Vegalög

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 15:56:07 (8209)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegur forseti. Hv. samgn. hefur skrifað upp á nál. hvað varðar þessa breytingu á vegalögum sem gerir ráð fyrir því að Vegagerðinni sé heimilt að kaupa, eiga og hafa umsjón með ferjum og flóabátum. Það er auðvitað liður í því sem hér er orðin staðreynd að rekstur ferja og flóabáta er kominn alfarið á hendur Vegagerðarinnar. Það hefur komið í ljós að til þess að Vegagerðin geti endurskipulagt þennan rekstur, sem hún hyggst gera, þarf fyrst að breyta þessum lögum þannig að Vegagerðinni sé heimilt að kaupa og hafa umsjón með þessum eignum. Hingað til hefur það verið þannig að ríkið hefur lagt fram stofnkostnað til kaupa á ferjum og einnig til rekstrar. Það hefur hins vegar aldrei verið fært sem eign ríkissjóðs heldur framlag á hverju ári til viðkomandi rekstraraðila sem hafa séð um þennan rekstur. Það er þess vegna í raun og veru í lausu lofti hvert framlag ríkisins hefur verið og hver eignarhluti þess ætti að vera samkvæmt því.
    Ég vil leggja áherslu á að þó ég standi að þessu nál. um samþykkt frv. þá áskil ég mér allan rétt til að ræða frekar um rekstur og rekstrarforsendur þeirra ferja og flóabáta sem þetta frv. mun taka til eða rekstur þeirra sem nú eru í gangi.
    Það kom fram áðan í umræðunum um vegáætlun hjá hv. formanni samgn. að sett var inn í vegáætlun skilgreining á því hvert væri hlutverk ferja og flóabáta. Þar er nokkuð greint á milli hvort hlutverk þeirra sé að flytja fragt og farþega eða hvort það sé að flytja fragt, farþega og bíla. Hann gerði sérstaklega að umtalsefni Fagranesið í Ísafjarðardjúpi sem í dag ætti samkvæmt skilgreiningu að flytja aðeins farþega og fragt, ekki bíla og taldi það ekki hafa verið hlutverk Fagranessins, djúpbátsins, á undanförnum árum. Að vísu er komið þangað nýtt skip sem keypt var með samþykki ríkisins. Það skip er í raun ferja sem getur tekið bíla sem keyra beint inn í það svipað og Akraborg og Herjólfur, en til þess að það nýtist vantar bryggjuaðstöðu bæði á Ísafirði og inni í Djúpi. Mér finnst ekki hafa komið fram þegar verið er að ræða um ferjur og flóabáta og hlutverk þeirra framvegis og m.a. þetta sem kom fram hjá hv. formanni áðan að Fagranesið, djúpbáturinn, sem þjónað hefur eyjunum í Ísafjarðardjúpi og ströndinni þar sem ekki eru vegasamgöngur sem haldið er opnum allt árið, að það skip hafi ekki hingað til eða áður flutt bíla. Þetta er mikill misskilningur. Gamla Fagranesið sem ekki var bílferja flutti bíla og allt fram til ársins 1977 en á því ári kom akfær vegur um Ísafjarðardjúp. Allt fram til þess tíma fluttu menn bíla sína með Fagranesinu þó að það væri ekki bílferja en það flutti þó allt upp í 10--12 bíla í ferð. Það er því ekki undarlegt að eigendur Djúpbátsins hf. hafi í framhaldi af því þegar þeir hugðust kaupa nýtt skip, gamla Fagranesið var orðið of gamalt til þess að þjóna sína hlutverki, hugsað sér að gera bragarbót á þessu og kaupa skip sem væri jafnframt bílferja en ekki þyrfti krana til þess að hífa bílana um borð.
    Þetta mál er ekki búið að leysa að fullu, hvernig verður farið með þetta. Samkvæmt fjárlögum ársins í ár þá er framlag til bygginga ferjubryggja í Ísafjarðardjúpi. Ekki hefur enn þá verið byrjað á að byggja þær en Vegagerð ríkisins mun skipa nefnd eða er jafnvel búin að skipa nefnd sem gerir athugun á því máli, rekstrarforsendum þess að reka þarna bílferju. Það mun þess vegna verða einhver bið á því að fyrir liggi hver rekstrargrundvöllurinn væri fyrir slíka ferju.
    Þetta vildi ég að kæmi fram. Það er ekkert nýtt að hér sé verið að tala um að fluttir séu bílar inn í Ísafjarðardjúp og einnig að þó að frá árinu 1977 hafi verið vegur um allt Djúpið þá er hann enn þá ekki eins og menn vilja hafa sæmilegar vegasamgöngur í dag. Vegurinn er á stórum kafla óuppbyggður og tveir þriðju hlutar hans eru ekki með bundnu slitlagi. Á meðan svo háttar að sá vegur er ekki betri en hann er þá held ég að það þurfi fullkomlega að skoðast hvort bílferja þarf ekki enn þá að þjóna samgöngum á þessu svæði.