Sveitarstjórnarlög

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 14:56:32 (8366)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að lýsa því yfir að sú skýrsla sem unnin var á sínum tíma, byggðaskýrsla þingflokkanna, var unnin í mikilli sátt hér í þinginu og þeir sem unnu þetta verk voru, með leyfi forseta, Lárus Jónsson, Sjálfstfl., formaður, Eiður Guðnason, Alþfl., Helgi Seljan, Alþb., Kristín Halldórsdóttir, Samtökum um kvennalista, Ólafur Þ. Þórðarson, Framsfl. og Stefán Benediktsson, Bandalagi jafnaðarmanna.
    Ég hygg að sú vinna sem hér fór fram með öllum þeim gögnum, hafi verið mesta vinnan sem nokkru sinni hefur verið framkvæmd. Hér settust menn niður, fengu sérfræðinga og fóru yfir þetta mál. Og til þess að gera þetta að stuttu máli, þá vil ég geta þess að á bls. 35 í þessari skýrslu, sem var undirrituð af öllum, stendur:
    ,,Til þess að auka svo nokkru nemi völd og áhrif landsmanna allra óháða búsetu þeirra þurfi að koma til þriðja stjórnsýslustigið sem taki við umtalsverðum verkefnum og tekjum, fyrst og fremst frá ríkinu.``
    Þetta atriði er enn í fullu gildi. Hér er mikil umræða í gangi fram og til baka. Ég ætla ekki við 2. umr. að flytja lengra mál, en ég ætla að segja hér viss atriði sem ég tel að verði að koma á framfæri við 3. umr. En þessi skýrsla var unnin í sátt, menn mega ekki gleyma því. --- [Fundarhlé.]