Útvarpslög

172. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 15:40:32 (8028)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég verð nú að játa það að það fer alltaf um mig dálítill óhugur þegar sjálfstæðismenn fara að tala um útvarpið eða láta málefni þess til sín taka. Ég verð að játa það að það kom dálítið á mig þegar ég varð þess var að hæstv. menntmrh. var búinn að setja nefnd á laggirnar með stjórnarliðum einum. Hann valdi í nefndina eingöngu úr sínu liði eða úr stjórnarliðinu og hann hafði ekki neitt pólitískt jafnvægi í nefndinni. Þetta er ekki nein nýlunda því svona hafa þeir unnið ráðherrarnir í núv. ríkisstjórn. Ég nefni öryggismálanefndina og ég nefni nefndina um framhaldsskólana þar sem ráðherra velur flokksbræður sína og fólk úr samstarfsflokknum til þess að fara ofan í mál sem þjóðina alla varðar miklu. Með þessu er að sjálfsögðu ekki mótuð stefna nema fyrir hönd stjórnarflokkanna og öðrum flokkum ber engin skylda til að fylgja henni fram.
    Nú vil ég láta þess getið að ég tel að það hafi tekist tiltölulega heppilega með þessa nefnd og ég tel hvort það hefur verið fyrir slysni eða hvort það hefur verið fyrir skynsemi að hæstv. menntmrh. valdi þó þann úr sínu þingliði sem menningarlegastur var til að veita nefndinni forstöðu enda er útkoman þannig að ýmislegt er ágætt í þessu frv. og í sjálfu sér er það ekki mjög skemmandi fyrir Ríkisútvarpið, svona að mestu leyti. Ég held að það sé mjög mikilvægt að hafa frjálsa og fjölbreytta fjölmiðlun í landinu, þá á ég við fjölmiðlun sem gætir einhvers jafnvægis í pólitískum sjónarmiðum. Sjálfstfl. hefur verið iðinn við það undanfarið, sölsað undir sig fjölmiðla í þjóðfélaginu og er nú næstum einráður í fjölmiðlun á Íslandi. Það er að vísu gefið út lítið blað sem heitir Tíminn og fylgir ekki ríkisstjórninni að málum. Það blað hefur barist í bökkum efnahagslega og er nú ekki sérstaklega máttugt málgagn og er reyndar hætt því hlutverki sem það lengi hafði, að vera málgagn Framsfl. og er nú á leið í annarra eigu en Framsfl.
    Ríkisútvarpinu hefur verið ætlað að vera sæmilega hlutlaust í frásögnum sínum og í sinni starfsemi og þá ekki með þeim hætti að það mætti ekki hafa skoðanir eða þar mættu ekki skoðanir koma fram heldur ætti þar að gæta einhvers jafnvægis þannig að skoðanir hinna ýmsu fylkinga í þjóðfélaginu gætu átt þar vettvang.
    Ég tel að í stórum dráttum hafi Ríkisútvarpinu fram undir þetta tekist vel að gegna þessu hlutverki. Það má auðvitað ekki ætlast til þess að það sé með neinn tepruskap og það verður að segja frá hlutunum og fjalla um það og það er sjálfsagt mjög erfitt að það sé gert þannig að hvergi halli á en með fáum undantekningum þá held ég að fréttastofu Ríkisútvarpsins og fréttastofu sjónvarpsins hafi tekist þetta. Að

vísu vildi það við brenna hjá fréttastofu sjónvarpsins að hún segði alls ekki hlutlaust frá og kynnti alls ekki hlutlaust EES-málið og ég hef áður og ítrekað gert athugasemdir við það. Ekki það að ég telji að sjónarmið sem eru andstæð þeim sem ég aðhyllist eigi ekki fullan rétt á því að þeim séu gerð góð skil, ég hef ekkert á móti því. Ég vil líka láta gera hinum skil og fjalla sæmilega og óhlutdrægt um málið. Þetta er mjög stórt mál og þar gætti ekki eðlilegra vinnubragða að mínum dómi stundum.
