Afgreiðsla mála í nefndum

172. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 13:27:41 (7992)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég vil láta það koma fram úr því að þessi umræða er farin af starf að það hefur verið brúklegt samkomulag á milli þingflokkanna um þinglokin, þ.e. menn hafa verið að ræðast við. Samkomulag hefur ekki orðið en menn hafa verið að nálgast samkomulag smám saman. Stjórnarliðið hefur bakkað með nokkur frumvörp sem það vildi fá afgreidd en sá að sér og dró þau út af borðinu. Við stjórnarandstæðingar höfum sett fram okkar óskir og það hefur verið tekið líklega í þær. Það mál sem við settum á oddinn að fá afgreitt á þinginu var Hagræðingarsjóðurinn. Ég vissi ekki betur en að það væri ákveðinn skilningur og vilji til þess að gera það þangað til í gærkvöldi. Þá var slegið á okkar útréttu hönd því að við höfum sannarlega sýnt lipurð í þessum samskiptum. Stjórnarliðið hefur líka sýnt lipurð og dregið til baka mál sem við vildum ekki láta ná fram að ganga. En svo gerist það í sjútvn. í gærkvöldi að slegið er á þessa útréttu sáttahönd og það er farið að reyna að beita bolabrögðum til þess að koma í veg fyrir afgreiðslu máls.
    Nú er það alveg rétt sem hér hefur komið fram að minni hlutinn getur skilað forseta nál. og forseta ber að taka það mál til afgreiðslu í þinginu og á það kann að reyna. Þetta er mál þar sem verið er að hjálpa hæstv. forsrh. til þess að efna gefin loforð. En það er ekki bara verið að beita stjórnarandstöðuna bolabrögðum með afgreiðslu í sjútvn. eða reyna það, mótleikur er til. Það er verið að lemja á sjávarútveginum sem er í vandræðum. Það er verið að stofna þjóðfélaginu í hættu sem byggist á því að sjávarútvegurinn sé í sæmilegu standi.
    Ég vil einnig minna á annað mál sem verður að ræða hér á þinginu og verður að ná afgreiðslu. Það er till. til þál. um greiðsluaðlögun fyrir fólk í verulegum greiðsluerfiðleikum. Þetta er till. til þál. sem flutt er af tveimur stjórnarsinnum, hv. formanni þingflokks Alþfl., Össuri Skarphéðinssyni, og Sigbirni Gunnarssyni, meðreiðarsveini hans, og þetta er ágætis tillaga. Ég veit að þessi tillaga er ekki flutt af neinni sýndarmennsku. Henni var útbýtt 31. mars svo að það þarf ekki afbrigði. Þessi tillaga hefur ekki fengist rædd. Hv. 4. þm. Norðurl. v. gekk skilmerkilega eftir henni á fundi fyrir nokkru og þá lofaði hæstv. forseti að þetta yrði næsta mál af nýjum þingmannamálum. Ég árétta þá ósk sem hv. 4. þm. Norðurl. v. setti fram og læt það fylgja að þetta mál verðum við útkljá hér á þinginu áður en við förum heim.
    Ég get líka látið þess getið að langt er í sauðburð á sumum bæjum.