Húsnæðisstofnun ríkisins

167. fundur
Föstudaginn 30. apríl 1993, kl. 15:05:52 (7742)

     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Ég las þetta frv. yfir þegar hæstv. ráðherra flutti það á Alþingi og ég verð að segja alveg eins og er að eftir að hafa lesið það yfir er ég eiginlega mjög undrandi á því að ekki skuli hafa orðið meiri breytingar á því.
    Hæstv. ríkisstjórn talar mikið um það að nauðsynlegt sé að dreifa valdi í þjóðfélaginu. Hæstv. ríkisstjórn talar mikið um það að nauðsynlegt sé að aðrir aðilar en pólitískir fari með peningastjórn í landinu. Talað er um að það sé forgangsmál ríkisstjórnarinnar að einkavæða ríkisviðskiptabankana og losa þá undan bankaráðum sem kosin eru hér á Alþingi. Okkur er a.m.k. sagt að það sé mikið stefnumál Alþfl. að breyta ríkisviðskiptabönkunum þannig að þar komi enginn stjórnmálamaður nálægt og látið í það skína að nú þurfi að koma þeim undir almennilega stjórn. En að vísu er ekki samstaða um það mál við Sjálfstfl. og það hefur ekki verið flutt hér.
    Það er jafnframt mikið áhugamál Alþfl. að breyta lögunum um Seðlabanka Íslands. Þar á að breyta bankastjórninni þannig að einn bankastjóri fari þar að mestu leyti með vald og hann sé óháður öllum ríkisstjórnum á hverjum tíma. Þessi bankastjóri á að vera pólitískt skipaður af ráðherra og þess vegna finnst mér að sumu leyti að þetta frv. sé ekki í neinu samræmi hvorki við það sem ríkisstjórnin er að tala um, hvað þá það sem almennt er að gerast í þjóðfélagi okkar.
    Ekki þarf annað en að lesa í gegnum frv. til að sjá hvað hér er verið að tala um. Í 2. gr. stendur, með leyfi forseta:
    ,,Ráðherra ákveður með reglugerð, að fenginni tillögu húsnæðismálastjórnar, skipulag stofnunarinnar, þar á meðal skiptingu hennar í svið eða deildir að því leyti sem ekki er kveðið á um í lögum þessum. Heimilt er að sameina yfirstjórn, rekstur og starfsmannahald tveggja eða fleiri sviða, deilda og sjóða sem kveðið er á um í lögum þessum.``
    Hér er enn á ný eins og er í húsnæðismálunum almennt nákvæm útlistun á því hvað þurfi að gera og hvað megi gera en húsnæðismálalöggjöfin mun nú vera upp undir einar 200 lagagreinar sem fjalla um það hvernig á að fara að því að lána út á húsnæði. Hér er haldið áfram á sömu braut og ráðherra á að ákveða þetta allt saman. Ráðherra á að ákveða skipulag, hvernig stofnuninni er skipt í svið og deildir og það sé að vísu heimilt að beita ráðherravaldi til að sameina yfirstjórn, rekstur og starfsmannahald.
    Í 3. gr. er komið að því að þrátt fyrir þetta allt saman á að vera þarna stjórn. Það á að vera húsnæðismálastjórn fimm manna sem nú er lagt til að verði sjö menn. En ég sé ekki að þessi stjórn eigi nokkurn skapaðan hlut að gera almennt nema með samþykki ráðherra. Ég held að það sé miklu hreinlegra að ganga skrefið til fulls og flytja þennan kontór inn í félmrn. Mér sýnist að það sé það sem verið er að leggja til þannig að ráðherrann hafi jafnvel með að gera hverja einustu lánveitingu.
    Síðan er komið að hlutverki þessarar ágætu húsnæðismálastjórnar í 4. gr. Hún skal að vísu hafa umsjón með fjárhag og rekstri og annarri starfsemi. Síðan er komið að 2. lið. Það er að gera tillögur til félmrh. um fjárhagsáætlun þar sem fram komi sundurliðaður áætlaður rekstrarkostnaður og fyrirhuguð skipting ráðstöfunarfjár milli útlánaflokka byggingarsjóðanna og meginsjónarmið um ráðstöfun þess. Síðan var í 3. lið, sem ég strikaði sérstaklega í, og er nú eiginlega eina breytingin sem gerð hefur verið til bóta, að fella niður úr 3. tölul. eftirfarandi: ,,Áður en lánveiting á sér stað skal leita staðfestingar félmrh. á forsendum lánveitingar og skiptingu lánsfjár milli útlánaflokka.`` Ég skil þetta þannig að það hafi að vísu ekki verið ætlunin að tala um hvert einstakt lán, en svona allt að því. Síðan á þessi ágæta stjórn að fjalla um önnur mál sem ráðherra eða framkvæmdastjóri leggur fyrir hana og síðan á félmrh. að skipa þennan framkvæmdastjóra þannig að það er náttúrlega alveg ljóst að þessi stjórn á ekki að hafa nokkurt sjálfstæði. Mér þykir ólíklegt að menn verði mjög fúsir til að sitja í svona stjórn.
    Nú má það vel vera að núv. húsnæðismálastjórn hafi ekki staðið sig sem skyldi. Ég ætla ekki að dæma um það. En að taka upp breytingar með þessum hætti og setja stjórn yfir stofnun sem á ekki að hafa nokkurt sjálfstæði og væntanlega þá enga ábyrgð heldur, ráðherrann á að hafa allt valdið og þá alla ábyrgðina á málinu því að auðvitað fylgir valdinu ábyrgð, það finnst mér með ólíkindum.
    Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að flytja þessi mál sem mest yfir til viðskiptabankanna. Við eigum nóg af bankastofnunum í landinu og stofnunum út um allt land sem geta annast þessi mál að mjög miklu leyti. Að vísu er heimilt að gera það og getur ráðherra heimilað með reglugerð að það sé gert samkvæmt 8. gr. og 12. gr. þar sem ráðherra fær líka vald til þess. Það sem mér finnst merkilegt í þessu og spyr ráðherra og aðra sem að þessu standa, af hverju er það ekki hreinlega gert? Og af hverju stendur þá ekki hér að það skuli gert ef það reynist hagkvæmt? Ég er alveg viss um að það er það hagkvæmasta sem hægt er að gera. Og manni er spurn: Af hverju þarf að hafa þennan miðstýringarblæ á þessari starfsemi? Getur þessi starfsemi ekki fallið með eðlilegum hætti inn í annað fjármálakerfi þjóðarinnar. Er eðlilegt að þessi mál séu meira og minna inni á skrifstofu félmrh.? Og hvers vegna í ósköpunum sækist hæstv. félmrh. eftir því að hafa þetta með þessum hætti inni á sinni skrifstofu? Ég ætla ekki að leggja dóm á það hvort nauðsynlegt hafi verið að fella niður tækniþjónustu húsnæðismálastjórnar. Það hefur verið mikilvæg þjónusta og oft á tíðum ódýr. ( Gripið fram í: Hönnunardeildina.) Já, hönnunardeildina. En manni er spurn: Af hverju er verið að leggja þessa stofnun niður? Á ekki það sama við um embætti húsameistara ríkisins? Hver er munurinn? Fyrst það stendur til að fella niður hönnunardeild húsnæðismálastjórnar, af hverju á þá ekki

