Afgreiðsla mála í nefndum

172. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 13:32:51 (7994)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Áður en lengra er haldið umræðu um gæslu þingskapa vill forseti taka undir orð hv. 1. þm. Norðurl. v., formanns þingflokks Framsfl., að það hefur verið mjög góð samvinna á milli stjórnar, stjórnarandstöðu og forseta um framgang mála þessa síðustu daga. Það var síðast í hádeginu í dag fundur með formönnum þingflokka stjórnar og stjórnarandstöðu og forseta og forseti væntir þess að fundurinn í dag og í kvöld geti haldið áfram í þeim góða anda sem hefur ríkt innan þessa hóps sem hefur lagt sig fram um að reyna að ná niðurstöðu um hvernig þinghaldinu verði fram haldið þessa síðustu daga. Forseti skilur vel að þingmenn sem eru kannski ekki beint sjálfir í þessum umræðum séu með áhyggjur en forseti væntir þess að hv. þingmenn treysti þessum aðilum, þessum þrengri hópi þingsins sem er að reyna að ná góðri samstöðu um málið. Það er alveg ljóst að stjórn og stjórnarandstaða verða að ræða ítarlega saman og hittast oft þegar komið er að þessum tímamörkum að ljúka þingi að vori. Það er mikið í húfi að menn treysti þessum fulltrúum sínum til þess að þeir geti unnið sín störf eins vel eins og mögulegt er. Forseti vill leyfa sér að fullvissa þingheim um að menn eru allir sammála um að leggja sig fram um að svo geti gengið.
    Forseti fékk fyrirspurn um það hvort unnt væri að koma með frhn. í máli sem hefur ekki verið vísað til nefndar á milli 2. og 3. umr. Það er ekki venjan að koma með frhn. þegar svo stendur á. Þegar nefnd hittist hins vegar og ný atriði koma fram milli 2. og 3. umr. þá er að sjálfsögðu ekkert því til fyrirstöðu að nefndir, meiri eða minni hluti, gefi út frhnál. Þetta vildi forseti upplýsa.