Almenn hegningarlög

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 19:19:46 (8415)


     Frsm. 1. minni hluta allshn. (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegur forseti. Mér láðist að geta þess að auk mín skipa 1. minni hluta Ingi Björn Albertsson, Anna Ólafsdóttir Björnsson og Ólafur Þ. Þórðarson. Ég vildi aðeins segja fáein orð vegna þess að rök hv. frsm. 2. minni hluta eru ekki veigameiri en svo að þeir grípa til þess að setja í nál. að ég hafi lagt fram brtt. í nefndinni. Ekki finn ég að því að þess sé getið. Hins vegar finnst mér að þegar 2. minni hluti ákveður að geta um hugmynd að málamiðlun þá sé rétt að segja söguna alla. Og mér þykir það ekki vera heiðarleg framkoma af hálfu 2. minni hluta að geta einungis tillögunnar en ekki hverju hún breytir.
    Brtt. eins og ég lagði fram innan nefndarinnar til að kanna hvort menn gætu náð saman um hana þýðir að það verður áfram refsivert að hafa í frammi athæfi sem greinin kveður á um gagnvart opinberum mönnum þegar þeir eru á vettvangi við framkvæmd sinna verka. En það er ekki allt í 108. gr. sem eru brtt. heldur er af henni tekið þannig að opinber umfjöllun um atburði síðar er skorin af. Það var meginaðfinnsluefni Mannréttindadómstóls Evrópu að greinin skyldi vera túlkuð þannig af íslenskum dómstólum að það væri hægt að beita henni og dæma menn til refsingar á grundvelli hennar þegar þeir voru einungis að skrifa blaðagreinar um liðna atburði. Valdinu þykir ekki nóg að hafa ákæruvaldið til að beita fyrir sig í slíkum málum heldur þarf líka að hafa 108. gr. þar að auki til að dæma menn í sérstaka refsingu. Ef það eru verkamenn í Reykjavík sem skrifað er gegn þá eiga þeir sjálfir að sjá um sinn málarekstur samkvæmt núgildandi lögum. Þeir fá enga aðstoð frá ákæruvaldinu og þeir hafa enga vernd af 108. gr. ef veist er að þeim eða störfum þeirra í blaðagreinum. Ég hélt nú satt að segja að ritskoðunarþjóðfélagið væri liðið undir lok. En það er greinilegt að hún lifir vel í Sjálfstfl. gamla ritskoðunartilhneigingin og ekki er nú mannréttindahugsjónin há á þeim bæ þegar það er boðað að það verði kannski einu og hálfu ári eftir að dómur fellur að menn hugsi sér að leggja eitthvað fram. Það er nú meiri rausnin í þeim efnum.