Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

170. fundur
Miðvikudaginn 05. maí 1993, kl. 17:05:45 (7909)

     Steingrímur Hermannsson :

    Virðulegi forseti. Ég vil lýsa ánægju minni með það samkomulag sem varð um þá tillögu sem við hv. þm. Halldór Ásgrímsson fluttum um stefnumörkun hér á Alþingi í viðskiptum við Evrópubandalagið. Á þessari tillögu voru gerðar nokkrar orðalagsbreytingar sem ég tel ekki að breyti í nokkru meginmarkmiði hennar. Eins og tillagan var áður orðuð þá misskildu sumir þingmenn hana þannig að ætlunin væri að tvíhliða samningur kæmi í staðinn fyrir EES eða hið Evrópska efnahagssvæði þannig að hætt yrði við það. Ég hefði að vísu fagnað því ef það hefði verði í myndinni en svo töldum við nú ekki heldur var það ætíð okkar skoðun að við Íslendingar yrðum að vera undir það búnir að hið Evrópska efnahagssvæði leysist upp með því að ýmis EFTA-löndin gerist aðilar að Evrópubandalaginu. Orðalagsbreytingin er fyrst og fremst gerð til þess að eyða slíkum misskilningi. Það er að sjálfsögðu alveg ljóst að með þessari tillögu er mörkuð sú stefna Alþingis, ef þetta verður samþykkt, að leita beri tvíhliða samninga við Evrópubandalagið þegar, og við verðum líklega að segja ef enn þá, hið Evrópska efnahagssvæði leysist upp vegna þess sem ég nefndi áðan að ýmis ríki hverfa frá því og gerast aðilar að Evrópubandalaginu. Mjög greinilega kemur fram ekki síst í greinargerð með tillögunni og með þeirri brtt. sem nú er flutt af utanrmn. að hér er um að ræða tvíhliða samning við Evrópubandalagið. Ef einhverjir hafa viljað skilja þetta svo að þessi samskipti við Evrópubandalagið gætu þýtt umsókn um aðild að Evrópubandalaginu vil ég vísa því algjörlega á bug. Það er alveg ljóst að ef Íslendingar gerðust, sem við skulum vona að aldrei verði, aðilar að Evrópubandalaginu þá er ekki í raun um tvíhliða samskipti að ræða, slíkt ríki er orðið aðili að Evrópubandalaginu og undir það fallið að öllu leyti.
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni fyrir ágætar spurningar sem hann lagði fram. Ég vil einnig þakka bæði hv. formanni nefndarinnar og hæstv. utanrrh. fyrir þeirra svör. Ég fagna því sem kom fram hjá hæstv. utanrrh. að Evrópubandalaginu verði strax tilkynnt um þennan vilja Alþingis ef þetta verður samþykkt þannig að það liggi þar þegar fyrir. Út af fyrir sig hlýt ég líka að taka undir það að samþykkt þessarar tillögu kemur ekki í veg fyrir það að ef stjórnvöld síðar meir kunna að óska eftir því að sækja um aðild þá er það þeirra mál. En ég lít svo á að hafi Alþingi samþykkt þessa tillögu og þar með þá stefnu í samskiptum við Evrópubandalagið að leita skuli eftir tvíhliða samningi, þá verði slík ákvörðun áður en nokkuð er í henni gert að koma fyrir Alþingi og fá samþykki hér sem breyting á stefnumörkun Alþingis.
    Ég lít með öðrum orðum svo á að eins og tillagan er nú orðuð þá nái hún því sem við stefndum að, að eyða þeirri óvissu sem mér hefur þótt koma æðimikið fram hjá jafnvel pólitískum flokkum og ekki síður samtökum hér á landi sem hafa gælt við þá hugmynd að rétt væri að sækja um aðild að Evrópubandalaginu og sjá hvernig þeirri umsókn reiddi af. Með þessari tillögu hefur Alþingi tekið af skarið að Alþingi telur ekki að það eigi að sækja um aðild að Evrópubandalaginu. M.a. getur sá hv. þm. sem gengur hér fyrir ræðustólinn hætt að ýja að því undir spurningarmerkjum í greinum í dagblöðunum. Þá er þessari óvissu eytt og ég veit að hv. þm. hlýtur að fagna því eins og aðrir.
    Ég ætla ekki að hafa þetta langt mál, vildi bara leggja áherslu á það að ég fagna mjög að þessi samstaða hafi náðst og ég vona að það geti orðið alger samstaða hér um að marka þessa mikilvægu stefnu og eyða þeirri óvissu sem er í málinu. Ég tel það mikinn áfanga og vona að á málinu verði síðan haldið af opinberri hálfu í fullu samræmi við þennan vilja Alþingis.