Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála

173. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 21:18:42 (8090)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég vil leiðrétta að einu leyti það sem kom fram í ræðu hv. þm. Sigríðar Jóhannesdóttur, að við munum aldrei leita stóra sannleikans, við munum aldrei leita hans og aldrei finna hann. Það er grundvallaratriði að gera sér grein fyrir því að við verðum að halda leitinni að sannleikanum endalaust áfram vitandi það að stóra sannleikann munum við aldrei finna og það er tilgangslaust að leita hans. En það er færasti vísindamaður sem Ísland á í félagsvísindum sem stjórnar þessari stofnun í dag. Þessi maður hefur þá sérstæðu reynslu að hann vann við útvistardeild Reykjavíkurborgar sem ungur maður og fylgdist með þeim unglingum sem þá voru settir út úr skólastarfinu vegna þess að þeir hlýddu ekki réttum leikreglum. Hann þekkir því grunninn líka mjög vel. Þetta vil ég segja vegna þess að þó að það sé vissulega rétt að þarna sé verið að glíma við svið sem aldrei verður rannsakað á sama hátt og efnafræðilegar formúlur, það liggur ljóst fyrir, þá megum við ekki falla í þá gryfju að trúa því ekki að félagsvísindin hafa skilað stórkostlegum árangri þar sem þeim hefur verið beitt.
    Ég verð að segja eins og er, t.d. bara í löggæslumálum. Sú ákvörðun að dreifa lögreglunni til lítilla lögreglustöðva er beinlínis byggð á rannsóknum sem gerðar hafa verið á því sviði og það hefur skilað góðum árangri eins og gert hefur verið í Breiðholtinu í Reykjavík. Félagsvísindin eru því grein sem við verðum vissulega að taka í okkar þjónustu á þessu sviði.