Atvinnuleysistryggingar

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 20:50:59 (8261)


     Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Finnur Ingólfsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. minni hluta heilbr.- og trn. á þskj. 1270 og brtt. minni hluta heilbr.- og trn. á þskj. 1271. Minni hlutann skipa auk mín hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Ingibjörg Pálmadóttir og Margrét Frímannsdóttir.
    Nefndin hefur fjallað um málið og leitað umsagnar fjölda aðila, jafnt með því að senda málið út til umsagnar og eins voru kallaðir til fundar við nefndina fjöldi aðila. Í því sambandi vísast hér til nál. meiri hlutans í þeim efnum, hverjir þar mættu og hvert málið var sent.
    Það hefur komið æ betur í ljós að undanförnu að alvarlegir annmarkar eru á núgildandi lögum um

atvinnuleysistryggingar. Það frv. sem mælt var fyrir á sínum tíma hefur nú tekið verulegum breytingum í meðförum nefndarinnar. Margar þessara brtt. birtast í áliti meiri hlutans og eru þær margar til bóta en þó er að mati minni hlutans ekki gengið nógu langt í þeim efnum. Þó að ljóst sé að frv. bætir að vissu leyti nokkuð úr verstu göllunum nær það að mati minni hlutans harla skammt. Um gildandi lög um atvinnuleysistryggingar hefur verið þokkaleg sátt og hægt hefur verið að notast við þau vegna þess að hér hefur ekki verið neitt atvinnuleysi. Menn hafa því aðeins þurft að búa tímabundið við þau lög sem í gildi hafa verið og atvinnuástand hefur ekki verið langvarandi. Stefna ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar í efnahags- og atvinnumálum er að festa í sessi mikið og viðvarandi atvinnuleysi og er brýnt að mati minni hlutans að breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar taki mið af þessum staðreyndum. Minni hlutinn gerir brtt. við einstakar greinar frv. í þeim tilgangi að tryggja réttarstöðu atvinnulausra og bæta lífsafkomu þeirra. Námsmönnum er veittur ákveðinn aðgangur að sjóðnum og jafnframt er reynt að tryggja að elli- og örorkulífeyrisþegar sem eru atvinnulausir verði ekki fyrir sérstakri skerðingu eins og frv. gerir ráð fyrir. Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á frv. með þeim brtt. sem meiri hlutinn hefur lagt hér fyrir þingið þó svo að alls ekki sé nógu langt gengið í þeim efnum að mati minni hlutans.
    Í fyrsta lagi leggur minni hlutinn til tvær breytingar á 1. gr. frv. Annars vegar er gert ráð fyrir að tilgreind verði í greininni þau skilyrði sem þurfa að vera til staðar svo að sjálfstætt starfandi einstaklingar teljist vera atvinnulausir. Hins vegar er lagt til að við greinina verði bætt nýrri málsgrein um bótarétt þeirra sem lokið hafa eða hætt námi. Mikill fjöldi námsmana lýkur námi á ári hverju. Æ erfiðara verður fyrir þennan hóp að fá atvinnu, enda þrengist sífellt um á vinnumarkaði og atvinnuleysi eykst stöðugt. Því er nauðsynlegt að huga sérstaklega að stöðu þessa fólks við breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar. Þá þykir minni hlutanum einnig rétt að kveðið verði á um bótarétt þeirra sem sviptir hafa verið frelsi sínu í a.m.k. 12 mánuði með dómi. Er hér gert ráð fyrir að viðkomandi geti fengið bætur eftir að frelsissviptingu lýkur. Lagt er til að ráðherra setji nánari reglur um framkvæmd greinarinnar að fenginni umsögn stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs.
