Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumr.)

168. fundur
Mánudaginn 03. maí 1993, kl. 20:49:56 (7776)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar. Ég er ekki kominn hingað í þessar eldhúsdagsumræður til að segja ykkur að allir okkar erfiðleikar séu að baki. Þær aðstæður sem marka okkur lífskjör eru okkur enn nokkuð mótdrægar, afli mjög takmarkaður og verð hefur lækkað. Undan þessum staðreyndum viljum við ekki víkjast né heldur forðast að horfast í augu við veruleikann. Það reynist aldrei vel að stinga höfðinu í sandinn, hvorki strútum né stjórnmálamönnum, þó það hafi verið reynt í ræðustólnum áðan. En á hinn bóginn þá er ekki vafi á að okkur hefur sameiginlega tekist allvel að mæta þeim erfiðleikum sem við höfum lent í og búa okkur undir betri tíð. Það er full ástæða til þess hér að halda þeim staðreyndum á lofti því við höfum sameiginlega nokkru til fórnað og það hefur þrátt fyrir allt neikvæða talið gengið bærilega í okkar varnarbaráttu.
    Menn hafa rætt um hallann á ríkissjóði og rétt er það, ríkissjóður er enn rekinn með halla. En það er í raun nokkurt afrek hjá fjmrh. að hafa þau bönd á ríkissjóðshallanum eins og honum hefur tekist að hafa á miklum samdráttartímum. Ríkisútgjöldin hafa lækkað og það hefði einhvern tímann þótt saga til næsta bæjar. Þegar aflinn úr sjónum er mikill, þegar verð á okkar vörum er með hæsta móti þá ætti að vera létt að stjórna landi. En það fór heldur lítið fyrir þeirri stjórnun í tíð ræðumannsins sem talaði hér á undan þótt afli hafi þá verið með mesta móti og verð hátt. Þar var gullnum tækifærum kastað á glæ fyrir hönd okkar allra.
    Á síðasta ári, árinu 1992, sem var fyrsta heila starfsár núv. ríkisstjórnar, var verðbólgan á Íslandi að meðaltali 3,7%, mælt á mælikvarða framfærsluvísitölu. Hvað skyldi sú verðbólga hafa verið á síðasta heila starfsári ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar? Hún var 14,8% eða nær fjórum sinnum meiri en á fyrsta starfsári núv. ríkisstjórnar. Auðvitað finnst hv. þm. Steingrími Hermannssyni 14,8% ekki há tala enda sat hann í ríkisstjórn í þrjú ár þegar verðbólgan endaði í 120% og virtist líða ágætlega í þeirri stjórn og í þeirri verðbólgu.
    Núverandi formaður þingflokks Alþb. var fjmrh. í þeirri ríkisstjórn og heildarskuldir Íslendinga jukust að raungildi meira en nokkru sinni fyrr eða síðar á einu ári.
    Formaður Framsfl. spurði um Byggðastofnun og sagði að núv. ríkisstjórn væri búin að lama hana. Það var fyrsta verk núv. ríkisstjórnar að setja 1.200 millj. inn í Byggðastofnun vegna þess með hvaða hætti hafði verið skilið við þá stofnun af þeim ræðumanni sem var í ræðustólnum rétt áðan.
    Við skulum horfa á annan þátt sem oft er ræddur og ástæða er til að ræða. Hin bágu viðskiptakjör okkar hafa auðvitað kostað samdrátt í kjörum hvers og eins Íslendings. En núv. ríkisstjórn hefur reynt að milda eftir mætti það högg. Í þessu sambandi er fróðlegt að bera saman þá kjararýrnun sem varð á fyrsta heila starfsári ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar og það sem nú hefur gerst. Þá kemur í ljós, og það hlýtur að vekja töluverða athygli, að á fyrsta heila starfsári ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar rýrnuðu ráðstöfunartekjur á mann um 7,8% þrátt fyrir að við byggjum þá við mikinn þorskafla. Á fyrsta heila starfsári núv. ríkisstjórnar drógust ráðstöfunartekjur á mann aðeins saman um 2% þrátt fyrir erfiðari skilyrði eins og kunnugt er. Með öðrum orðum var kjararýrnunin nálægt fjórum sinnum meiri á fyrsta heila starfsári ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar og Ólafs Ragnars Grímssonar sem fjmrh. heldur en á fyrsta

ári núv. ríkisstjórnar. Fjórum sinnum meiri kjararýrnun þá.
