Atvinnuþróun í Mývatnssveit

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 12:26:16 (8346)

     Gunnlaugur Stefánsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Mér blöskrar svo ræða hv. 4. þm. Austurl. Hjörleifs Guttormssonar að maður á tæpast orð. Hver stjórnar þingstörfum? Hver treystir sér til að koma hér upp í þennan stól og tala með þvílíkum valdsmannshætti eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson gerði hér? Ég hóta máþófi í þessu máli. En svo er samkomulag um eitthvað annað mál. Af því að ég stend fyrir því. Þetta er inntakið. Ætlar hæstv. forseti í hvert sinn sem hann á að meta það hvort það verða umræður um mál eða ekki að spyrja hv. þm. Hjörleif Guttormsson um það sem virðist vita það gjörla hvernig umræður liggja hér í þinginu? Hver getur sagt fyrir fram um það hvernig hv. þm. vilja ræða mál? Hver treystir sér til þess að koma og segja fyrir um það? Og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson fullyrðir það hér við hið háa Alþingi að það verði líklega engar umræður um málefni er snerta Mývatn af því að það hafi verið svo vel unnið að málinu í tveimur nefndum þingsins. Hver getur tekið sér svona vald í hönd og úrskurðar svona með þessum hætti? Leyfum þingstörfunum að hafa sinn gang og leyfum hv. þm. að hafa frelsi til að ákveða hvort þeir vilja leggja orð til máls og taka þátt í umræðum en ekki vera að ákveða það fyrir þá. Síðan hótar hann því hér að það sé ekki hægt að taka 19. mál á dagskrá af því að hann ætli að ræða það hér næstu klukkustundirnar og af því að hann ætlar að ræða það næstu klukkustundirnar þá á hæstv. forseta að þóknast að fresta umræðum um það mál eða taka það ekki á dagskrá strax. Ég verð þá bara að spyrja hv. þm. Hjörleif Guttormsson um það hvaða fleiri mál það eru sem honum þóknast að hafa stjórn á með þessum hætti í dag og næstu daga. Ég uni ekki svona vinnubrögðum. Ég uni ekki svona hótunum. Ég uni ekki svona hótunum. Og þaðan af síður því að einn þingmaður geti komið hér í stól og ætli að fara að segja okkur, hv. þm., hvar verði umræður og hvar verði ekki umræður og stjórna þinginu með þeim hætti.