    Í drögum að reglugerð sem fyrirhugað er að setja á grundvelli þessara laga og er fylgiskjal með því frv. sem upphaflega var lagt fyrir þingið kemur fram hvaða skilyrði þurfa að vera til staðar til þess að sjálfstætt starfandi einstaklingur teljist vera atvinnulaus. Þar er m.a. tilgreint að viðkomandi þurfi að hafa hætt rekstri. Þegar fulltrúar Atvinnuleysistryggingasjóðs, stjórnarformaður og starfsmaður sjóðsins mættu til fundar við nefndina var eftir því gengið hvað átt væri við með því að viðkomandi einstaklingur hefði hætt rekstri því það var því miður allsendis óljóst. Dæmi var tekið af vörubílstjóra sem sjálfstætt starfandi einstaklingi. Viðkomandi einstaklingur hefði sennilega þurft að selja vörubílinn til þess að hann teldist vera hættur rekstri. Þó hann gæti hugsanlega átt bílinn áfram en hefði engar tekjur vegna þess að enga vinnu væri að hafa þá var ekki nóg að senda inn samkvæmt reglugerðardrögunum upplýsingar til skattayfirvalda um að engar tekjur hefðu orðið á viðkomandi tímabili. Þarna fannst minni hlutanum allt of langt gengið ef þessi reglugerð, sem þarna var um að ræða, hefði gengið í gildi að frv. samþykktu. Þess vegna fannst minni hlutanum sjálfsagt að taka það fram í 1. gr. frv. hvaða skilyrði þyrftu m.a. að vera þarna til staðar til þess að viðkomandi sjálfstætt starfandi einstaklingur teldist atvinnulaus. Lögð er til brtt. við 1. gr. frv. um að 2. mgr. orðist svo:
    ,,Sjálfstætt starfandi einstaklingar, sem tilkynnt hafa til opinberra aðila eða annarra aðila sem stjórn sjóðsins metur jafngilda að þeir hafi engar tekjur eða tekjuígildi af rekstri, og hafa ekki hafið störf sem launamenn og eru sannanlega í atvinnuleit, skulu eiga sama rétt til bóta úr Atvinnuleysistryggingasjóði og launamenn.``
    B-liður þessarar greinar orðast svo í brtt. minni hlutans:
    ,,Við greinina bætist ný mgr. svohljóðandi:
    Þeir, sem lokið hafa námi, svo og þeir sem sviptir hafa verið frelsi með dómi í a.m.k. 12 mánuði skulu eiga rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Þeir sem hætta námi, skulu þó ekki eiga rétt á bótum fyrr en 40 dögum eftir að þeir hætta námi. Ráðherra setur að fenginni umsögn stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs nánari reglur um framkvæmd þessarar greinar.``
    Þarna er tekin upp þessi 40 daga regla sem gildir einnig um þá einstaklinga sem segja upp starfi sínu en verða atvinnulausir fyrir bragðið. Þarna er með öðrum orðum skapaður ákveðinn biðtími þannig að menn geti ekki eða fari ekki út í það að segja starfi sínu lausi til þess eins að fara inn á atvinnuleysisbætur. Gagnvart námsmönnunum gildir þetta þannig að námsmenn hætta ekki námi til þess eins að fara á atvinnuleysisbætur. Hins vegar er mjög mikill fjöldi manna sem lýkur námi og nú þegar þrengist um á vinnumarkaðinum og varla er nokkur möguleiki á að komast í vinnu þá er mjög mikilvægt fyrir þennan hóp að hann hafi aðgang að atvinnuleysisbótum. Þetta veit ég að allir doktorar sem hér sitja á Alþingi skilja manna best af þeirri ástæðu að þeir hafa lokið langskólanámi og hafa kannski ekki orðið fyrir því sama og menn sem eru núna að ljúka doktorsgráðum hingað og þangað um heiminn. Þeir eru að koma hingað í allt annað umhverfi heldur þeir hafa nokkurn tíma kynnst áður á Íslandi. Hér er enga atvinnu að hafa. ( Gripið fram í: Af hverju heldurðu að . . .   í Þjóðviljanum?) Ég held að það hafi nú verið allt aðrar ástæður sem lágu þar að baki, (Gripið fram í.) og það væri kannski eins og fram kemur í frammíkalli hv. 9. þm. Reykv., að hann einn getur svarað því vegna þess að hann sá um ráðninguna.
    Í öðru lagi er lagt til að í 4. gr. verði nánar kveðið á um reikningshald Atvinnuleysistryggingasjóðs en gert er í frv. Minni hlutinn leggur til sömu breytingar og meiri hluti nefndarinnar til viðbótar því að í greininni verði kveðið á um að útgjöldum sjóðsins vegna þeirra manna sem hafa lokið eða hætt námi og þeirra sem sviptir hafa verið frelsi með dómi annars vegar og sjálfstætt starfandi einstaklinga hins vegar skuli haldið aðgreindu í reikningsskilum sjóðsins. Brtt. minni hlutans hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Við 4. gr. Efnisgreinin orðist svo:
    Tryggingastofnun ríkisins annast sjóðsvörslu, reikningshald og daglega afgreiðslu fyrir Atvinnuleysistryggingasjóð í umboði sjóðstjórnar og undir umsjá hennar.