    Þetta eru merkilegar staðreyndir og við hljótum að ætlast til þess að forustumenn launþega átti sig á þessum staðreyndum og kannist við þær þegar borin er saman afstaða hinna ýmsu stjórnvalda í garð launþega á hverjum tíma. Sem betur fer sjáum við mörg fleiri jákvæð tákn sem athyglisverð eru og full ástæða til að benda á og ítreka. Þannig hefur vöruskiptajöfnuðurinn sem svo er nefndur lagast ár frá ári. Þessi staðreynd þýðir á mannamáli það að við erum sem þjóð að leitast við að eyða ekki um efni fram. Við erum að laga eyðslu okkar að sameiginlegum tekjum þjóðarinnar. Þetta er afskaplega hollt merki og gott merki um að við séum á réttri leið. Þetta merki kallar á annað jákvætt merki, merki um það að okkar sameiginlegi sjóður í erlendum myntum, gjaldeyrisvarasjóðurinn okkar, er nú öflugri heldur en nokkru sinni í annan tíma. Hinu verður ekki á móti mælt að hinn mikli samdráttur í afla og lækkandi verð á okkar mörkuðum hlýtur að koma einhvers staðar niður.
    Við horfum ekki fram hjá því að atvinnuleysi hefur aukist á Íslandi. Sem betur fer þá bendir flest til að þær aðgerðir sem gripið var til í nóvember hafi verulega hægt á atvinnuleysisvextinum. Það er því mjög líklegt að okkur muni takast betur í varnarbaráttunni gegn atvinnuleysinu en flestum eða öllum okkar nágrannaþjóðum. Enda hljótum við að hafna þeim sjónarmiðum sem heyrst hafa að atvinnuleysi verði óhjákvæmilega það sama á Íslandi og í öðrum Evrópulöndum. En þótt atvinnuleysisvofan hafi þannig ekki magnast eins stórkostlega og við höfðum ástæðu til að óttast sl. haust, þá er núverandi staða óásættanleg og við vitum mjög vel að lítið má út af bregða svo atvinnuleysisvofan komist ekki aftur á kreik.
    Í umræðum þeim sem urðu um kjarasamninga á síðustu vikum teygði ríkisstjórnin sig eins langt og frekast var kostur til þess að leggja grundvöll að því að menn gætu samið hér til heldur lengri tíma en gert hefur verið á undanförnum árum. Það virtist vera ríkur vilji hjá æðstu mönnum launþegahreyfingarinnar að ganga þá leiðina og reyna með þeim hætti að tryggja að skilyrði sköpuðust til þess að atvinnulífið gæti lagt á ráðin um fjárfestingar, framkvæmdir og atvinnuþróun til lengri tíma, með öðrum orðum lagt grundvöll að nýjum fjörkipp í íslensku atvinnulífi.
    Það er ekki ástæða til þess að draga hér fjöður yfir að ríkisstjórnin tefldi á tæpasta vað með þeim yfirlýsingum sem hún gaf. Hún taldi hins vegar að sátt á vinnumarkaði væri svo mikilvæg forsenda fyrir því gagnkvæma trausti sem í landinu verður að ríkja þegar aðstæður eru okkur mótdrægar að réttlætanlegt væri að ganga jafnlangt og þar var gert. Ég var og er enn þeirrar skoðunar að allnokkru megi fórna til að tryggja frið á vinnumarkaði. Ófriður þar við núverandi stöðu sé háskalegur og óvissan ein sé nægjanlega erfið. Friður á vinnumarkaði er veigamikill þáttur stöðugleikans en hann er langmikilvægasta forsenda þess að við getum snúið vörn í sókn í atvinnumálum.
    Ekki veit ég hvar síðasti ræðumaður hefur verið undanfarnar vikur fyrst hann lýsti því yfir hér að ríkisstjórnin hefði hafnað því að ganga til móts við launþegahreyfingarnar í landinu í þessum efnum. Það er fjarri öllu sönnu og það ættu allir að vita sem fylgst hafa með, a.m.k. í smáum stíl, því sem hefur gerst á undanförnum dögum og vikum.
