Framhaldsskólar

170. fundur
Miðvikudaginn 05. maí 1993, kl. 18:05:47 (7930)

     Frsm. minni hluta menntmn. (Svavar Gestsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ef þessar tillögur eru eiginlega alveg samhljóða eins og hv. ræðumaður sagði þá er náttúrlega einfalt fyrir þingmanninn og formann menntmn. að samþykkja þá tillögu sem ég gerði grein fyrir áðan og rökin fyrir því eru þau að um þá tillögu er miklu betri samstaða. Ef skoðaðar eru umsagnirnar sem menntmn. fékk þá er það augljóst mál að frá kennarasamtökunum koma athugasemdir sem eru í ætt við það sem ég var hér að gera áðan. Ef þeim sjónarmiðum verður hins vegar hafnað þá eru menn í raun að hafna samstarfi eða þeim sjónarmiðum sem fram koma frá kennurum í þessu efni og kennarar eru nú einu sinni starfsmenn skóla og mér finnst að það sé mikilvægt að taka tillit til þeirra sjónarmiða. Þess vegna skora ég á hv. þm. að brjóta nú odd af oflæti sínu og stíga skref sem er brautryðjandastarf í sögu Alþingis og samþykkja tillögu minni hlutans og draga sína til baka.