Sjávarútvegsstefna

164. fundur
Miðvikudaginn 28. apríl 1993, kl. 14:29:08 (7557)

     Sigbjörn Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu tillaga Alþb. um sjávarútvegsstefnu sem fjallar um að fela sjútvn. Alþingis að endurskoða lög um stjórn fiskveiða. Nýlega fór fram hér á hinu háa Alþingi umræða um þáltill. nokkurra alþýðubandalagsmanna um smábátaveiðar. Það er nokkuð sérkennilegt að Alþb. skyldi ekki renna þessum tillögum saman í eina. Ef til vill er samstaðan í Alþb. um málefni sjávarútvegsins ekki eins mikil og menn þar á bæ vilja vera láta. Í greinargerð með tillögunni um sjávarútvegsstefnu segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Í Alþb. hafa þau sjónarmið verið ríkjandi að víðtæk samstaða þurfi að vera um endurskoðun laganna um stjórn fiskveiða. Það urðu alþýðubandalagsmönnum þess vegna mikil vonbrigði að ríkisstjórnin skyldi hrifsa málið til sín með þeim hætti sem raun ber vitni. Alþb. hefur með margþættu starfi í stofnunum flokksins undirbúið þátttöku í mótun nýrrar fiskveiðistefnu.``
    Ég held að öllum þeim sem okkar ágæta land byggja sé mikið í mun að víðtæk samstaða náist um stjórnun fiskveiða. Það er ekkert sérmál Alþb. Hitt er svo annað mál að á undanförnum árum hefur auðurinn sem fólginn hefur verið í hafinu umhverfis landið þorrið og því reynist æ erfiðara að ná víðtækum sáttum um stjórnun fiskveiða. Það eru engin ný sannindi að eftir því sem minna er til skiptanna verður erfiðara að rata hinn gullna meðalveg. Það hlýtur auðvitað að vera okkur öllum áhyggjuefni að þrátt fyrir miklar væntingar um aukinn vöxt og viðgang fiskstofna þegar lög um stjórnun fiskveiða voru upphaflega sett, hafa þær væntingar ekki gengið eftir. Það er alvarlegt umhugsunarefni að á undanförnum 16 árum höfum við farið að meðaltali rúmlega 60 þús. tonn umfram tillögur Hafrannsóknastofnunar sem eru 22% að jafnaði.
    Alþb. talar um vonbrigði vegna þess að ríkisstjórnin hafi hrifsað til sín endurskoðun laga um stjórn fiskveiða. Það er nokkuð sérstakt svo ekki sé meira sagt að tala um að ríkisstjórn hrifsi til sín verkefni sem hún er skyldug að láta vinna samkvæmt lögum. Það er augljóslega á verksviði sjútvrh. að standa fyrir endurskoðun laganna og hlýtur að vera óumdeilt. Það verk hefur hins vegar tekið lengri tíma en æskilegt hefði verið. Aftur á móti liggja nú fyrir tillögur og hugmyndir nefndar í þeim efnum og ekki veit ég betur en að samráð hafi verið haft við þá sem lög bjóða. Það má aftur á móti stöðugt um það deila hvort nægjanlegt samráð sé haft um einstök efni og sýnist eflaust sitt hverjum þar um. Alþb. gumar að margþættu starfi í stofnunum flokksins að mótun nýrrar sjávarútvegsstefnu. Ekki dreg ég í efa að svo hafi verið enda lítt kunnugur stofnunum þess flokks. Hins vegar leyfi ég mér að efast um að víðtæk samstaða sé í Alþb. um hvernig lög um stjórnun fiskveiða skuli hljóða. Ég efast fyrst og fremst um samstöðuna í Alþb. um