    Sjóðstjórn er heimilt að ákveða annað fyrirkomulag með samþykki ráðherra.
    Útgjöldum sjóðsins vegna launamanna skal haldið aðgreindum í reikningum sjóðsins frá útgjöldum vegna þeirra sem lokið hafa eða hætt námi og þeirra sem sviptir hafa verið frelsi með dómi annars vegar og sjálfstætt starfandi einstaklinga hins vegar.
    Sjóðurinn skal greiða Tryggingastofnun þóknun fyrir þjónustu hennar samkvæmt samkomulagi milli aðila.
    Handbært fé sjóðsins skal ávaxta eftir því sem við verður komið í lánastofnunum á þeim stöðum þar sem fé sjóðsins fellur til.``
    Meginhugsunin með þessari breytingu er sú að sjálfstætt starfandi einstaklingar verði aðgreindir frá launamönnum og námsmönnum og fyrrverandi föngum. Þetta er gert til þess að geta fylgst með hvernig tekjur berast til viðkomandi deilda í sjóðnum og hvernig útgreiðslurnar eru. Í þeim löndum þar sem slíkt fyrirkomulag er við lýði eða með svipuðum hætti og hér er lýst er þetta fyrirkomulag haft.
    Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar á 8. gr. frv. þannig að umsækjandi haldi bótarétti sínum þótt hann komist ekki til skráningarstaðar sökum veikinda, enda séu veikindi sönnuð með læknisvottorði. Hér er um gríðarlega mikilvæga breytingu að ræða því að við 8. gr. í brtt. minni hlutans er gert ráð fyrir því að greinin hljóði svo, með leyfi forseta:
    20. gr. laganna orðist svo:
    Til þess að öðlast bótarétt verði umsækjandi að láta skrá sig einu sinni í viku hjá vinnumiðlun.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er úthlutunarnefnd eða stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs heimilt að ákveða að á afmörkuðum svæðum og í tiltekinn tíma skuli skráning fara fram oftar en vikulega, enda verði slíkt talið eðlilegt með hliðsjón af atvinnuástandi.
    Nú veikist umsækjandi og heldur hann þá bótarétti sínum, enda séu veikindin sönnuð með læknisvottorði þótt hann komist ekki til skráningarstaðar. Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs setur skráningarreglur samkvæmt þessari grein.``
    Hér er um mjög mikilvæga breytingu að ræða af hálfu minni hlutans vegna þess að sé viðkomandi einstaklingur veikur og komist ekki til skráningar þá er það alveg skýrt að læknisvottorð sem viðkomandi einstaklingur framvísar þegar hann kemur næst til skráningar gildir sem sönnun fyrir því að viðkomandi hafi ekki komist til þess að láta skrá sig og missir þar af leiðandi ekki bæturnar fyrir þann tíma er hann kom ekki til skráningar.
    Í fjórða lagi leggur minni hluti nefndarinnar til að biðtími eftir atvinnuleysisbótum falli niður. Þetta er mjög mikilvægt, ekki síst í ljósi þess að atvinnuleysi er orðið viðvarandi hér á landi. Í frv. og brtt. minni hlutans er gert ráð fyrir því að biðtími eftir atvinnuleysisbótum, eftir hverja 260 daga sem einstaklingurinn fær atvinnuleysisbætur greiddar, skuli vera 16 vikur. Ekki eru atvinnuleysisbætur það háar, innan við 50 þús. kr. á mánuði, að það sé verjandi að láta einstakling sem er atvinnulaus vera án bóta í 4 mánuði á ári. Það hljóta allir að sjá að enginn getur búið við slíkar kringumstæður og þess vegna leggur minni hlutinn til að þessi biðtími eftir bótum falli niður, bótatímabilið verði samfellt en bætur greiðist ekki á laugardögum og sunnudögum. Ástæðan fyrir því að þetta er lagt til núna er sú að hér búum við orðið við viðvarandi eða langvarandi atvinnuleysi sem er til komið vegna þeirrar stjórnarstefnu sem þessi ríkisstjórn rekur.
    Í fimmta lagi er lögð til breyting á 2. gr. 23. gr. gildandi laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 96/1990, með síðari breytingum, þannig að bótaþegum sem hafa börn sín yngri en 18 ára á framfæri á heimili sínu eða greiða sannanlega með þeim meðlag utan heimilis skuli að auki greidd 8% í stað 4% af hámarksdagpeningum atvinnuleysistrygginga. Með þessari breytingu fær hinn atvinnulausi greitt með hverju barni sem hann hefur á framfæri 170 kr. á dag í stað 85 kr. eins og nú eru greiddar. Það er með öðrum orðum verið að leggja til að atvinnuleysisbætur með hverju barni séu hækkaðar um helming. Ég held að það geti enginn rökstutt að hér sé verið að gera óraunsæjar tillögur eða yfirboð að því leyti að það kosti ekki meira en 170 kr. á dag fimm daga vikunnar að framfæra eitt barn.
