Mat á umhverfisáhrifum

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 12:00:34 (8333)

     Frsm. umhvn. (Tómas Ingi Olrich) :

    Virðulegi forseti. Ég vil þakka þeim nefndarmönnum sem létu hlý orð falla í minn garð og voru ánægðir með samstarfið í nefndinni. Ég vil taka fram að ég hygg að hér sé á ferðinni mikilvægt mál. Það er nýjung á Íslandi að setja um þetta lög. Að vísu er ekki hægt að segja að það sé alveg nýtt af nálinni að mat á umhverfisáhrifum fari fram því að það er ekki rétt, en þetta frv. og þær brtt. sem hér liggja fyrir eru nýjung. Ég er ekki í nokkrum vafa um að það verður mjög fróðlegt að fylgjast með því hvernig framkvæmdin verður á þessum lögum, ef þau verða staðfest hér í þinginu, því að það skiptir meginmáli hvernig framkvæmdin verður.
    Það er von mín að málið, eins og það hefur verið lagt upp hér í þinginu og með þeim breytingum sem orðið hafa á því, muni leiða til þess að aukin þátttaka framkvæmdaraðilanna sjálfra og ábyrgð í þessu máli leiði til þess að þeir muni taka með opnari huga og jákvæðari hætti þátt í því að meta þau áhrif sem framkvæmdir þeirra hafa á umhverfið og þar af leiðandi muni þetta verða til þess að styrkja tilfinningu þjóðarinnar fyrir mikilvægi umhverfismála.