Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumr.)

168. fundur
Mánudaginn 03. maí 1993, kl. 22:07:25 (7785)

     Rannveig Guðmundsdóttir :
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Á miðju kjörtímabili er ástæða til að líta bæði um öxl og fram á veg. Sl. tvö ár hafa verið samfelld glíma við efnahagssamdrátt í skugga mesta atvinnuleysis sem gengið hefur yfir íslenska þjóð. Við þær aðstæður, þegar sumir bjóða mikinn mat og marga helgidaga er mér það efst í huga hvað það er gert erfitt að þora, þora að vera heiðarlegur í pólitísku starfi, þora að standa á grundvallarsjónarmiðum án upphrópana og auglýsingamennsku, þora að standa á nauðsynlegum málamiðlunum, þora að vera óvinsæll. Það er engan veginn auðvelt að ná fram málamiðlunum. Mér hefur ekki alltaf liðið of vel með margar ákvarðanir sem ég hef staðið að og ekki endilega viss um að þær séu allar réttar þó í krafti samstöðunnar hafi þurft að ná saman um lausnir.
    Stjórnmálin nú snúast um að bjarga afkomu uppvaxandi kynslóðar og velferðarkerfi komandi ára, hætta að veðsetja tekjur okkar til framtíðar, en finna það jafnvægi að hvergi sverfi of mikið að. Stjórnarandstaðan nærist á þeim erfiðleikum sem þjóðin á nú við að etja. Það er ráðist á hverja tilraun til að afla tekna á sama tíma og kröfunum um velferð er haldið á lofti. Velferð sem við viljum öll verja. Lausnirnar sem boðið er upp á eru hókus-pókus-lausnir. Að taka milljarða að láni og ávísa enn á framtíðina. Slík tilboð eru vel fallin til vinsælda. Á tímabili skopuðust menn með fiskinn og þá sem voru á kafi í fiski með eins konar ,,fiskur-undir-steini``-kímni. En nú vita allir að fiskurinn er lífið sjálft. Að vera eða vera ekki fyrir þessa þjóð. Þeir sem fögnuðu þegar áform um stóriðju og þar með átak í atvinnuuppbyggingu varð ekki að veruleika vita það líka.
    Þegar þorskafli minnkar um tæpan helming og verðfall bætist þar á, þá þarf kjark til að segja væntanlegum kjósendum að við getum ekki búið við sömu afkomu og var. Úrræðið liggur í að gera sem mest úr því sem við eigum og skipta því sem jafnast. Skapa sem mest verðmæti úr okkar auðlind. Þá er óheiðarlegt að segja kjósendum að þeir þurfi ekki að horfast í augu við veruleikan í dag og þjóðin veit sem er. Í nóvember gerði Félagsvísindastofnun könnun um búhyggju almennings á Íslandi. Meðal þess sem spurt var um var hvort ástæða væri til að hafa áhyggjur af versnandi afkomu þeirra atvinnugreina sem afla þjóðinni gjaldeyris með útflutnigi. 90% sögðu já. Hvort hægt sé að halda uppi óbreyttri neyslu í landinu þó útflutningur landsmanna minnki --- 85% sögðu nei. Hvort æskilegt eða óæskilegt sé að auka erlendar lántökur til að halda uppi núverandi lífskjörum --- 90% sögðu slíkt óæskilegt. Þetta eru svör þjóðarinnar sjálfrar að hún hafi áhyggjur af versnandi stöðu. Ekki sé hægt að halda óbreyttri neyslu eða auka erlendar lántökur. Á sama tíma og þjóðin gerir sér grein fyrir erfiðleikunum segja andstæðingar ríkisstjórnarinnar: Ég lýsi ábyrgð á hendur þeim. Enda sitja lastmáll og kjassmáll oft á sama bekk. Að segja að allt geti verið