    Í sjötta lagi er lagt til að 11. gr. frv. falli brott. Þetta er að mínu viti langmikilvægasta breytingin sem minni hlutinn leggur til. Ég trúi ekki fyrr en ég tek á því að ekki sé meiri hluti fyrir því hér á Alþingi að fella 11. gr. frv. eins og hún liggur fyrir eða brtt. meiri hlutans um það hvernig hann vill orða 11. gr. Ég trúi ekki öðru en það sé meiri hluti fyrir því að fella 11. gr. niður. Ástæðurnar eru þessar. Það er gert ráð fyrir því að bætur elli- og örorkulífeyrisþega dragist frá greiðslum almannatrygginga, þ.e. ellilífeyrir, örorkulífeyrir og örorkustyrkur, þessir bótaflokkar lækki bætur almannatrygginga. ( ÖS: Það er í lögum núna.) Það er ekki í lögum núna, hv. 17. þm. Reykv. Gangi hins vegar tillögur meiri hlutans og frv. eftir þá mun þessi hópur verða fyrir verulegri skerðingu. Eins og frv. var upphaflega var talið að þessi

skerðing gæti orðið allt að 10 þús. kr. á mánuði fyrir elli- og örorkulífeyrisþega. Hins vegar hefur brtt. meiri hlutans mildað þessa skerðingu mjög, á því er ekki nokkur vafi. Hins vegar verður maður að spyrja sig þeirra spurninga að örorkustyrkþeginn, sá sem er með örorkumat á bilinu 50--65% og er metinn þannig að hann geti ekki stundað starf nema sem nemur á bilinu 50% og niður í 35% á almennum vinnumarkaði, fær í örorkustyrk innan við 10 þús kr. á mánuði, hvort það eigi að láta þessa upphæð lækka atvinnuleysisbæturnar. Það hljóta náttúrlega allir að sjá að þetta er alveg óraunhæft. Aftur á móti, af því að ég sé núna tillögur meiri hlutans, þá eru allt aðrar aðstæður þó að þær séu ekki góðar hjá ellilífeyrisþegunum og örorkulífeyrisþegunum vegna þess að þeir fá í ellilífeyri eða örorkulífeyri á hverjum mánuði á bilinu 40--50 þús. kr., en grunnlífeyririnn sem er í kringum 13 þús. kr. í dag, ég er ekki nákvæmlega með þá upphæð ( Gripið fram í: Rúm 12 þús.) rúm 12 þús. segir hv. þm., ég rengi það ekki, mun núna hafa þær afleiðingar að hann mun skerða atvinnuleysisbæturnar. En þessi hópur, sem hefur þó 12 þús. kr., hefur tekjutrygginguna, heimilisuppbótina, sérstöku heimilisuppbótina jafnvel, og sérstakar uppbætur. En örorkustyrkþeginn sem meiri hlutinn ætlar að láta örorkustyrkinn skerða atvinnuleysisbæturnar hjá hefur bara 8 þús. kr. eða innan við 10 þús. kr. frá Tryggingastofnun ríkisins.
    Ég trúi því ekki að það verði nokkur hér í þessum sal sem standi að slíkri breytingu.
    Við þetta ákvæði frv. hefur komið fram mikil gagnrýni frá flestum þeim sem fengu málið til umsagnar, sérstaklega þó Landssambandi aldraðra, Öryrkjabandalaginu og Sjálfsbjörgu, landssambandi fatlaðra. Staðreyndin er sú að þegar þrengist um á vinnumarkaðinum --- og þetta var mjög ríkjandi viðhorf hjá þeim hópi sem kom í heimsókn til nefndarinnar --- að þegar þrengist um á vinnumarkaðinum og til uppsagnar kemur hjá fyrirtækjum eða stofnunum er hinum fötluðu og ellilífeyrisþegunum fyrst sagt upp. Það er gert í trausti þess að viðkomandi einstaklingar njóti bóta frá almannatryggingum. En hvað gerist með þeirri breytingu sem núna er verið að lýsa? Það er verið að skerða þær bætur. Gangi þessi skerðing eftir eins og frv. gerir ráð fyrir munu þeir líklega, þ.e. ellilífeyrisþegarnir og öryrkjarnir, flýta töku lífeyris úr lífeyrissjóðum en að flýta töku lífeyris úr lífeyrissjóðum um einn mánuð þýðir þegar fram líða stundir skerðingu um hálft prósent á því sem þessi hópur fær úr lífeyrissjóðunum. Einstaklingur sem er 67 ára og er sagt upp störfum fær skertar atvinnuleysisbætur. Hann fer þá leið að flýta töku lífeyris um þrjú ár. Þegar upp er staðið verður þessi sami einstaklingur fyrir 18% skerðingu á þeim lífeyri sem hann fær í framtíðinni greiddan út úr lífeyrissjóðunum, þeim lífeyrissjóði sem hann hefur lagt fé sitt í. Sama gildir um öryrkjann.