    Góðir Íslendingar. Það er ekki ofsagt að það var hörmung hvað síðasta ríkisstjórn nýtti góðærið illa. Það var óafsakanlegt að þá skyldi allt vera látið vaða á súðum í íslenskum efnahagsmálum. Það er aldrei létt að taka á slíkri óreiðu og þó erfiðast þegar ytri skilyrði eru okkur fjandsamlegust. Menn hafa hvergi hikað og á málum hefur verið tekið. Tölurnar sem ég nefndi áðan tala sínu máli um árangur. Þær sýna að Íslendingar hafa í flestum hinum innri efnum komið sínum málum á miklu betri grundvöll en áður var. Við höfum dregið úr opinberri eyðslu og sett hömlur á útgjöld á mörgum sviðum sem áður uxu með sem næst stjórnlausum hætti. Við höfum haldið verðbólgu í skefjum svo nú hækkar innlendur kostnaður minna en erlendur kostnaður. Það þýðir að smám saman styrkist okkar atvinnulíf í samkeppni við hið erlenda atvinnulíf.
    Vextir hafa að undanförnu farið lækkandi, bæði heima og erlendis. Slík vaxtalækkun gefur okkur ákveðin tækifæri sem við verðum að nýta. Það er rík þörf á að sú lækkun vaxta sem orðið hefur á Íslandi haldi áfram og sú þróun verði ekki stöðvuð. Það er ekki vafi á í mínum huga að verðbólguspár gefa ærna ástæðu til þess að bankar lækki nafnvexti sína enn frekar en þeir hafa þegar gert. Það er full ástæða til þess að hvetja bankana til að fylgja þeirri þróun eftir. Þeir hljóta að hafa í huga að stundarhagnaður bankakerfisins af því að hafa vexti hærri en efnahagsskilyrðin í raun gefa tilefni til munu til lengdar bitna harðast á bönkunum sjálfum. Það heldur enginn góður bóndi mjólkurkúnum sínum við fellimörk.
    Iðulega er reynt að ala á því að núv. ríkisstjórn vilji ekki leggja neitt af mörkum til að skapa atvinnulífinu í landinu nægilega sterk og öflug skilyrði. Ekkert er fjarri sanni og reyndar er nánast hlægilegt að heyra slíkar fullyrðingar úr munni manns eins og síðasta hv. ræðumanns. Útdælingar hans á þúsundum milljóna úr sjóðum landsmanna skildu svo sem ekkert eftir utan eitt: skuldir þjóðar og skuldir atvinnulífs.
    Ríkisstjórn eins og sú sem nú situr, sem heldur verðbólgu í eða undir 3% á ári hverju, er vissulega að leggja heilbrigðan grundvöll fyrir atvinnulífið.
    Ríkisstjórn sem dregur úr útgjöldum ríkissjóðs er að auka svigrúmið fyrir atvinnulífið og þegar til lengri tíma er horft stuðla að lækkandi vöxtum.
    Ríkisstjórn sem léttir af atvinnulífinu sköttum upp á marga milljarða kr. á ári hverju er svo sannarlega að styðja við bakið á atvinnulífinu.

    Núv. ríkisstjórn hefur létt af sköttum af atvinnulífinu sem svara til 17 milljarða --- 17 þús. millj. kr. --- á einu kjörtímabili. Ég efast um að hægt sé að færa dæmi um að nokkur ríkisstjórn á síðari tímum hafi stutt betur við hið frjálsa atvinnulíf en þessi ríkisstjórn gerði með þessum aðgerðum sínum. Þess utan hefur meiri hluti hennar á þinginu beitt afli sínu til þess að bæta rekstrarskilyrði og rekstrarumhverfi atvinnulífsins í mörgum greinum og laga skilyrðin að því sem gerist með öðrum þjóðum þannig að samkeppni okkar verði auðveldari í framtíðinni en hingað til.
