Evrópskt efnahagssvæði

169. fundur
Þriðjudaginn 04. maí 1993, kl. 14:06:56 (7800)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Við afgreiðslu fyrirliggjandi frv. ræðst afstaða Alþingis til samningsins um Evrópskt efnahagssvæði. Samningurinn brýtur gegn ákvæðum íslensku stjórnarskrárinnar. Með honum skerðist stórlega raunverulegt löggjafarvald Alþingis. Til þingsins munu streyma lög og reglugerðir frá Evrópubandalaginu sem Alþingi hefur engan þátt átt í að móta. Um 340 slíkar samþykktir Evrópubandalagsins, sem gengið hefur verið frá í Brussel frá því megintexti EES-samningsins var frágenginn 1. ágúst 1991, bíða afgreiðslu. Sá pakki mun berast inn á borð alþingismanna eftir að samningurinn tekur gildi.
    Með EES-samningnum og því sem honum fylgir er verið að veita útlendingum aðgang að íslenskum náttúruauðlindum, fiskimiðum, orkulindum og landi. Með samningnum væru Íslendingar að kasta fyrir borð helstu stjórntækjum í efnahagsmálum og gefa sig á vald ákvörðunum sem teknar eru án tillits til

íslenskra hagsmuna. Það stjórnkerfi sem byggja á upp til að þjóna EES-kerfinu er í senn ólýðræðislegt og kostnaðarsamt. Verið er að flytja ákvarðanatöku um íslensk málefni á fjölmörgum sviðum úr landi. Kostnaður við stjórnkerfi landsins mun vaxa til mikilla muna og nú þegar er byrjað að byggja upp í Brussel skrifstofur á vegum Stjórnarráðsins við tilkomu EES. Utanferðir íslenskra embættismanna og ráðherra munu margfaldast. Aðild Íslendinga að EES auðveldar mjög þeim öflum eftirleikinn sem knýja leynt og ljóst á um aðild Íslands að Evrópubandalaginu. Alþb. er andvígt aðild Íslands að Evrópsku efnahagssvæði og telur að ekki komi til greina að Íslendingar sæki um aðild að Evrópubandalaginu. Þessi afstaða kom skýrt fram við umræðu um frv. til lögfestingar á EES-samningnum sem afgreitt var í janúar 1993. Efnislegar breytingar samkvæmt þessu frv. bæta gráu ofan á svart. Ég segi nei.