Húsnæðisstofnun ríkisins

169. fundur
Þriðjudaginn 04. maí 1993, kl. 22:01:57 (7855)

     Frsm. meiri hluta félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir) (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Það hefur verið óskað eftir því vegna þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram, fyrst í andsvörum og svörum við þeim og síðan í umræðum um gæslu þingskapa, að félmn. kæmi saman til að fjalla um það sem hér hefur verið sagt. Ég vil hér og nú segja að ég sé enga ástæðu til þess og það kemur mér mjög á óvart að þessi umræða verði á þann hátt sem hún er í framhaldi af orðum ráðherra. Okkur í félmn. er fullkomlega kunnugt um það að að sumu leyti hefur húsnæðismálastjórn fundist það eðlilegt að snúa sér beint t.d. til Alþingis og það kemur fram í minnisblaði, sem fylgir sem fskj. með nál. meiri hluta félmn., út af tillögum sem húsnæðismálastjórn sendi félmn. að stjórnin leggur þar til tillögur í framhaldi af bréfi sem kom til stjórnarinnar 7. jan. 1993 frá ráðuneytinu. Við fengum tillögur í febrúar og það er í raun og veru má segja svarið við umbeðnum upplýsingum. Mér finnst það alveg fráleitt þó að ráðherra upplýsi það hér að e.t.v. skapi þessi ógreinilega staða, stjórnsýslulega staða Húsnæðisstofnunar, einmitt slíkan vanda eins og þarna birtist í þessari greinargerð sem við fengum upplýsingar um. E.t.v. ætti það að skýra það að það er mjög mikilvægt að stjórnsýsluleg staða Húsnæðisstofnunar ríkisins sé klár, en að við í félmn. förum að kalla til starfsfólk Húsnæðisstofnunar ríkisins út af orðum sem hér hafa fallið í upplýsingum um samskipti finnst mér algjörlega fráleitt.