná um það sem víðtækastri samstöðu og þá þannig að fulltrúar allra stjórnmálaflokka séu hafðir með í ráðum. Ég er þess boðinn og búinn hvenær sem er að leggja þessum málaflokki lið ef maður finnur fyrir vilja til þess að þiggja slíka liðveislu og vona að þannig geti málin þróast og þessi orðaskipti okkar hér leggi lóð á þá vogarskál.