það sama við um húsameistaraembætti ríkisins? Ég er þeirrar skoðunar, að það sé óþarft embætti og mætti leggja niður að ósekju. Ég held að það væri meiri ástæða til að byrja á því, heldur en þessari hönnunardeild, því að ég tel að hún hafi þjónað ýmsum með þeim hætti að það megi vera til umhugsunar. En að sjálfsögðu er það eins og annað sem menn eiga að breyta ef það er hagkvæmt.
    Ég ætla í sjálfu sér ekki að hafa fleiri orð um þetta mál. Það má vel vera að hæstv. félmrh. haldi því fram að svona hafi þetta verið og ég hafi, sem ég hef sjálfsagt gert, stutt ýmis ákvæði laga sem ganga í svipaða átt um húsnæðismálin. Ég skal játa að ég hef aldrei verið hrifinn af þessum lagabálkum um húsnæðismál og tel að þar hafi almennt verið of mikil miðstýringarárátta. Ég hlýt að benda á það að eitt helsta vandamál þjóðarinnar í dag eru miklar persónulegar skuldir einstaklinga og gífurleg aukning á skuldum heimilanna. Ég sé ekki að hæstv. ríkisstjórn sé að gera nokkurn skapaðan hlut til þess að taka á þeim vandamálum, enda virðist hún ekki treysta sér til þess. En hún treystir sér til þess að koma með svona frumvörp sem ganga út á það að festa miðstýringuna í sessi og auka hana. Ég held að það væri raunverulega miklu betra ef stjórnarmeirihlutinn ætlar virkilega að láta þetta verða að lögum, að hafa þau lög þannig að félmrh. fer með húsnæðismál og skal skrifstofa þeirra mála vera í félmrn. því mér finnst að þetta frv. gangi nánast út á það. Og ég spyr eins og fleiri: Hvað gengur mönnum til í þessum efnum?