Vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum

174. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 11:30:38 (8167)

     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Eins og fram kom í máli frsm. og kemur reyndar fram í frhnál. iðnn. var ég fjarstödd þegar málið var afgreitt úr nefnd vegna anna á öðrum vettvangi. Gat ég því ekki verið við þegar þetta mál var afgreitt. Ég skrifaði hins vegar undir nál. iðnn. með fyrirvara þannig að ég var sammála þessu máli á sínum tíma þó að ég hefði og hafi reyndar enn efasemdir um að þetta sé eitthvert forgangsmál og kom það mér í raun mjög á óvart að hæstv. iðnrh. skyldi leggja áherslu á að þetta mál yrði afgreitt í þessum miklu önnum sem við stöndum nú frammi fyrir hér í þinginu.
    Ég tók eftir að frsm. nefndarinnar taldi að þetta væri mjög mikilvægt og brýnt mál. Ég er honum ekki sammála og það gildir reyndar um marga fleiri. Ég hef m.a. talað við nokkra eðlisfræðinga sem ég hef spurt hvort nokkrar líkur væru á að það þyrfti að nota ákvæði þessa frv. í náinni framtíð en það töldu þeir ekki verða fyrr en einhvern tímann á næstu öld hugsanlega. Og þó að sett verði á stofn einhver fyrirtæki sem formaður nefndarinnar minntist á, t.d. á fríiðnaðarsvæði ef það kæmi til, þá væru mestar líkur á að slíkar smárásir mundu verða notaðar tilbúnar frá öðrum verksmiðjum, það er a.m.k. vaninn á flestum sviðum að það sé gert en ekki þannig að það sé verið að framleiða slíka þætti hér á landi.
    Ég vil hins vegar taka það fram, virðulegur forseti, að ég er alls ekkert andvíg þessu frv. og mun greiða því atkvæði mitt en ég tel ákaflega sérkennilegt að þetta skuli vera eitt af forgangsmálum iðnrn. og iðnrh. á þessum síðustu og verstu tímum.