Námsbraut í öldrunarþjónustu

162. fundur
Mánudaginn 26. apríl 1993, kl. 15:30:41 (7454)

     Flm. (Finnur Ingólfsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um námsbraut í öldrunarþjónustu sem er á þskj. 852 og er 500. mál þingsins. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir og Jón Kristjánsson. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að koma á fót námsbraut í öldrunarþjónustu við framhaldsskólana fyrir þá sem hefðu hug á að stunda heimaþjónustu við aldraða sem atvinnu.``
    Evrópubandalagið og Evrópuráðið hafa valið árið 1993 ár aldraðra í Evrópu. Í löndum Evrópu verður með margvíslegum hætti vakin athygli á stöðu og kjörum aldraðra. Allir sem láta málefni aldraðra sig varða, þ.e. aldraðir sjálfir, stjórnmálamenn og þeir sem vinna með öldruðum um allan heim, standa frammi fyrir sömu vandamálum og sömu spurningum.
    Við Íslendingar lifa nú lengur en íbúar flestra annarra landa og með ári hverju fjölgar ellilífeyrisþegum hér á landi. Mikil uppbygging hefur á síðustu árum orðið í málefnum aldraðra fyrir tilstilli ríkisvalds, sveitarfélaga, dugmikilla einstaklinga og félagasamtaka sem stofnuð hafa verið í kringum málefni aldraðra. Stór hópur aldraðra býr við góða heilsu og er andlega hress. Þessir einstaklingar hafa væntingar til áframhaldandi þátttöku í daglegu lífi. Aðrir sem ekki njóta góðrar heilsu gera kröfu um aðstoð og þjónustu á heimilum sínum sem auðveldar þeim að búa sem lengst á eigin heimili. Til að hægt sé að veita slíka þjónustu þarf á vel menntuðu og þjálfuðu starfsfólki að halda. Til þessa hefur verið gengið út frá því sem vísu að hinir og þessir geti sinnt öldrunarþjónustu og til þess þurfi ekki sérstaka menntun, nema þá helst menntun í umönnun sjúkra. Þetta er alrangt því að góð öldrunarþjónusta krefst góðrar menntunar, hún krefst starfsfólks sem hefur góða menntun, mikla reynslu og þjálfun. Staðreyndin er sú að kunnáttuleysi starfsmanna í öldrunarþjónustu er vísasti vegurinn til að gera hana kostnaðarsamari og afkastalitla. Um þetta höfum við mörg dæmi sem ég ætla ekki sérstaklega að fjalla um hér að þessu sinni.
    Öldrunarþjónustan er orðin umfangsmikil starfsgrein og því eðlilegt að ætla öldrunarfræði ákveðinn stað í menntakerfinu sem ekki hefur verið gert fram undir þetta. Því er hér lagt til að skipulögð verði sjálfstæð námbraut í öldrunarfræði við framhaldsskólana hliðstæð uppeldisbraut, þ.e. eins og uppeldisbrautirnar eða heilbrigðisbrautirnar þar eru og jafngildi þeirra í stigum. Námi á öldrunarbraut í framhaldsskóla að viðbættum verkþjálfunarþætti er ætlað að gefa viss réttindi við öldrunarþjónustu auk þess að vera grunnur undir frekara nám.
    Staðreyndin er sú að þetta er orðið löngu tímabært og væri því ágætt á ári aldraðra að fá slíka þáltill. samþykkta og að það skref yrði stigið strax haustið 1993 að slíkri námsbraut væri komið upp við framhaldsskólana. Það er nú ekki margt á prjónunum til þess hér á Íslandi að vekja máls og athygli á ári aldraðra sem svo hefur verið valið. Þetta gæti þó verið einn vottur þess.
    Að lokinni þessari umræðu legg ég að til að þessari þáltill. verði vísað til síðari umr. og hv. menntmn.