Vörugjaldskrá hafna

171. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 11:37:02 (7965)

     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Vegna ræðu hv. fyrirspyrjanda og þeirra athugasemda sem komu fram frá hjá hv. þm. þá vil ég mótmæla því sem þar kom fram að gjaldskrá hafna sé byggð á órökstuddum duttlungum. Ég vek athygli á því að þessi gjaldskrá er sett af höfnum landsins þar sem hafnarstjórnir fjalla um gjaldskrána og viðkomandi bæjarstjórnir staðfesta þannig að það er ansi breiður hópur sem stendur að baki þessari ákvörðun. Ég vil því vísa þessu á bug, enda kemur fram í svari hæstv. ráðherra að hér er um faglegt mat að ræða sem byggt er á flutningatækni en ekki spurningunni um það hvort um sé að ræða innflutning eða útflutning. Auðvitað ber að reyna að draga úr kostnaði við útflutningsafurðir eins og kostur er, en það tel ég að gerist ekki með því að breyta þessari flokkun í gjaldskrá hafnanna.