Vandi sjávarútvegsins

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 18:37:39 (8243)

     Össur Skarphéðinsson :
    Frú forseti. Skelfing hlýtur því fólki að líða illa sem ekkert sér nema svart. Hér hefur hver pótintátinn af öðrum talað fyrir hönd stjórnarandstöðunnar og ekkert séð nema svart. Hér hefur enginn maður séð ástæðu til þess að benda á að þrátt fyrir allt eru að gerast ævintýri þó lítil séu í íslenskum sjávarútvegi. Ævintýri sem vísa til þess að þrátt fyrir allt hefur þessi grein bjarta framtíð. (Gripið fram í.) Ég verð hins vegar að segja það, hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson, sérfræðingur Framsfl. í sjávarútvegsmálum, eins og væntanlega kemur hér fram á eftir, að vel er við hæfi að það er Alþb. sem fer fram á þessa umræðu. Sá ágæti stjórnmálaflokkur fór fram á umræðu um sjávarútvegsmál utan dagskrár hér í síðustu viku og hlaut þar svo háðulega útreið að það er ósköp skiljanlegt, mannlegt að þeir skuli nú reyna að gera aðra atrennu. Staðreyndin er auðvitað sú að það er enginn flokkur á Íslandi sem hefur verið jafnalræmdur fyrir sitt stefnuleysi í sjávarútvegsmálum eins og einmitt Alþb. Það hefur á undanförnum árum sveiflast á milli þess að vera ýmist með kvótakerfinu eða á móti því, með sóknarstýringu eða á móti henni. Formaður flokksins hefur gengið lengra en nokkur annar íslenskur stjórnmálamaður hvað varðar sölu á aflaheimildum. Hann hefur lagt fram tillögur um að þær verði boðnar hæstbjóðanda í tilraunaskyni, a.m.k. hluti þeirra, meðan hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sér svart í hvert einasta skipti, að ég segi ekki rautt, þegar minnst er á sölu aflaheimilda. En það er kannski, virðulegi forseti, í stíl við þann hringlandahátt sem maður hefur mátt sjá hjá Alþb. að ég sé ekki betur á máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar en það sé að verða stefnubreyting hjá flokknum varðandi þróunarsjóðinn.
    Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og raunar hinn sérfræðingur flokksins í sjávarútvegsmálum, hv. þm. Jóhann Ársælsson, hafa ekkert verra vitað heldur en þróunarsjóðinn, talið honum flest til foráttu. Hér kemur eigi að síður hv. varaformaður Alþb., Steingrímur J. Sigfússon og spyr: Hvar er þróunarsjóðurinn? Hann tekur undir með áhyggjum Morgunblaðsins um það hvað verður um þróunarsjóðinn. Ég tek líka undir þessar áhyggjur vegna þess að ég geri mér grein fyrir því, virðulegi forseti, að þróunarsjóðurinn getur skipt sköpum um framvindu íslensks sjávarútvegs. Ég tek þetta mál hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sem dæmi um það að honum sé nú farið eins og Sál forðum á leiðinni til Damaskus, hann hefur verið lostinn eldingu skilningsins og skilur nú loksins hversu mikilvægur þróunarsjóðurinn kann að verða fyrir íslenskan sjávarútveg.
    Ég verð hins vegar að segja það, virðulegi forseti, að mig undraði að sjá varaformann þess stjórnmálaflokks sem yfirleitt hefur talið sig bera hag alþýðunnar best fyrir brjósti, tala hér um gengisfellingu í afskaplega óvarfærnum tóni. Ég gat ekki skilið hv. þm. Steingrím J. Sigfússon öðruvísi en svo að hann hafi bókstaflega verið að biðja um að genginu væri breytt. Ég skildi mál hans þannig og ég vænti þess þá að hann eða einhverjir aðrir talsmenn Alþb. í þessari umræðu leiðrétti það. (Gripið fram í.) Ég tel, virðulegi hv. þm., að menn þurfi að skoða það mál mjög nákvæmlega eins og ég mun koma að hér á eftir. Ég tel að menn eigi ekki að rasa þar um ráð fram og tel að það sé hættulegt að koma með yfirlýsingar eins og þessar.
    Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að málflutningur margra þeirra sem hér hafa talað, e.t.v. með nokkurri undantekningu hjá hv. þm. Önnu Ólafsdóttur Björnsson, hafi einkennst af rökleysu og sennilega hafa þær hvergi gengið jafnlangt og hjá hv. þm. Stefáni Guðmundssyni. Það var alveg makalaust að hlusta á málflutning mannsins. Hann byrjaði sína ræðu á því, virðulegi forseti, að kvarta undan því að skuldir einstaklinga og heimila hafi aukist. Ég tek undir það. Hvenær á áratugnum, fyrst menn eru að vekja þetta mál upp hér, skyldu skuldir heimilanna hafa aukist mest nema þegar hv. þm. Steingrímur Hermannsson var forsrh. árið 1990, þær jukust um 17,5%. Kannski hv. þm. Stefán Guðmundsson ætti að athuga það. Hann sagði áðan: Sjávarútvegurinn þarf ekki að skammast sín fyrir sína frammistöðu. Það er þá rétt. En Framsfl. þarf að skammast sín fyrir hana. Og sé það rétt sem hv. þm. sagði hér áðan að það væri verið að kveikja í greininni, eins og hann orðaði það, menn stæðu með eldspýturnar í höndunum, hver skyldi hafa dregið saman efniviðinn í bálköstinn ef ekki framsóknarmenn sem hafa stýrt þessari grein, sem hafa stýrt þessu landi árum saman? Ætli það sé ekki Framsóknaráratugurinn sem á þar nokkra sök á? Ætli það sé ekki hv. þm. Stefán Guðmundsson sem á þar nokkra sök á? Hann hefur alla vega verið hafður í taumi hjá hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni og lepur upp allt það sem hann segir. Ætli hann eigi ekki líka sök á þessu?
    Virðulegi forseti. Það var líka nöturlegt að heyra hv. þm. Stefán Guðmundsson ræða hér um vanda greinarinnar og ég gat ekki skilið hann öðruvísi en svo að hann væri að amast við því að menn væru að færa skattbyrðar af atvinnulífinu. Ég gat ekki skilið það öðruvísi. Hann talaði um það í þeim tóni að verið væri að taka skatta af fyrirtækjum og setja á einstaklinga. Það þótti honum slæmt. Í hinu orðinu var hann að biðja um að aflétta gjöldum af fyrirtækjum í sjávarútvegi. Og ég hef aldrei á ævi minni, virðulegi forseti, heyrt aðra eins vitleysu eins og þegar hv. þm. Stefán Guðmundsson rekur vanda sjávarútvegsins í einu orðinu og segir: Það er ríkisstjórnin. Síðan les hann hér góða tölu um þann gríðarlega vanda sem felst í aflaminnkuninni, 183 þús. tonn nefndi hann á einhverjum tilteknum tíma. Halda menn að það skipti ekki sköpum um framvindu einnar greinar þegar þorskafli dregst þannig saman á einhverju árabili? Halda menn að það sé hæstv. ríkisstjórn að kenna?
    Ég skal taka undir það með stjórnarandstöðunni, virðulegi forseti, að hæstv. forsrh. Davíð Oddsson er valdamikill og getur gert marga hluti en honum er þó ekki farið eins og einhverjum Messíasi að hann geti skapað fiska. Ríkisstjórninni er ekki gefið það vald. Það liggur annars staðar. ( SJS: Getur Jón Baldvin það?) Hann getur það ekki heldur.
    Það var líka furðulegt að heyra hv. þm. Stefán Guðmundsson fara hér mikinn og tala um græðgi ríkisstjórnarinnar, --- græðgi ríkisstjórnarinnar til eyðslu. Hverjir hafa gagnrýnt hæstv. ríkisstjórn meira en einmitt framsóknarmenn, meira en einmitt þessi ágæti þingmaður, fyrir niðurskurð? Ég skil satt að segja ekki rökleysu af þessu tagi. Ég verð að segja það, hv. þm. Stefán Guðmundsson, næst þegar þingmaðurinn eyðir hálfri nóttinni við að skrifa stílinn sinn sem hann les hér þá ætti hann e.t.v. að leita víðar fanga. ( StG: Hvaða niðurskurð?) Sem dæmi, virðulegi forseti, um þann málflutning þingmannsins sem gekk algerlega fram af mér --- ég tek það fram honum til afbötunar að það gerist ekki oft að Framsfl. gangi fram af nokkrum manni vegna þess að menn eru orðnir svo vanir honum eftir áratuga ríkisstjórn undir hans forustu --- þá taldi hann það ríkisstjórninni til foráttu að hún skyldi vera að krefjast endurskipulagningar í sjávarútvegi. Hvers konar endemis bull er þetta eiginlega? Er það ekki allt það sem við erum að gera hér? Er það ekki allt það sem miðar einmitt að því að fá greinina til þess að endurskipuleggja sig? Og eru það ekki einmitt þau fyrirtæki sem nú sýna gróða, þrátt fyrir allt eru nokkur fyrirtæki sem sýna hagnað eins og fram

hefur komið í blöðum, eru það ekki einmitt þau sem hafa náð að endurskipuleggja sig? Ef þetta er sérfræðingur Framsfl. í sjávarútvegsmálum, ja, guð forði þjóðinni frá honum. Ég segi það bara. Ef það er þessi stefna, ef það eru þessi rök, ef það er þessi skilningur á vanda greinarinnar sem á að leiða til öndvegis hér, þá endurtek ég það: Guð forði þessari þjóð vegna þess að ef menn koma hér og halda því fram að það sé greininni til tjóns að endurskipuleggja sig og hagræða, þá skilja svona menn ekkert hvað felst í rekstri, virðulegi forseti. ( SJS: Viltu nú ekki segja okkur af Alþfl.? Hvað vill Alþfl. gera?) ( Gripið fram í: Hver er stefnan?)