    Samþykktin um hið Evrópska efnahagssvæði mun ein og sér skila miklum ávinningi til hins íslenska atvinnulífs. Það kemur því úr hörðustu átt þegar sá maður, sem hefur sýnt mestan tvískinnung allra í því máli, skuli finna að því að ekki skuli vera gert nóg fyrir íslenskt atvinnulíf. Sá sem heldur að besta úrræðið í atvinnulífsmálum sé að henda 10 þús. millj., 10 milljörðum, í fiskeldi á þenslutímum má hafa hvaða skoðun sem hann vill á aðgerðum núv. ríkisstjórnar. Sá maður, sem trúir því að það sé góð ráðstöfun og holl fyrir sjávarútveg að henda þúsundum millj. kr. í Atvinnutryggingarsjóð án þess að nokkur hagræðing fylgi þeim útgjöldum, má hafa hvaða skoðun á aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem hann vill. Ég get því miður ekki gefið mjög mikið fyrir þær skoðanir. Ég veit hins vegar --- og það veit drjúgur hluti þjóðarinnar --- að þær aðgerðir og slík viðhorf til efnahagsmála hafa reynst íslenskri þjóð afskaplega dýrkeypt.
    Hæstv. forseti. Það fækkar þeim dögum sem við höfum til almennra þingstarfa nú og þess vegna fer þessi eldhúsdagsumræða fram. Í rauninni hefur það þing sem nú er senn á enda verið afskaplega vinnusamt þing. Borgararnir verða stundum skelfdir þegar þeir heyra að Alþingi hafi verið afkastasamt vegna þess að þá telja menn líklegt að Alþingi hafi samþykkt gríðarlegan fjölda af lögum sem muni hafa stórkostleg útgjöld í för með sér og skattahækkanir í framtíðinni. Það má segja að það þing sem senn lýkur sínum störfum hafi afgreitt mjög margvíslegar tillögur og lög og í þeim skilningi verið mjög afkastamikið þing. Þingstörfin hafa í mörgum efnum gengið greiðlega. Mörg þeirra mála sem afgreidd hafa verið munu bæta mjög réttarstöðu almennings í þessu landi. Má nefna hin nýsettu stjórnsýslulög í því sambandi. Efni og inntak þeirra laga er að styrkja stöðu almennings í viðureigninni eða sem oftast er í viðskiptum við hið opinbera.
    Fjölmiðlar hafa veitt takmarkalaust rúm og tíma í fréttir af gróusögum og rógi um nafngreindan einstakling hér í þinginu en hafa sáralítið getið um lög sem stórlega styrkja stöðu borgarans í samskiptum við hið opinbera vald.
    Góðir hlustendur. Við höfum vaxandi áhyggjur af stöðu sjávarútvegsins í landinu. Þegar starfsumhverfi sjávarútvegsins er skoðað kemur í ljós að vanda hans virðist ekki að leita í rangri skráningu gengis. Raungengið er óvenjulega lágt um þessar mundir og hefur vart lægra verið í 10 ár. Erlendir vextir eru lægri en sjávarútvegur hefur oftast búið við. Afurðaverð hefur lækkað mikið á sl. 12 mánuðum en þó hefur það oft verið lægra. Eftir stendur að skuldastaða og niðurskurður á afla er meginvandamál sjávarútvegsins. Ljóst er að við verðum að byggja veiðistofninn upp og getum ekki tekið stærri dýfur en við höfum þegar tekið. Við getum ekki skorið aflann meira niður en við höfum þegar gert. Það þýðir hæga en örugga uppbyggingu þorskaflans ef marka má upplýsingar Hafrannsóknastofnunar á sl. ári. Innlendir vextir verða að lækka og lánastofnanir verða að lengja lán eins og kostur er. Verðbólgan verður að vera undir erlendri verðbólgu svo gengisþróun verði ekki sjávarútvegi óhagstæð og fyrirtækin verða að hagræða eins og kostur er. Þegar hefur margvíslegum gjöldum verið létt af atvinnurekstri, þar á meðal sjávarútvegi. Ljóst er að óhjákvæmilegt verður á næstu vikum og mánuðum að taka stöðuna í sjávarútvegi til sérstakrar skoðunar ef markaðsstaðan breytist ekki. Tillögur Hafrannsóknastofnunar hljóta að koma mjög inn þá mynd. Í framtíðinni hlýtur sjávarútvegurinn að búa við þau kjör sem markaðurinn býður honum enda verði ekki óeðlileg röskun á starfsskilyrðum hans innan lands.
    Góðir áheyrendur. Við erum sameiginlega að vinna okkur út úr miklum vanda. Við höfum þegar náð mikilvægum árangri og höfum því fyllstu ástæðu til bjartsýni og baráttugleði. Stormurinn í fangið stælir viljann. --- Ég þakka þeim sem hlýtt hafa.