Heimahlynning

165. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 11:43:55 (7623)

     Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. félmrh., starfandi heilbrrh., fyrir þessi svör og þau segja mér fyrst og fremst það að hér í Reykjavík er skipulag heimahlynningar í nokkuð góðu lagi og nokkuð föstu formi og það sé, eins og kom fram í hennar máli, starfandi nefnd sem eigi að móta þetta starf enn betur. En hins vegar er þessi þjónusta samkvæmt svarinu ekki veitt á landsbyggðinni eins og vera skyldi.
    Það sem mér finnst aðalatriðið í þessu máli er að það sé boðið upp á þessa þjónustu og hún sett í ákveðinn farveg. Ég held að það hljóti allt að mæla með því. Það er ekki verið að tala um aukinn kostnað fyrir ríkisvaldið og það held ég að hljóti að skipta máli og það er verið að tala um að bjóða upp á þessa þjónustu, ekki það að neinn væri skyldaður til þess að dvelja heima með krabbamein ef hann vill frekar vera á sjúkrahúsi. Það sem kom fram í máli ráðherra í sambandi við kostnað segir mér að það sé kannski ekki nema eins og einn fjórði af kostnaði við það að liggja á sjúkrahúsi og jafnvel enn minna að dvelja heima og njóta þessarar þjónustu.
    Eins og kom fram í mínu máli áðan þá byggist þetta náttúrlega á því að fjölskylda viðkomandi sjúklings geti verið þátttakandi og nú er svo komið á flestum heimilum að það er öll aðstaða til þess að hafa sjúklinga heima. Aðstæður á heimilum eru orðnar þannig og tækni svo fullkomin að heimilin bjóða upp á það að þessi þjónusta geti farið þar fram. Mér er kunnugt um það að á Akureyri hefur verið unnið mikið sjálfboðastarf á þessu sviði en því miður er þar ekki komið það fyrirkomulag sem tíðkast hér í Reykjavík að Tryggingastofnun taki þátt í kostnaðinum. Ég get því ekki annað en spurt hæstv. félmrh., starfandi heilbrrh., að því hvort henni finnist ekki eðlilegt að þetta starf sem hér hefur þróast á þennan veg yrði útvíkkað þannig að t.d. á Akureyri yrði svipuð þjónusta veitt. Ég vil að síðustu nefna lyfjakostnað í þessu sambandi. Það er náttúrlega galli samfara því að sjúklingur dvelji heima því þá þarf hann að greiða lyfjakostnað að fullu.