Húsnæðisstofnun ríkisins

169. fundur
Þriðjudaginn 04. maí 1993, kl. 14:58:53 (7817)


     Jón Kristjánsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég er næstur á mælendaskrá og er út af fyrir sig tilbúinn að halda umræðunni áfram en eitt vildi ég spyrja um sem áreiðanlega brennur á mörgum þingmönnum þessa dagana og vil biðja hæstv. forseta að koma því áleiðis. Hann getur kannski ekki svarað því hér á stundinni. Hvað ætlar forusta þingsins sér með þinghald? Á að standa við starfsáætlun og ljúka þingi 7. maí sem er á föstudaginn? Er þá ekki ætlunin að ræða neitt við stjórnarandstöðuna um framgang mála?
    Ég man satt að segja ekki eftir slíkum þinglokum hér og ég er alveg undrandi yfir því hvernig mál ganga fram. Við fengum að vita það með hálftíma fyrirvara í almennum eldhúsdagsumræðum í gærkvöldi hvort frumvörp um sjávarútvegsmál yrðu lögð fram eða ekki. Það var rétt áður en umræðan byrjaði sem það varð ljóst að þau verða ekki lögð fram og við vitum ekkert hvort það er meiningin að standa við starfsáætlun eða ekki og hvaða mál er yfir höfuð ætlunin að afgreiða hér á þessu þingi.
    Ég vil beina þessu til forseta áður en umræðan heldur áfram og veit að ég tala fyrir munn margra annarra þingmanna að þetta er undarlegt í meira lagi.