    Virðulegi forseti. Mér þótti margt gott í því máli sem Anna Ólafsdóttir Björnsson flutti hérna. Mér þótti þar gæta miklu málefnalegri umfjöllunar heldur en hjá flestum öðrum þingmönnum sem hér hafa talað, en ég verð eigi að síður að neyðast til þess, virðulegi forseti, að gera nokkrar athugasemdir við hennar málflutning. Hún taldi það mikla trú og kennisetningar hjá þessari ríkisstjórn að það mætti ekki grípa til sértækra aðgerða. Hvílík firra! Hvílík firra að heyra þetta af munni þingmanns sem nýlega er búinn að hlusta á hæstv. sjútvrh. vera að telja hér upp einmitt sérstækar ráðstafanir. Hvað kalla menn það að greiða út úr Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins? Er það sértæk ráðstöfun? ( Gripið fram í: Almenn.) Það er sértæk ráðstöfun fyrir þessa grein og ekki aðrar. Hvað kalla menn það, virðulegi forseti, að frysta afborganir af lánum atvinnudeildar Atvinnutryggingarsjóðs Byggðastofnunar í tvö ár? ( StG: Hvenær urðu þessar breytingar . . .  ) Fyrirgefðu, hv. þm., ég hef orðið núna. Hvað kalla menn þetta? Eru þetta almennar aðgerðir? Auðvitað eru þetta ekki almennar aðgerðir. Þetta eru sértækar aðgerðir fyrir sjávarútveginn. Hins vegar er það rétt að það hefur sem betur fer líka verið gripið til almennra aðgerða, almennra aðgerða sem hv. þm. Anna Ólafsdóttir Björnsson kallaði hér áðan sýndarráðstöfun. Í hverju felast þær? Þær felast í því að nema burt aðstöðugjöldin. Hvað þýðir þessi sýndarráðstöfun eins og þingmaðurinn kallaði það fyrir sjávarútveginn, 700 millj.? Er það sýndarráðstöfun sem dregur 700 millj. úr gjöldum sjávarútvegsins? Ég get ekki fallist á svona. Og ég get heldur ekki, virðulegi forseti, látið hjá líða að minnast örlítið á hina nýju fisktegund sem þingmaðurinn nefndi í sínu máli, ,,Marks & Spencer-fiskinn``.
    Það er að vísu svo, virðulegi forseti, að ég hef nokkra nasasjón af þeim kykvendum sem synda í djúpum hafsins og ég geri mér grein fyrir því að hv. þm. Anna Ólafsdóttir Björnsson er ekki þeirrar skoðunar að það sé hægt að veiða ,,Marks & Spencer-fiskinn``. Hún orðaði það svo að hann væri framleiddur. Og, virðulegi forseti, hv. þm. Anna Ólafsdóttir Björnsson telur að við eigum ekki að framleiða ,,Marks & Spencer-fisk``. Við eigum að framleiða einhvern allt annan fisk. Þetta sýnir nú aldeilis skilninginn, skilninginn hjá talsmönnum stjórnarandstöðunnar á málefnum sjávarútvegsins. Veit hv. þm. Anna Ólafsdóttir Björnsson ekki að það eru fyrirtæki út um allt land sem slást um það að fá að selja fisk til Marks & Spencer? Veit hv. þm. það ekki að það er ekkert fyrirtæki, engin verslunarkveðja í öllum heiminum sem gerir jafnháar gæðakröfur? Og það eru einmitt slíkar gæðakröfur sem hafa líka átt þátt í því að vekja íslenska forsvarsmenn sjávarútvegs til vitundar um nauðsyn meiri gæða.
    Virðulegi forseti. Þetta var nú allt önnur ræða en ég ætlaði að halda en ég tel að hv. þm. stjórnarandstöðunnar hafi haft gott af henni.