Skrifleg svör við fyrirspurnum

171. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 12:04:43 (7980)


     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Höfuðástæðan fyrir því hversu lengi hefur dregist að svara þessu er fjarvera framkvæmdastjóra Menningarsjóðs útvarpsstöðva. Og bara svo að menn viti það, þá liggur menntmrn. ekki með upplýsingar um þennan sjóð. Þetta er sjálfstæður sjóður sem hefur sjálfstæða stjórn og sérstakan framkvæmdastjóra og þessar upplýsingar eru ekki til á hverjum tíma í menntmrn. Það er engin yfirhylmingarlykt af þessu, alls engin. Það er ekki verið að hylma yfir neitt og það verður skýrt nákvæmlega hvernig úthlutun hefur farið fram úr þessum sjóði.
    Vegna þess að hv. þm. Svavar Gestsson sagði hér að stjórnarformaður sjóðsins nú væri framkvæmdastjóri sjónvarpsins, þá er það ekki rétt. Hann var það, hann var stjórnarformaður þar til hann tók við sínu starfi hjá Ríkisútvarpinu. Ég hef hins vegar ekki gengið frá skipan nýs formanns en um það var rætt að núverandi framkvæmdastjóri sjónvarps hætti sem formaður þegar hann tæki aftur við starfi, að vísu dagskrárstjóra var þá talað um. En hann hefur verið formaður undangengin tæp tvö ár.
    Þetta mál á ekkert skylt við þá tillögu sem hv. þm. Páll Pétursson flutti hér um sérstaka rannsóknarnefnd um daginn, það á ekkert skylt við hana og allt varðandi Menningarsjóð útvarpsstöðva verður upplýst alveg burt séð frá þeirri tillögu. Hún skiptir engu máli því samhengi.
    Aðeins að lokum vegna þess hve oft hefur dregist að svara skýrslum, þá er það alveg rétt og má vel vera að það þurfi að endurskoða ákvæði þingskapalaga um þann tíma sem líða má frá skýrslubeiðni og þar til skýrslu er skilað. En sannleikurinn er sá að margar beiðnir hafa í för með sér gífurlega mikla vinnu fyrir ráðuneytin. Ekki það að ég sé að tala um að það eigi ekki að svara þeim heldur er oft og tíðum ekki nokkur lifandi leið að svara þeim innan þess tíma sem þingskapalög ákveða. Það á ekki við í þessu tilviki, ég tek það fram. Það eru aðrar ástæður fyrir því. Við höfum rætt hér áður um aðra skýrslu sem beðið er eftir frá mér og hv. þm. Svavar Gestsson bað um. Hún er varðandi vísinda- og tæknistefnu ríkisstjórnarinnar. Það sama á við um hana að ég vonast til að þeirri skýrslu verði dreift nú, en það eru allt aðrar ástæður fyrir því hversu lengi sú skýrsla hefur beðið.