    Mér er annt um frelsi ríkisfjölmiðlanna og ég held að ef við berum saman t.d. fréttamat Morgunblaðsins og ríkisfjölmiðlanna þá sé augljóst hversu geysimikilvægu hlutverki Ríkisútvarpið og Sjónvarpið hefur að gegna til þess að fræða þjóðina. Við þurfum ekki nema að hugsa til atburða, pólitískra atburða, liðinna daga og sjá hvernig það er fjallað um þá í Morgunblaðinu. Þá opnast það fyrir okkur að það er reynt að hafa áhrif á almenningsálitið með því að fela atburðina. Það er kannski sagt í lítilli klausu lengst inni í blaði frá atburðum sem í sjálfu sér eru mjög stórir, ef þeir koma ríkisstjórninni eða Sjálfstfl. illa, ef ritstjórarnir fyrirverða sig fyrir það sem ráðherrarnir eru að gera þá reyna þeir að fela það sem allra mest. DV lýtur ekki beinni stjórn Sjálfstfl. en ég minni á að þar ráða húsum sjálfstæðismenn og einn af fyrrverandi þingmönnum flokksins er annar ritstjóri blaðsins. Stöð 2 er í eigu sjálfstæðismanna og ég hef stundum verið óánægður með fréttamat þeirra og fundist það litað af þeim skoðunum. Ég tel t.d. að Stöð 2 hafi undralítið sinnt svonefndu Hrafnsmáli enda kann að vera að á telefaxi hjá þeim hafi ekki borist tíðindi af því máli en eins og kunnugt er þá á framkvæmdastjóri sjónvarpsins sama telefaxnúmer og stjórnarformaður Stöðvar 2.
    Ég tel að það hafi verið stórkostleg framför í pólitískri umræðu á Íslandi þegar Stöð 2 eða Sýn fór að útvarpa beint frá þinginu. Ég veit satt að segja ekki hvernig við værum staddir ef það fyrirtæki hefði ekki héðan útsendingar. Það er a.m.k. veruleg trygging fyrir þá sem ekki eiga innangengt í Morgunblaðið og ekki eru hallir undir Sjálfstfl. að það skuli vera sagt frá hlutunum eða hlutirnir sýndir eins og þeir gerast í þessum ágæta miðli. Hitt er svo aftur á móti mjög slæmt að hann nær ekki nema til hluta þjóðarinnar. Auðvitað ætti það að vera hlutverk ríkissjónvarpsins að sjónvarpa beint héðan frá Alþingi um land allt.
    Þessi ríkisstjórn sem nú situr í landinu talar mikið um frelsi og sjálfstæðismenn sérstaklega telja sig vera mikla boðbera þess. En þetta nær ekki til fjölmiðlanna því það frelsi sem þeir vilja hafa á fjölmiðlunum er einokun þeirra sjálfra á fjölmiðlunum. Ég nefni t.d. dæmalausar árásir hæstv. forsrh. á Ríkisútvarpið fyrir það að það skyldi voga sér að segja frá umræðum á Alþingi og jafnvel að útvarpa frá þeim. Þetta sýnir náttúrlega hugarfarið og upplýsir um hvers lags lýðræðis- og frelsisvinir þessir menn eru. Ég nefni það að nú í síðustu viku eða kannski í þessari var ritstjóri á Pressunni, sem er í eigu fyrrverandi framkvæmdastjóra þingflokks sjálfstæðismanna og góðs kunningja okkar, rekinn fyrirvaralaust. Vera má að þessum ágæta fyrrverandi framkvæmdastjóra þingflokks sjálfstæðismanna hafi ekki líkað allt sem hann skrifaði. Sjálfstæðismenn eru sem sagt á góðum vegi og langt komnir með að sölsa undir sig fjölmiðlunina í landinu. Það er kannski eina von þeirra í næstu kosningum að ekkert fréttist eða sjáist nema það sem Sjálfstfl. vill og þá dygði það ásamt framlögum þeirra sem þeir hafa gert ríka á þessu kjörtímabili til þess að fleyta þeim í gegnum næstu kosningar.
    Nú er þetta í sjálfu sér allgott frv. sem hér er verið að fjalla um og hef ég þar fyrir mér t.d. 9. þm. Reykv. sem hafði þau orð um þetta frv. en ég vil gjarnan geta athugasemdir við nokkur atriði sem mér finnast ekki vera til bóta eða þær aðstæður sem við búum við. Nú er svo komið að við erum að verða aðilar að Evrópsku efnahagssvæði og til þess þarf að gjörbylta lagasetningu í landinu. Þetta tekur inn á útvarpið líka og ég mun, með leyfi forseta, lesa nokkrar línur úr athugasemdum:
    ,,Í frv. þessu er einkum fjallað um þær skuldbindingar sem fylgja aðild Íslands að hinu sameiginlega Evrópska efnahagssvæði (EES) og mun nefndin halda áfram störfum við endurskoðun annarra atriða í gildandi útvarpslöggjöf í samræmi við erindisbréf nefndarinnar.