þessi mál vegna þess að með tillögunni um stjórnun fiskveiða birtist fskj. sem eru drög að frv. til laga um sama efni sem samið er af hv. þm. Jóhanni Ársælssyni. Það er alla vega nokkuð sérstætt að Alþb. skuli ekki leggja fram frv. til laga um þessi efni ef samstaðan er slík sem gefið er til kynna.
    Ég ætla ekki að fjölyrða um frumvarpsdrög Jóhanns Ársælssonar en ég hlýt þó að vekja athygli á hugmyndum um aflagjald sem ég hygg að sé nýmæli hjá Alþb. og vissulega fagnaðarefni að menn á þeim bæ hafi gert sér grein fyrir því grundvallaratriði að ef takmarka á aðgang að sameiginlegri auðlind þjóðarinnar hljóti gjald að koma fyrir sem falli þjóðarheildinni í skaut. Útfærsla Alþb. á aflagjaldinu er þó vægast sagt vafasöm eins og hæstv. sjútvrh. benti á hér á undan. Aflagjaldi sem varið er til greiðslu skuldbindinga hinna ýmsu sjóða sjávarútvegsins eins og ráð er fyrir gert varðandi þróunarsjóðinn falla að sjálfsögðu í hlut þjóðarheildarinnar því ella kæmi það í hlut skattgreiðenda að standa skil á þeim skuldbindingum.
    Virðulegi forseti. Endurskoðun laga um stjórn fiskveiða stendur yfir um þessar mundir og ekki farið fram hjá neinum enda stærsta sameiginlega hagsmunamál þjóðarinnar. Tvíhöfða nefndin svonefnda hefur skilað yfirgripsmikilli og vandaðri skýrslu um málefni sjávarútvegs og tillögum um stjórnun fiskveiða. Það verður að segjast eins og er að skýrsla tvíhöfða nefndarinnar er afar aðgengileg og full af fróðleik svo til fyrirmyndar er. Tillögurnar sem fylgja eru hins vegar umdeildar enda vandséð hvernig gera á tillögur um nýtingu hinnar takmörkuðu auðlindar þannig að víðtæk samstaða náist.
    Ég mun ekki hér og nú fara yfir einstakar tillögur nefndarinnar heldur staldra fyrst og fremst við smábáta og krókaveiðar.
    Eins og fram hefur komið í fréttum og hér við umræðurnar hefur sjútvrh. nefnt annan kost varðandi smábátana en þann sem er að finna í tvíhöfða tillögunum. Þar er horfið frá því að úthluta aflakvóta til einstakra krókabáta en heildaraflamark sett á krókabátana. Heildarkvóti bátanna yrði þá 14.000 þorskígildislestir og fiskveiðiárinu skipt í þrjú tímabil, veiðibann yrði í desember og janúar.
    Ég verð að segja eins og er, virðulegi forseti, að þessar hugmyndir falla mér lítt í geð. Ég óttast mjög að sóknin í upphafi hvers tímabils yrði geigvænleg og kapphlaupið um lífsbjörgina yrði slíkt að stórhætta kynni að stafa af. Það er ófært að setja fram tillögur um stjórnun fiskveiða sem ýti undir og hvetji til sjósóknar þegar veður kunna að vera válynd og skilyrði slæm. Slíkum hugmyndum hljóta menn að hafna.
    Ég tel óþarft að fara yfir tillögur tvíhöfða nefndarinnar um krókabátana. Þær eru öllum kunnar. Með þeim tillögum er verið að festa aflamarkskerfið við allar veiðar. Ég viðurkenni fúslega að ég eins og margir á erfitt með að sætta mig við aflamarkskerfið í heild. Aflamarkskerfið heftir sjálfsákvörðunarrétt og athafnasemi. Það skal þó viðurkennt að ég get ekki fremur en flestir aðrir bent á aðra heppilegri lausn við heildarstjórnun fiskveiða. Ég tel þó afar misráðið að binda aflamarkskerfið við smábáta og tel að eigi að undanskilja þá og fara að hugmyndum fiskiþings og taka um sóknarstýringu varðandi krókabátana. Ég er sannfærður um að mestur friður mun ríkja um slíkar tillögur meðal þjóðarinnar og mestir möguleikar til að ná samkomulagi hér á hinu háa Alþingi um tillögur í þeim dúr.
    Virðulegi forseti. Á stundum er lítið gert úr svonefndum byggðasjónarmiðum og skemmst að minnast orða sem fallið hafa nýlega um að bankakerfið eigi ekki að vera eins konar byggðastofnun og fleira í þeim dúr. Ég get vissulega tekið undir að bankakerfið eigi fyrst og fremst að beita faglegum rökum við ákvarðanatöku en ekki einhverjum öðrum. Ég óttast hins vegar stórlega að ýmis byggðarlög muni lenda í miklum vanda ef aflamarkskerfið á smábáta verður tekið upp. Fólk mun gefast upp á búsetu og hverfa á braut. Á undanförnum árum höfum við varið stórum fjárfúlgum úr opinberum sjóðum til að treysta byggð víða um land. Víst er að margt misviturlegt hefur verið gert hvað það varðar. Um þessar mundir höfum við hins vegar tækifæri til að renna stoðum undir og styrkja byggð víða um land með því að staðfesta sóknarstýringu á smábáta. Slík ákvörðun kallar ekki á bein fjárútlát úr opinberum sjóðum, þvert á móti mun aflamarkskerfi á smábáta ef af verður, verða til þess að verðmæti munu glatast. Íbúðarhúsnæði mun verða yfirgefið, skólar og ýmsar þjónustustofnanir munu standa eftir ónotaðar. Síðan kemur auðvitað að því að byggja þarf yfir þá sem á brott hverfa og þá væntanlega á helstu þéttbýlisstöðum landsins og bankakerfið og opinberir aðilar þurfa að koma til sögunnar. Þá er vandamálið e.t.v. ekki byggðamál, eða hvað?
    Það væri undarlegt ef okkur tækist ekki á hinu háa Alþingi og meðal þjóðarinnar að ná sameiginlegri lausn hvað varðar málefni smábáta og þeirra sem hafa beint og óbeint atvinnu af slíkri útgerð. Lausn sem yrði útlátaminnsta aðgerð sem hugsast getur í byggðamálum. Er það e.t.v. svo að menn eru ekki tilbúnir til að viðhalda og styrkja byggð í landinu nema til fjárútláta þurfi að koma?
    Virðulegi forseti. Mörg fleiri rök hníga í þá veru að staðfest verði sóknarstýring á smábáta. Tími minn leyfir hins vegar ekki að ég fari mörgum orðum þar um. Vert er þó að geta þess að veiðar með krókum eru vistvænar ef svo má að orði komast. Aflinn sem smábátar bera að landi er unninn að mestu á heimaslóð en ekki fluttur lítt eða óunninn úr landi. Þess er og að vænta að með tilkomu EES muni fullvinnsla aflans aukast um land allt frá því sem nú er.
    Mér er ljóst að við þá endurskoðun laga um stjórn fiskveiða sem nú stendur yfir er ekki hlaupið að því að ná víðtækri samstöðu. Helsti ágreiningurinn varðar krókabáta. Það er ljóst að um málamiðlun verður að ræða.
    Ég vil að lokum ítreka að ég tel sóknarstýringuna á smábáta farsælustu lausnina til samstöðu í þessum efnum.