Skaðabótalög

173. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 20:33:21 (8082)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Í þessu viðamikla máli hefur því miður ekki farið fram mikil umræða og fjarri því að vera svo sem málið gefur tilefni til að rætt sé svo sem vert er þær breytingar sem um er að ræða. Mér sýnist að einungis hafi örfáir alþingismenn tekið til máls í málinu, líklega einir þrír, og mælt fyrir niðurstöðu sinni um þetta mál án þess að nokkuð frekar hafi komið fram um þær ábendingar sem nefndin fékk um málið. Og til þess að halda því til haga af ábendingum sem fram hafa komið í málinu upp á síðari tíma þykir mér rétt að kynna örfá atriði sem fram komu í umsögnum þannig að menn viti af þeim og geti haft þær til hliðsjónar á næstunni þegar frv. þetta, sem væntanlega verður að lögum mjög fljótlega, verður komið til framkvæmda.
    Ég vil nefna í fyrsta lagi athugasemd sem Jafnréttisráð gerði á síðasta ári við það frv. sem þá lá fyrir og fjallar um bætur til maka eða sambúðarmaka vegna missis framfæranda. Þær breytingar sem gerðar hafa verið á þessari grein á milli frumvarpa eru ekki slíkar að þær breyti efnisatriðum ábendingar Jafnréttisráðs og er það skaði að lagatextinn skuli ekki taka betur á þessu atriði. Að nokkru leyti er komið til móts við þetta í athugasemdum við 13. gr. í núverandi frv. en fjarri því að vera nægjanlegt.
    Athugasemd Jafnréttisráðs sem lögð var fram með bréfi, dags. 30. apríl á síðasta ári er svohljóðandi, með leyfi forseta, hvað varðar 13. gr. frv.:
    Hér er fjallað um bætur til maka eða sambúðarmaka vegna missis framfæranda. Framkvæmd þessarar greinar gæti valdið vafa þar sem ekki er útskýrt hvað átt er við með hugtakinu ,,framfærandi``. Spyrja má hvort eingöngu sé átt við þann sem aflar allra tekna heimilisins eða hvort sá sem er í hlutastarfi telst framfærandinn. Þetta þyrfti að skýra nánar.
    Enn fremur skal á það bent að í grein þessari er talað um sambúðarmaka og samkvæmt greinargerð er vikið frá skilgreiningu 52. gr. laga nr. 67/1971, um almannatryggingar, varðandi hugtakið ,,óvígð sambúð``. Þar er það skilyrði þess að óvígð sambúð teljist hafa stofnast að aðilar hafi verið tvö ár í sambúð eða að þau eigi barn saman. Þessi skilyrði eru ekki gerð skv. 13. gr. en í greinargerð segir að það sem hér skipti máli sé hvort sambúð hins látna og bótakrefjanda á þeim tíma er tjón bar að höndum hafi verið þess eðlis að rök séu til að jafna henni til hjúskapar. Þetta verður að teljast bagalegt þar sem þetta eykur enn á þá óvissu sem er til staðar varðandi hugtakið ,,óvígð sambúð.`` Er brýnt að hugtakið ,,óvígð sambúð`` verði skilgreint þannig að samræmi sé í allri löggjöf svo að sambúðarmakar átti sig á réttarstöðu sinni.
    Þetta er þörf ábending frá Jafnréttisráði varðandi 13. gr. frv. og þrátt fyrir að textinn í athugasemdum við 13. gr. hafi lengst og breyst nokkuð á milli frumvarpa er engu að síður kjarni málsins sá að í greinargerð segir, með leyfi forseta, að það sem sköpum skipti í þessu efni sé hvort sambúð hins látna og bótakrefjanda á þeim tíma er tjón bar að höndum hafi verið þess eðlis að rök séu að jafna henni til hjúskapar. Þannig að enn halda menn sig við það orðalag sem Jafnréttisráð gerði athugasemdir við á síðasta ári.
    Þetta vildi ég að kæmi fram, virðulegi forseti, þannig að menn vissu af þessari athugasemd og gætu í framhaldi af þessu frv. fylgst með málinu og jafnvel komið með nauðsynlegar lagfæringar á lögunum svo fljótt sem verða má.