    Með vísan til 36. gr. EES-samningsins, sbr. viðauka X, fellst Ísland á að taka inn í sína löggjöf tilskipun ráðsins frá 3. okt. 1989 um samræmingu tiltekinna ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum í aðildarríkjum um sjónvarpsrekstur (1989/552/EBE). Tilskipun þessi er fylgirit með frv. þessu.
    Í tilskipun þessari eru sjónvarpssendingar skilgreindar sem þjónusta í skilningi Rómarsáttmálans og eitt af meginmarkmiðum hennar er þar af leiðandi að afnema höft og dreifingu sjónvarpssendinga innan Evrópu.``
    Síðan er ítarlegri útlistun á þessu efni.
    Hér er Alþingi sem sagt ekki sjálfrátt að löggjafarstörfum. Alþingi hefur bundnar hendur vegna EESsamningsins og þess kann að finnast merki í þessu frv.
    Ég er ekki sáttur við 5. gr. frv., þ.e. að 4. gr. útvarpslaganna orðist svo sem þar segir: ,,Útvarpsstöðvum er heimilt að afla tekna með auglýsingum, afnotagjaldi eða sérstöku gjaldi vegna framleiðslu fræðslu- og skýringarefnis.
    Auglýsingar skulu vera auðþekkjanlegar sem slíkar og vera skýrt afmarkaðar frá öðru dagskrárefni með myndskilti eða hljóðmerki og skulu þær fluttar í sérstökum almennum auglýsingatímum á milli dagskrárliða.`` --- Þetta líkar mér vel. En síðan kemur: ,,Heimilt er að rjúfa einstaka dagskrárliði með auglýsingatíma, enda leiðir það ekki til afbökunar á dagskrárefni eða verulegrar röskunar á samfelldum flutningi eða skerðir rétt rétthafa sem hér segir:

    a. Útsendingu dagskrárliða sem samsettir eru úr sjálfstæðum þáttum, íþróttadagskrá eða sambærilegra dagskrárliða, sem svipaðir eru að uppbyggingu, er heimilt að rjúfa með auglýsingatíma enda skulu líða a.m.k. 20 mínútur á milli auglýsingatíma.`` Það er þó gott að það eru 20 mínútur sem maður getur horft upprofslaust á sjónvarpið án þess að á manni dynji helvískar auglýsingarnar.
  ,,b. Útsendingu kvikmynda, þar með talinna kvikmynda sem gerðar eru fyrir sjónvarp sem eru lengri en 45 mínútur í dagskrá, má rjúfa einu sinni fyrir hvert 45 mínútna tímaskeið með auglýsingatíma. Heimilt er að rjúfa útsendingu öðru sinni ef sýningartími er meira en 20 mínútum lengri en tvö eða fleiri full 45 mínútna tímaskeið.``
    Þetta tel ég, frú forseti, að sé mikil afturför og ég er mjög andvígur þessu fyrirkomulagi. Ég hef verið í útlöndum þar sem ég hef reynt að horfa á sjónvarp, t.d. í Bandaríkjunum, og þar hefur auglýsingamennskan að mínum dómi mikið til eyðilagt sjónvarpið. Maður hefur ekki stundlegan frið fyrir auglýsingum og þetta held ég að sé mikið spor aftur á bak. Að vísu hefur þetta aðeins verið tíðkað í sjónvarpinu á Íslandi en ég hygg að þetta hafi ekki verið fest í lög, þessi heimild fyrr en núna. Ég tel að það sé mikil afturför af þessu.
    Það er þó huggun harmi gegn að í lok greinarinnar segir: ,,Óheimilt er að skjóta auglýsingum inn í útsendingu á guðsþjónustu eða trúarlegri dagskrá, fréttum eða fréttatengdum dagskrárliðum eða dagskrá fyrir börn.``
    Það er út af fyrir sig þakklætisvert og ber vott um kristilegt hugarfar nefndarmanna, enda er einn þeirra víðkunnur prestur, að það megi ekki auglýsa á milli pistils og guðspjalls. Það má kannski bara þakka fyrir.
