Framhaldsskólar

172. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 16:41:58 (8036)

     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegur forseti. Ég skal ekki vera langorður í þessari umræðu og satt að segja ætlaði ég ekki að blanda mér í hana. En það fór samt svo að ég kvaddi mér hér hljóðs í gær þegar þetta mál var til umræðu. Ástæða þess var kannski fyrst og fremst sú að þegar ég hlýddi á frsm. nefndarinnar, hv. 10. þm. Reykn., formann nefndarinnar, þá vaknaði sú spurning sem ég kom aðeins inn á í sambandi við till. til þál. sem hefur legið í menntmn. og var hér allítarlega rædd í vetur. Þessi tillaga er ekki afgreidd út úr nefndinni en hún fjallar einmitt um hliðstætt mál sem er endurmat iðn- og verkmenntunar sem allir eru sammála um að þurfi að taka á. Mér sýnist að í þessu frv. sé nú reynt að taka á því máli en eftir að hafa lesið frv. og hlýtt hér á ræður manna, þá er það mín skoðun að skárra hefði verið að fallast á það að afgreiða þessa þáltill. Ég held að það hefði verið skárri kostur að gera slíkt, ef ég hef hlustað rétt á það hvað hv. þm. eru að tala um í sambandi við bætta verkmenntun í landinu. En auðvitað vekur það okkur þingmenn til umhugsunar um það hver vilji manna er í þessum efnum.
    Ég hef flutt þessa tillögu á tveimur þingum. Í fyrra eða á síðasta þingi var hún til meðferðar hjá menntmn. allan veturinn og það var sama. Það gerðist ekki neitt. Það tala hins vegar allir í þessu máli þegar það er hér til umræðu þá tala allir og lofa það mál sem hér er á dagskrá og telja að það sé hið besta mál og sé mjög nauðsynlegt að hrinda því í framkvæmd. En þegar kemur að framkvæmdinni, þá verður minna úr hlutunum.
    Ég vil vekja athygli á mjög athyglisverðri ræðu sem flutt var í gær af Sigríði Jóhannesdóttur um þessi mál. Hún vakti a.m.k. mikla athygli hjá mér og mér fannst að þar talaði þingmaður sem hafði yfirgripsmikla þekkingu á þessu máli. Ég var henni vissulega sammála á margan hátt. En í þessari þáltill. sem ég vitna hér til sem er á þskj. 260 og ég er 1. flm. að er einmitt reynt að taka á þessu vandamáli sem menn hafa verið að tala um. Það er fyrir það fyrsta að koma í veg fyrir að menn lendi í blindgötum kerfisins eins og oft er nú talað um, að menn lokist af. Það er reynt að taka á því. Það er einnig reynt að taka á því á allskilmerkilegan hátt í greinargerð hvað fyrir mér vakir þegar ég legg að til að verkmenntaskólarnir sjái til þess að gera samninga við viðkomandi iðnfyrirtæki þannig að nemanda sem mun hefja nám í viðkomandi skóla sé ljóst þegar í upphafi námsins hvort honum er leiðin greið til enda á þessari braut. Og ef ég veit rétt, þá mun einmitt hafa verið gerð tilraun með þetta í skólanum á Neskaupstað og ég held að það hafi gefist vel.
    Það er fleira sem ég hef einnig lagt til í þessu og þar er tekið á því kerfi sem er komið upp í iðnmenntuninni að nú skal það vera skilyrt að áður en menn fá meistarabréf, þá eiga þeir að ganga í gegnum meistaraskólann. Ég legg áherslu á það að þegar að slíku er komið þá er sá iðnaðarmaður orðinn býsna fullorðinn, venjulega orðinn maður með heimili, og þá er margt að breytast í hug manna. Oft og tíðum stendur hugur þessa manns þá til lengra náms og hann vill gjarnan fara í Tækniskóla. Þá er mjög mikils um vert að sá maður sé það vel undirbúinn að hann þurfi ekki að stíga skref til baka í menntuninni heldur að að hann eigi greiða leið að komast áfram í Tækniskólann. Vegna þess að ég fullyrði það að maður með slíka þekkingu og mikla verkmenntun að baki er ákjósanlegur starfskraftur úti í þjóðfélaginu og að mörgu leyti ákjósalegri starfskraftur heldur en þeir sem hafa gengið í gegnum skólann beint. Það er á þessum þáttum sem ég hef reynt að taka í tillögu minni og ég kem eiginlega hér fyrst og fremst upp til þess að lýsa undrun minni á störfum Alþingis. Ég hef flutt þessa tillögu eins og ég segi á tveimur þingum og nú liggur það fyrir að menntmn. hefur ekki einu sinni sent þessa tillögu út til umsagnar. Samt er þetta tillaga á þskj. 260 með málanúmer 218 og mér er sagt að ástæðan fyrir því að það hafi ekki verið sent út sé að menn hafi fengið umsögn um hana í fyrra. Það breytir engu í mínum huga. Það er ekki þinglegt að standa svona að málum, en ég get ekki verið að æsa mig mikið upp út af þessu vegna þess að formaður nefndarinnar og sá sem ber ábyrgð öðrum fremur á störfum nefndarinnar er fjarstaddur. Varaformaður nefndarinnar er heldur ekki hér í salnum af ótta við það að hann þurfi að tala fyrir þál. sem hann hefur flutt ásamt formanni Alþfl. Ég þarf því ekki að eyða fleiri orðum í þetta. En ástæðan fyrir því að ég kem hér upp er að vekja athygli hæstv. menntmrh. á þessu og biðja hann í mikilli vinsemd að skoða það hvort ekki gæti verið ávinningur að líta á þessa tillögu um leið.