    Ekki er nú ástæða til að fjölyrða um öll atriði sem fram komu í umsögnum og mun ég aðeins víkja að örfáum. Ég vil nefna helstu atriði sem Lögmannafélag Íslands gerði athugasemdir við sérstaklega í bréfi dags. 22. mars sl. Þar nefna þeir í Lögmannafélagi Íslands í fyrsta lagi það atriði að ekki sé gert ráð fyrir bótum fyrir varanlegan miska þegar hann er metinn minna en 5%. Í athugasemd þeirra við þetta atriði segir að ekki verði séð að nein rök séu til að fella alveg niður bætur í svona tilvikum og er það áreiðanlega ekki í samræmi við réttarvitund manna, eins og segir í athugasemd Lögmannafélagsins um þetta atriði.
    Þá gerir Lögmannafélagið athugasemd við 6. gr. frv. sem kveður á um hvernig bætur skulu metnar til fjárhæðar. Þar kemur fram að miða skal við 7,5-föld árslaun tjónþola, sbr. 7. gr., margfölduðu með örorkustigi og er breyting frá frv. í fyrra en þar var miðað við sexföld árslaun. Með þessu er verið að búa

til reiknireglu fyrir útreikning á örorkutjóni sem á að koma í staðinn fyrir núgildandi reglur. Lögmannafélagið gerir í sjálfu sér ekki athugasemd við að slík reikniregla sé búin til en bendir á að slík regla verði að hafa það meginmarkmið að bæta raunverulegt fjártjón á grundvelli þeirra gagna sem frv. gerir ráð fyrir. Enn fremur benda þeir á að reiknireglan með þessari 7,5-földu árslaunum feli í sér verulega lækkun bóta frá því sem vera mundi með núverandi aðferðum, þ.e. aðferðum sem miða að því að reikna út raunverulegt tjón þó fullt tillit sé tekið til þess að nú á ekki að draga frá greiðslur frá þriðja manni. Þetta er athyglisverð ábending frá Lögmannafélagi Íslands, þar sem bent er á að bætur munu lækka og settar eru fram efasemdir um grundvöllinn á þessari formúlu.
    Þá gerir Lögmannafélagið athugasemd við 7. gr. frv. þar sem áætlað er að miða útreikning tjóns við tekjur næstliðins árs fyrir þann dag er tjón varð. Þarna er verið að taka upp nýja reglu í stað þess sem notað hefur verið fram til þessa, að miða við meðaltekjuöflun þriggja síðustu ára. Í athugasemd Lögmannafélagsins segir, með leyfi forseta:
    ,,Ætla verður að hinar hefðbundnu aðferðir feli í sér betri mælikvarða um tekjuöflunarhæfi þar sem miðað er við lengra tímabil auk þess sem gagnaöflun kann í einstökum tilvikum að verða erfiðari þegar hætt er að nota skattframatalstekjur en farið að nota tekjur næstliðins árs.``
    Ég get tekið undir þessar ábendingar Lögmannafélags Íslands. Ég tel að þær séu rökstuddar nokkuð vel og menn verði að íhuga þær vandlega.
    Þá gerir Lögmannafélagið alvarlegar athugasemdir við ákvæði 8. gr. frv. en þar er gert ráð fyrir að örorkubætur til barna og tjónþola ,, . . .  sem að verulegu leyti nýta vinnugetu sína þannig að þeir hafa engar eða takmarkaðar vinnutekjur, skal ákvarða á grundvelli miskastigs samkvæmt 4. gr.`` og bætur ákveðast ,,sem hundraðshluti af bótum fyrir varanlegan miska . . .  `` Í umsögn Lögmannafélagsins segir, með leyfi forseta, um þetta atriði:
    ,,Ekki verður séð hvaða rök mæli með því að miða örorkubætur til þessara tjónþola við reglur um miska. Hér sýnist mega meta örorkustig á sama hátt og hjá öðrum tjónþolum og miða svo bætur við meðallaun á svipaðan hátt og gert hefur verið. Festa má í lögin viðmiðanir fyrir heimilisstörf.``
    Þetta eru helstu atriðin sem Lögmannafélag Íslands hafði að athuga við þetta frv. sem hér er komið til 3. og síðustu umræðu og ekki er ágreiningur um að afgreitt verði á yfirstandandi þingi. En ég tel rétt þar sem þessar athugasemdir hafa ekki komið fram í umræðum að hreyfa við þeim hér svo þingheimur hafi vitneskju um þessar ábendingar og menn séu meðvitaðir um að þær hafi verið lagðar fram.
