Öryggis- og varnarmál Íslands

163. fundur
Þriðjudaginn 27. apríl 1993, kl. 19:08:57 (7514)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég verð að játa það að mér þótti gott að kratarnir voru ekki alveg klumsa í þessari umræðu og þagnarbindindið rofnaði á hæstv. utanrrh. enda er honum málið að vissu leyti skylt og ekkert óeðlilegt við það þó hann taki til máls þegar utanríkismál eru til umræðu á Alþingi. Hann gerði það sannarlega í sínum gamla alþýðubandalagsstíl, þ.e. ,,kommajargon`` sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún nefndi áðan. Og það læðist að mér illur grunur. Ég hélt að kommúnisminn væri dauður en kannski er einhver neisti ennþá logandi í brjóstinu á hæstv. utanrrh. Ég ætla að biðja hv. 3. þm. Reykv., sem er eins og menn vita mjög grandvar í umgengni sinni við kommúnismann og tortrygginn, að gefa gaum að þessu hvort það gæti skeð að það hefði þarna leynst einhver neisti og væri falin þarna kommúnistaglóð í brjóstinu á hæstv. utanrrh.
    Ég held að hæstv. utanrrh. hafi tekið vitlaust eftir þegar hann var að hlusta á mig talandi um Vestur-Evrópusambandið, það er altítt með kommúnista að þeir taki vitlaust eftir. Ég þekki dálítið til á öðrum Norðurlöndum eins og hann og ég veit ósköp vel að Finnar, Svíar og Norðmenn hafa mikinn áhuga á inngöngu í Evrópubandalagið. Forustumenn þeirra koma til dyranna, eða utanríkisráðherrar þeirra, eins og þeir eru klæddir og segja það sem þeir meina en eru ekki að pukrast með þessa löngun sína eins og hæstv. utanrrh. á Íslandi. Það er helst að það losni um málbeinið á honum á góðri stund í útlöndum þegar hann er að kvarta undan því að Íslendingar séu tíu árum á eftir öðrum Norðurlöndum í framkvæmd þarfra mála.
    Hæstv. utanrrh. er ekki hreinskilinn í þessu efni, ekki jafnhreinskilinn a.m.k., hann ýjaði að þessu í skýrslu sinni til Alþingis um utanríkismál í fyrra en opnaði skáphurðina vitundarögn en kom ekki út eins og hv. þm. Karl Steinar Guðnason, eða hv. 3. þm. Reykv. eða hv. 5. þm. Norðurl. v., þeir hv. þm. Björn Bjarnason og Vilhjálmur Egilsson.
    Ég var að vekja athygli á því að vinir okkar og frændur Danir, sem þrátt fyrir það að vera bæði í NATO og í Evrópubandalaginu, vilja ekki gerast aðilar að Vestur-Evrópusambandinu. Það finnst mér fréttnæmast um afstöðu Norðurlanda til Vestur-Evrópusambandsins.
    Það er tilfellið að ég er mikill vinur Bandaríkjamanna. Járntjaldið er fallið en það er nýtt tjald að myndast á milli Bandaríkjanna og Evrópubandalagsins. Það verður átakasviðið á næstu árum þar sem skarast hagsmunir Bandaríkjamanna og Evrópubandalagsins. Ríkisstjórn Íslands er að basla við að færa okkur og staðsetja okkur Evrópubandalagsmegin við þetta tjald og það held ég að sé ekki skynsamlegt.
    Það er mikill misskilningur að ég sé einhver utanríkisráðherra í skuggaráðuneyti hjá Framsókn. Ég er hins vegar annar af tveimur fulltrúum flokksins í utanrmn. og leyfi mér að taka einstöku sinnum til máls um utanríkismál í þessum þingsal.
    Mér þóttu það ljótar fréttir sem hv. 3. þm. Reykv. upplýsti áðan að kommúnistarnir höfðu verið búnir að búa til heilmikið af umferðarmerkjum og peningum til þess að gera illt af sér á Vesturlöndum og jafnvel heiðursmerkjum líka. Ég held að kommúnistarnir hafi verið að hanna atburðarás eins og hv. 8. þm. Reykn. gerir iðulega því iðulega langar hann til að hanna atburðaráðs en hún gengur ekki alltaf eftir fremur en þetta með umferðarmerkin hjá kommúnistunum.