Ólympískir hnefaleikar

162. fundur
Mánudaginn 26. apríl 1993, kl. 15:03:04 (7450)

     Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er nú ekki hnefarétturinn heldur það að þeir sem stunda þessa íþróttagrein eins og ýmsar aðrar verða að ná valdi á sjálfum sér, á andlegu hliðinni til þess að ná árangri. Það er grundvöllur árangurs í flestum íþróttagreinum að menn séu andlega vel undirbúnir og það er það atriði sem hefur skipt mestu máli að mati þeirra sem rannsökuðu þetta mál. Á grundvelli þeirra upplýsinga sem ég hef um málið sem er fyrst og fremst hin ítarlega sænska skýrsla þá tel ég sjálfsagt að leyfa þessa keppnisgrein. Hins vegar geri ég mér það alveg ljóst að þegar hreyfa á við áralöngu banni, þá vilja menn kannski fá staðfestingu úr fleiri áttum og því er farin sú leið að leggja til að afla upplýsinga, ekki bara þeirra upplýsinga sem við höfum heldur annarra upplýsinga sem fyrir liggja og fylgir raunar með listi yfir í sænsku skýrslunni þannig að menn geta sótt sér þau gögn og þegar það liggur fyrir og ef það er í samræmi við það sem ég hef séð, þá mundi ég greiða atkvæði með því að þessi grein yrði leyfð. Hins vegar ef þessar frekari upplýsingar væru í ósamræmi eða hnigu að öðru leyti í aðrar áttir, þá væri ég kannski með efasemdir um málið. Ég lít því svo á að það sé skynsamlegt að vinna að því að breyta þeim lögum sem eru á grundvelli upplýsinga og staðreynda og tel að menn megi síst af öllu leggjast gegn því og mér finnst það alveg ótrúleg afdalamennska að tala eins og hv. 2. þm. Vesturl. gerði hér í andsvari.