Öryggis- og varnarmál Íslands

163. fundur
Þriðjudaginn 27. apríl 1993, kl. 18:40:39 (7510)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég vil láta það koma fram að þeir þingmenn Austur-Evrópuríkja sem ég hef hitt nýlega og hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ásamt fleiri íslenskum þingmönnum kvörtuðu ákaflega sárlega undan samskiptum sínum við Evrópubandalagið vegna þess að þeir sögðu beinlínis að talið um verslunarfrelsið, frelsistalið væri orðin tóm. Evrópubandalagið girti sig af fyrir þeirra framleiðsluvörum. Og þeir byggðu þessar girðingar með óréttmætum hætti til að verjast innflutningi til Evrópubandalagsins á ódýrum landbúnaðarvörum frá Austur-Evrópu. Þeir hafa ekki margt að selja. Þeir hafa fyrst og fremst ódýrar landbúnaðarvörur að selja en Evrópubandalagið ver sig gegn þeim og þeir tala um ,,unfair trade barriers`` á enskunni og nota jafnvel stærri orð en það. Þetta bið ég nú hv. 3. þm. Reykv. að kynna sér í ferðasögu sem fulltrúar Íslands í þingmannanefnd EFTA hafa verið að skoða í dag. Ritari okkar hefur gert útdrátt um síðustu ferð okkar til Genfar og þar kemur þetta einmitt mjög skýrt fram.
    Ég lít svo á að það sé ofætlun að telja þessa skýrslu grunn að einhverri mikilli framtíðarumræðu um öryggismál Íslands. Ég held að það sé alger misskilningur hjá hv. 3. þm. Reykv. að þeir hafi verið að skrifa einhverja Njálu með þessari skýrslu. Það er þeirra mat á stöðunni í dag sem fram kemur í skýrslunni. Ég tel að það sé rangt og einsýnt kaldastríðsmat á stöðunni og ég á ekki von á því að í framtíðinni verði þetta talið einhvert sérstakt stórinnlegg í utanríkisstefnu Íslendinga.