meira eða minna óbreytt, að ekki þurfi að gera erfiða hluti, sauma að, er auðveld aðferð til vinsælda.
    Þegar erfiðleikar steðja að er mikilvægt að hugsa dæmið upp á nýtt. Einstaklingurinn sem verður fyrir áfalli á möguleika á að hagnýta sér þá reynslu sér til aukins þroska og hagsbóta. Þetta gildir ekki síður um fjölskylduna sem bregst við erfiðleikunum og skoðar sín mál í nýju ljósi þegar vanda ber að höndum. Það getur hljómað þversagnarkennt en jafnvel erfiðleikar þjóðar geta reynst henni til góðs ef út frá þeim erfiðleikum verður til ný hugsun, nýjar áherslur.
    Hér á Alþingi vinnum við með á sjötta hundrað mál á hverju þingi en umræðan sem berst héðan út til þjóðfélagsins birtist í ríkum mæli sem árás og vörn og sem endalaus efnahagsmál. Og það er svo sem ekki undarlegt því þau eru undirstaða þeirrar velferðar sem er svo mikilvægt að varðveita. Lögin sem við erum að vinna við og samþykkja eru vísbending um hvert við viljum stefna.
    Þegar við breytum skattalögum og afléttum sköttum af fyrirtækjum við þær aðstæður sem nú ríkja erum við að segja fólki að við viljum bæta stöðu halloka fyrirtækja og afstýra gjaldþrotum til að tryggja atvinnu í landinu. Þegar við í fjárlögum setjum milljarða í verkefni sem ekki var áformað að fara í á þessum tíma erum við að segja að þar með eigi að fjölga störfum á viðkomandi sviði. Þegar við setjum lög um leikskólann og grunnskólann erum við að skapa tæki til góðra verka en framkvæmd þeirra kallar á fjármagn sem ekki alltaf liggur á lausu. Þegar við vinnum að sameiningu sveitarfélaga og að finna þeim nýja tekjustofna þá erum við m.a. að segja að það eigi að gera sveitarfélögunum kleift að framkvæma slík lög þannig að sem best verði komið til móts við þarfir íbúanna. En þegar hriktir í undirstöðum velferðarþjóðfélagsins vegna efnahagslegra áfalla þá hriktir í stoðum fjölskyldunnar og við sjáum að þrátt fyrir góðan ásetning skortir markvissa fjölskyldustefnu í okkar landi. Það er gagnrýni sem beinist að öllum flokkum sem hafa komið að landstjórninni síðustu ár.
    Engin ríkisstjórn hefur sett fram alhliða stefnumörkun í málefnum fjölskyldunnar en það tel ég eitt býnasta hagsmunamálið í dag að atvinnumálum frátöldum. Rammalöggjöf um félagslega þjónustu sveitarfélaga sem Alþfl. beitti sér fyrir eru spor í þessa átt. Fjölskyldumálin eiga að vera í brennidepli og ár fjölskyldunnar 1994 á að nota til að varpa ljósi á stöðu fjölskyldunnar í okkar þjóðfélagi og leiðir til úrbóta.
    Mín ósk er að við eigum eftir að upplifa markvissa fjölskyldupólitík sem sinnt er af fjölskylduþjónustustofnunum í öflugum sveitarfélögum og á sama hátt beri eitt fjölskylduráðuneyti ábyrgð í þessum efnum. Með auknum verkefnum hefur félmrn. einmitt verið að þróast í þá átt.
    Það er miklvægt að standa saman á erfiðum tímum og að kveikja vonir. Við höfum ekki verið upptekin við það hér í þessum sal. Það er heldur ekkert skrýtið þó vonleysi grípi þá sem misst hafa atvinnu og þá sem ár eftir ár starfa á lágum launum þar sem frekar dregur sundur en saman í launamun. Víða eru erfiðleikar og fátækt en gylliboð er ekki lausnin heldur að vinna að því að snúa dæminu við. Það dregur hugann aftur að orðunum: Við lýsum ábyrgð á hendur þeim.
    Sú breyting hefur orðið í okkar þjóðfélagsstjórn að á liðnum árum hafa aðilar vinnumarkaðarins ekki samið um kaup og kjör sín á milli. Menn hafa sameinast um að velta úrbótum og tekjujöfnun á þriðja aðila, ríkissjóð. Einn slíkur þríhliða samningur var þannig næstum kominn á um páskaleytið. Markmiðið með honum var m.a. að auka ráðstöfunartekjur launafólks. Þessi samningur átti að kosta ríkissjóð nokkra milljarða og þar af átti að verja á þriðja milljarði króna til að lækka matarskattinn svokallaða í 14%. Það var ófrávíkjanleg krafa. Að lækka virðisaukaskatt á matvæli er ómarkviss tekjujöfnun. Hún eykur að vísu ráðstöfunartekjur launafólks en hærra launað fólk fær miklu fleiri krónur til umráða. Slík aðgerð eykur möguleika á skattsvikum og vafamál er hvort slík lækkun skilar sér að fullu til neytenda.
    Ég er ósammála þessari aðgerð sem tekjujöfnun. Samt sem áður hefði ég greitt atkvæði með þeim pakka sem lagður hefði verið fyrir mig ef um hann hefði náðst samstaða aðila vinnumarkaðarins. Af því að ég hefði annars verið að stofna nýrri þjóðarsátt í voða án þess að hafa átt aðild að þeirri ákvörðun sem slíkri hvernig nákvæmlega þessir milljarðar voru nýttir. Sú ábyrgð hefði ekki verið mín hvort stýra ætti samneyslu með lækkun virðisaukaskatts og létta útgjöldum af þeim sem nóg hafa í stað þess að beina aðgerðum og fjármunum til þeirra sem mest þurfa á að halda. Til að ráða við 2--3 milljarða í lækkuðum skatttekjum þarf að finna aðrar tekjur og/eða skera niður útgjöld. Og þá má ég. Þeir segja: Ég lýsi ábyrgð á hendur þeim. En ég segi: Ég lýsi fullri ábyrgð á hendur mér í öllum erfiðum ákvörðunum sem ég stend að enda sé ákvörðunin mín.
    Við bjóðum okkur fram til að axla ábyrgð. Við keppumst við að komast í aðstöðu til að stjórna. Það er erfiðara að stýra fleyi til hafnar við mikla ágjöf en í lygnum sjó. En þeir sem það hafa tekist á hendur geta ekki vikið sér undan ábyrgð.
    Góðir áheyrendur. Það á að vera sameiginlegt átak okkar stjórnmálamanna að hér verði atvinna fyrir alla. Að finna leið til raunverulegs jöfnuðar og að fjölskyldan verði í fyrirrúmi í framtíðinni en ekki að slá ryki í augu með óraunhæfum yfirboðum og með því að veðsetja tekjur afkomendanna. Það þarf að gera erfiða hluti til að geta byggt upp og til að tryggja velferðina, að þora en falla ekki fyrir freistingunni um stundarvinsældir. --- Ég þakka áheyrnina.