    Þá vil ég geta umsagnar frá Læknafélagi Íslands sem barst 27. apríl eða aðeins daginn áður en frv. var tekið út úr nefnd. Samkvæmt því sem fram kemur í bréfinu hefur verið rækilega fjallað um þetta frv. í stjórn Læknafélags Íslands og þau atriði sem stjórnin bendir á að taka til athugunar við endanlegan frágang og síðar afgreiðslu frv. eru eftirfarandi:
    Það er fyrst breytingin sem er gerð í frv. um mat á líkamstjóni. Ég vil leyfa mér að vitna til þess í bréfinu, með leyfi forseta:
    ,,Eftir líkamstjón hafa einstaklingar hlotið mat sem nefnt hefur verið annars vegar tímabundin örorka og hins vegar, ef ástæða hefur orðið til, varanleg örorka. Í fyrra tilvikinu er tekið tillit til atvinnutaps eða atvinnutjóns og þar með eftir atvikum tekjumissis en jafnframt til þjáninga. Eftir þessu hefur farið mishátt og mislangvarandi örorkustig en tímabundið þó. Ekki er sýnt fram á það með rökum að þessi háttur hafi ekki fullnægt því skilyrði að meta í senn og sem næst réttu fjárhagsskaða tímabundið og þjáningar tímabundið. Því verður ekki séð að horfi til neinna bóta að kveða á sérstaklega um tímabundið atvinnutjón sbr. 2. gr. frv. og um þjáningar sbr. 3. gr. frv. og vafasamt er þrátt fyrir einföldun að staðla bætur og þá m.a. eftir því hvort einhver er þjáður á fótum eða rúmliggjandi.``
    Þá segir í athugasemd Læknafélagsins sem ég tel rétt að komi fram hér í umræðunni, með leyfi forseta:
    ,,Þegar einstaklingur nær ekki fullum bata eftir líkamstjón kemur að lokum eftir núgildandi reglum til varanlegs örorkumats. Slíkt mat rétt eins og hið tímabundna getur aldrei með nokkrum rétti verið annað en læknisfræðilegt. Hin læknisfræðilega varanlega örorka tekur bæði tillit til þess sem nú er kallað varanlegur miski sem og til þess sem nú er skilgreint sem örorka eftir frv., þ.e varanleg skerðing á getu til að afla vinnutekna.``
    Þá kemur einnig fram að Læknafélagið gerir athugasemd við svonefnda örorkunefnd. Þeir telja hana óþarft fyrirbrigði og gera reyndar alvarlegar athugasemdir við það sem fram kemur í frv. í athugasemd við 10. gr. frv., að horfið verði frá því mati sem í aðalatriðum er talið læknisfræðilegt og í stað þess komi svonefnt fjárhagslegt örorkumat. Þetta telja læknar ekki geta verið rökrétta hugsun.
    Að öðru leyti tíunda ég ekki athugasemdir Læknafélags Íslands, en þetta eru helstu atriði sem stjórn þess félags leggur áherslu á að verði skoðuð frekar.
    Þá hafa komið fleiri umsagnir með mismunandi athugasemdum við efni frv. en ég tel að ég hafi komið á framfæri þeim helstu og alvarlegustu sem á hefur verið bent. Ég tek undir það að menn eigi að gæta sín í þessum efnum, taka fullt tillit til þessara athugasemda. Þrátt fyrir það að menn staðfesti þetta frv. eins og margir hvetja til og ég tel rétt að gert verði, þá má ekki horfa fram hjá þeim hnökrum sem er að finna á þessu frv. og kemur m.a. fram í minnihlutaáliti hv. þm. Önnu Ólafsdóttur Björnsson.