    Ég er líka með töluverðar vangaveltur yfir kostuninni en í 6. gr. segir: ,,Heimilt er útvarpsstöð að afla kostunar við gerð einstakra dagskrárliða, þó aldrei frétta eða fréttatengdra þátta, svo framarlega sem kostunaraðili hefur ekki áhrif á innihald eða efnistök við gerð kostaðs dagskrárliðar og raskar ábyrgð og ritstjórnarlegu sjálfstæði útvarpsstöðvar.``
    Þetta er ákaflega vandmeðfarið. Það kann að vera að þetta sé neyðarúrræði en ekki held ég að þetta sé skref í þá átt að gera sjónvarpið eða útvarpið menningarlegra eða meira traustvekjandi. Hér er afar auðvelt að láta hlutina ganga út í öfgar og ég hef, frú forseti, miklar efasemdir um þetta ákvæði.
    Hér hefur aðeins borið á góma Menningarsjóð útvarpsstöðva og reyndar fyrr í dag. Ég ætla ekki að fara að endurtaka það sem ég sagði í þeirri umræðu eða lengja hana mikið. Ég tel að þrátt fyrir það að Menningarsjóður útvarpsstöðva hafi að frumkvæði okkar framsóknarmanna verið tekinn í útvarpslög og stofnsettur á sínum tíma þá sé reynslan sú af þeim sjóði að a.m.k. ég væri tilbúinn að skoða það hvort ekki væri rétt að leggja hann niður. Ég tel að samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef nánastar um ráðstöfun á fjármunum úr sjóðnum og starfshætti þar þá hafi tekist að skrumskæla tilgang hans svo að það sé lítill fengur að honum í menningarlífi landsmanna og hann hefur alls ekki orðið sú lyftistöng menningarinnar sem til var ætlast. Auðvitað er það ekki lögunum að kenna, auðvitað er það ekki þeim þingmönnum að kenna sem á sínum tíma stóðu fyrir því að hann væri settur á stofn heldur er það þeim að kenna sem hafa farið með stjórn sjóðsins og þeirri meðferð fjármuna sem þar hefur átt sér stað. Ég fyrir mitt leyti er algjörlega opinn fyrir því að leggja þennan sjóð niður.
    Ég tel að lokum, frú forseti, að við eigum að standa vörð um Ríkisútvarpið. Ríkisútvarpið hefur mjög miklu menningarlegu hlutverki að gegna og ég held að við eigum að setja metnað okkar í að búa svo að því að það geti starfað með sæmilegum og glæsilegum hætti. Afskipti hæstv. menntmrh. af málefnum Ríkisútvarpsins hafa verið til umræðu og á þau minnst fyrr í þessari umræðu. Ég ætla ekki að orðlengja mjög um það. Sumt af gerðum hæstv. menntmrh. hefur verið með þeim hætti að ég hef velt því fyrir mér hvort hann væri vísvitandi að reyna að vinna sjónvarpinu tjón til þess að geta síðan einkavætt það. Það er nefnilega ekki bara um einkavinavæðingu að ræða, það kann að vera að það hangi einkavæðing líka á spýtunni.
    Að lokum varðandi hið illræmda pólitískt kjörna útvarpsráð sem menn hafa verið að fetta fingur út í öðru hvoru. Ég hef verið þeirrar skoðunar að Alþingi eigi að kjósa útvarpsráð og hún hefur síður en svo breyst síðustu daga. Ég tel að útvarpsráð hafi á hverjum tíma starfað eftir atvikum með eðlilegum hætti. Það er eðlilegt að menn greini á um einstakar gerðir þess en yfirleitt held ég að útvarpsráð hafi á hverjum tíma reynt að sýna vönduð vinnubrögð. Einhverjar undantekningar er sjálfsagt hægt að finna á því en í það heila tekið þá held ég að þangað hafi yfirleitt valist gott fólk.
    Ég spyr hv. þm. hvort þeir búist við að útvarpinu væri betur komið núna ef hæstv. menntmrh. t.d. hefði skipað útvarpinu stjórn einkavinum forsrh., má ég þá heldur biðja um útvarpsráð kjörið af Alþingi.