Opnun sendiráðs í Peking

163. fundur
Þriðjudaginn 27. apríl 1993, kl. 22:30:32 (7536)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :

    Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins ítreka eina spurningu til hæstv. utanrrh. sem ég bar fram til hans og ekki kom svar við og það var hvort ekki stæði nú til að gera breytingu á því neyðarlega fyrirkomulagi sem er í utanríkisþjónustunni að sendiherra Íslands í Japan er með aðsetur í Moskvu. Það þarf ekki mikinn rökstuðning til að lýsa því hvað þetta er afleitt fyrirkomulag þar sem ríkin tvö áttu í styrjöld og hafa aldrei samið frið og samskipti milli þeirra taka eðlilega mið af því að þar er aðeins um að ræða vopnahlé en ekki friðarsamninga. Ég veit að það skiptir nokkru máli að á þessu verði breyting og ég vildi því leyfa mér, virðulegi forseti, að ítreka spurningu mína til hæstv. utanrrh. um það hvort ekki standi til á næstunni að gera breytingar á því fyrirkomulagi að sendiherra Íslands í Japan sitji í Moskvu.