    Þessu til viðbótar er vitað um slík dæmi í fyrirtækjum og stofnunum þar sem einstaklingar hafa farið úr starfi sem hafa náð 67 ára aldri af því að þeir hafa viljað rýma störf fyrir yngra fólk, til þess að hleypa yngra fólki að, skapa því atvinnutækifæri sem hefur verið atvinnulaust. Þetta fólk hefur gert það í trausti þess að það gæti komist inn á atvinnuleysisbætur og hefur auðvitað reiknað það út að það muni fá þetta miklar atvinnuleysisbætur plús bætur almannatrygginga. Núna með þessari breytingu sem lögð er til, hvort sem það er frv. eins og það lítur út eða brtt. meiri hlutans, gerist það að þessi hópur hefur farið úr starfi á fölskum forsendum. Það er verið að koma í bakið á fólki með þessari breytingu. Það er of seint fyrir þetta fólk að snúa aftur, kannski nýbúið að fara úr starfi og rýma fyrir hinum yngri þá kemur þessi breyting og þess vegna leggur minni hlutinn til í 6. tölul. sinna brtt. að 11. gr. frv. falli brott.
    Í sjöunda lagi leggur minni hlutinn til að 2. mgr. 25. gr. laganna verði breytt þannig að ráðherra skuli setja reglugerð um skipun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta til þeirra sem ekki eru í stéttarfélagi, eru sjálfstætt starfandi og þeirra sem lokið hafa eða hætt námi. Úthlutunarnefndin er skipuð með ákveðnum hætti í dag. Það er erfitt að gera sér grein fyrir því og nefndin hefði þurft mun meiri tíma til þess að geta áttað sig á því hvaða vettvangur það væri sem eðlilegast væri að skipaði slíka úthlutunarnefnd eða hvernig slík úthlutunarnefnd skyldi skipuð. Því er það lagt hér til að ráðherra geri þetta og þá verði tíminn notaður til þess að finna sameiginlegan vettvang fyrir þennan hóp.
    Í áttunda lagi er lagt til að við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða um endurskoðun laganna. Skal henni lokið fyrir árslok 1985. Ég hygg nú að a.m.k. þeir þingmenn sem að þessu máli komu, í vinnslu heilbr.- og trn., hvort sem þeir skipuðu minni hluta eða meiri hluta séu sannfærðir um það að þau lög sem við höfum búið við og alveg verið sæmilega sátt við fram undir þetta vegna þess að það hefur verið markmið þeirra ríkisstjórna sem hér hafa verið að undanförnu að koma í veg fyrir atvinnuleysi. En núna þegar atvinnuleysi er viðvarandi þá sjá menn að það er ekki hægt að búa við þessi lög til lengdar og því þarf að stokka þetta upp og koma á nýjum og gjörbreyttum lögum.
    Við þessa endurskoðun leggur minni hlutinn til og telur nauðsynlegt að þegar lögin um atvinnuleysistryggingar verða tekin til heildarendurskoðunar eins og ákvæði til bráðabirgða gerir ráð fyrir verði staða bænda sem misst hafa stóran hluta fullvirðisréttar síns skoðuð alveg sérstaklega.
    Það eru kannski fáir aðilar sem sendu inn umsagnir til nefndarinnar sem hafa lagt jafnmikla vinnu í umsagnir sínar og bændasamtökin, en það skal viðurkennt að það er mjög erfitt að taka á því máli, í fyrsta lagi á skömmum tíma og í öðru lagi undir þeim kringumstæðum sem nefndin starfaði og við þann lagaramma sem við þurftum þó að miða okkar brtt. út frá.