Endurskoðun á lögum um lífeyrissjóði

171. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 10:40:10 (7938)


     Fyrirspyrjandi (Gunnlaugur Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin. Af þeim má marka að þetta mál sé í undirbúningi í fjmrn. og einnig í heilbrrn. Ég skildi svar hæstv. forsrh. svo að það kæmi til mála að stofnuð yrði nefnd undir forsæti forsrn. með aðild heilbrrn. og fjmrn. á seinni stigum undirbúnings þessa máls. Ég vil þakka hæstv. forsrh. þá yfirlýsingu að sérstök endurskoðun skuli nú fara fram á þeim sérréttindum er þingmenn, ráðherrar og æðstu embættismenn þjóðarinnar njóta og það fært til sambærilegra réttinda er aðrir njóta í lífeyrismálum.
    Það er ekki meira um þetta að segja að sinni. En ég treysti því að hæstv. ríkisstjórn taki hraustlega á þessu og flýti þessum málum eins og kostur er. Ekki svo að það bitni á málsmeðferðinni sem slíkri en svo að Alþingi vinnist góður tími til að taka á málinu og koma fram réttarbótum áður en þessu kjörtímabili lýkur.