Fyrirhugaður niðurskurður í herstöðinni í Keflavík

172. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 18:02:16 (8054)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Þetta eru að sönnu allmikil tíðindi sem hér eru að gerast þó að við þeim hafi mátt búast og sömuleiðis eru afar alvarlegir þeir atburðir sem orðið hafa hér í samskiptum Alþingis og utanrmn. annars vegar við hæstv. ríkisstjórn, ráðherra og reyndar að því er virðist einnig við hv. formann utanrmn. Það gengur ekki fyrir hv. þm. Björn Bjarnason eða hæstv. utanrrh. að láta sem ekkert sé, hér hafi ekkert gerst. Lítið leggst þá fyrir fréttamat Morgunblaðsins sem leggur þvera forsíðu sína undir þennan stóra atburð og færir fyrir því ýmis rök, sem eru þá röng ef svo er, að þarna séu tímamótaákvarðanir í burðarliðnum. Og auðvitað samrýmist það ekki heldur þessum málflutningi að hæstv. utanrrh. skuli samt sem áður hafa skipað sérstakan vinnuhóp fyrir nokkrum vikum síðan af þessu tilefni og sömuleiðis skuli sendinefndir vera á förum til Bandaríkjanna en samt er látið eins og ekkert sé. Hér hefur auðvitað orðið hneyksli í samskiptum ríkisstjórnarinnar og formanns utanrmn. við nefndina og Alþingi og í raun og veru brotið samráðsákvæði laga.
    Að sjálfsögðu er það fagnaðarefni að þróunin sé í þessa átt, í átt til þess að hér dragi úr vígbúnaði og herinn hugsi sér til hreyfings. En tilfinningar manna verða eðlilega blendnar við þær aðstæður að þetta dregur athyglina að því hversu efnahagslega háð við erum orðin dvöl hersins og því alvarlega ástandi sem skapast á Suðurnesjum í kjölfarið og er það þó nógu slæmt fyrir. Í þeim efnum er auðvitað hæstv. ríkisstjórn með allt niður um sig eins og víðar, hefur reynst gjörsamlega ófær um að taka þar á nokkrum hlut. Í raun og veru hafa Suðurnesjamenn þar verið dregnir á asnaeyrunum og hafðir að ginningarfíflum, þ.e. þeir fjármunir sem þar áttu að fara til atvinnuuppbyggingar og lofað var eiga að greiðast úr þeirra eigin vasa. Svoleiðis viðbrögð við þessum atburðum duga auðvitað ekki. Hér verður að taka öðruvísi á málum, vinna sig út úr þessum vanda, bregðast þannig við honum.