Öryggis- og varnarmál Íslands

163. fundur
Þriðjudaginn 27. apríl 1993, kl. 18:33:58 (7509)

     Björn Bjarnason :
    Frú forseti. Ég vil aðeins víkja nokkrum orðum að ræðu hv. 10. þm. Reykv., þar sem hún vék sérstaklega að því m.a., að ríkin í Austur-Evrópu kvörtuðu undan því að ríkin í vesturhluta álfunnar sýndu ekki nægilegan sveigjanleika í afstöðu sinni til breyttra aðstæðna og ekki nægilega skjót viðbrögð. Það sem þessi ríki eiga við er það að ríkin í vesturhluta Evrópu hafi ekki viljað hleypa þessum ríkjum inn í Atlantshafsbandalagið, Evrópubandalagið og önnur samtök sem þessi lýðræðisríki hafa stofnað. Það er það sem þau eiga við og fram hefur komið og kom m.a. fram hér á landi um síðustu helgi þegar ráðuneytisstjóri ungverska utanríkisráðuneytisins heimsótti landið. Það er einnig rangt hjá hv. 10. þm. Reykv. að halda því fram að það sé einhver vafi um það að það hafi verið hætta í Evrópu í kringum 1950. Ný gögn sýna ótvírætt að það lágu fyrir áætlanir um það hvernig ætti að leggja undir sig vesturhluta Evrópu með hernaðarátökum sem hæfust í Austur-Þýskalandi. Það liggja fyrir upplýsingar um þetta, það liggja fyrir m.a. birgðir af umferðarmerkjum sem átti að setja upp víða í Vestur-Evrópu, það liggja fyrir bunkar af fölsuðum peningaseðlum sem átti að dreifa, það liggja meira að segja fyrir haugar af heiðursmerkjum sem átti að veita þeim hermönnum sem hefðu tekið þátt í þessari sigurgöngu kommúnistmans vestur á bóginn. Þessar upplýsingar liggja allar fyrir og það er fráleitt að láta eins og ekkert hafi verið upplýst um þessa þætti nú eftir að kommúnistminn hrundi. Þetta hefur þvert á móti allt verið staðfest það sem menn töldu hættulegast varðandi stefnu kommúnistmans hér í Evrópu.
    Varðandi þann þátt í skýrslu nefndarinnar þar sem talað er um afstöðu annarra ríkja til þess að Ísland taki þátt í Vestur-Evrópusambandinu þá er ástæðan fyrir því að nefndin lagði sig eftir að kynnast viðhorfum annarra þjóða í þessu efni að hér var því haldið fram á Íslandi í umræðum um þátttökuna í Vestur-Evrópusambandinu að hún væri í óþökk Bandaríkjanna og ýmissa samaðila okkar að Atlantshafsbandalaginu. Þetta var mikilvægur liður í málflutningi ýmissa og það var nauðsynlegt þegar nefndin fór af stað að kanna þetta mál að komast að niðurstöðu og kanna viðhorfin og hún kynnti niðurstöðu sína í skýrslunni þannig að þær röksemdir að þetta væri í óþökk bandamanna okkar reyndust á röngum forsendum reistar. Þetta vildi ég aðeins láta koma fram í tilefni af ræðu hv. 10. þm. Reykv. Ég vil einnig vekja máls á því sem hún gat um í lok ræðu sinnar þar sem hún vitnaði í lokamálsgrein skýrslunnar eins og ég gerði í minni fyrri ræðu að þar er einmitt drepið á atriði sem þarf að ræða. Eins og ég sagði í minni ræðu þá lítum við á þetta sem grunn að frekari umræðum og þetta er atriði sem mér finnst að sé nauðsynlegt að varpa ljósi á. E.t.v. er þetta ekki það áhyggjuefni sem þarna er nefnt. En engu að síður er þetta atriði dregið fram og það er ekki hægt að ætlast til þess að menn svari öllum slíkum spurningum í skýrslu sem þessari. Það þarf að varpa þeim fram og fá umræður um þær og skoða málið og vonandi gerist það í framhaldi af þessum umræðum að við munum ræða þetta frekar. Og mér finnst fráleitt hjá hv. þm. ýmsum sem hér hafa látið það í ljós að vegna þess hverjir sömdu þessa skýrslu þá muni hún aldrei verða neitt nema tímabundin álitsgerð og aldrei verði tekið mið af henni nokkru sinni eftir að þessi ríkisstjórn er farin frá, það finnst mér fráleitt. Auðvitað verður hún eins og hvert annað skjal sem menn munu taka mið af í umræðum hér á landi. Hún verður innlegg í umræðurnar og hún byggist á mati á tímum sem við nú lifum og það verður vísað til hennar sem slíkar. Hún verður að sjálfsögðu ekki sígilt bókmenntaverk eða verk sem menn geta að eilífu stuðst við þegar þeir taka afstöðu til okkar utanríkismála en hún er mat á stöðunni eins og hún er í dag og ég er viss um að þótt tíu manns hefðu verið í nefndinni þá hefði niðurstaðan að því leyti orðið hin sama. Hún hefði að vísu ekki orðið hin sama varðandi ýmsar niðurstöður sem dregnar eru og viðhorf nefndarmanna til Atlantshafsbandalagsins, til varnarsamningsins, því þessar umræður hér hafa dregið það greinilega fram að það er ágreiningur um þessi grundvallarsjónarmið. Og þeim verður ekki eytt með þessari skýrslu en hins vegar er nauðsynlegt að vekja athygli á þeim og það hefur komið fram í umræðunum. Þannig að mér finnst ástæðulaust að gera lítið úr skýrslunni vegna þess hverjir sátu í nefndinni. Það er nær að meta hana sem framlag til umræðnanna. Og það þótti mér hv. málshefjandi, hv. 8. þm. Reykn. gera og hann gerði það með þeim hætti að það var greinilegt að hann a.m.k. telur að hér sé um skjal að ræða sem ástæða sé til að ræða frekar og skoða með framtíðina í huga. Það kom greinilega fram ágreiningur á milli hans og hv. 4. þm. Norðurl. e. að þessu leyti og hv. 1. þm. Norðurl. v. að þessu leyti þannig að þessi umræða hefur dregið fram ágreining um þetta atriði. Ég veit ekki hvar ég á að flokka hv. 10. þm. Reykv. í því efni en ef ég mætti gera það þá finnst mér hún nú fremur hallast að því að skýrslan sé viðfangsefni sem eigi að ræða um þótt núv. ríkisstjórn færi frá völdum.