Frestun á fundum Alþingis

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 20:51:19 (8453)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Þetta er nú fremur óvenjuleg aðstaða að standa hér í hörkuumræðum um þingfrestunartillögu. Það er jafnan svo að eftir langan og strangan vetur í þinginu eru flestir undir niðri fegnir því að lotunni ljúki og menn komist til síns heima og geti farið að draga andann. Ekki síst ætti það að eiga við nú þegar þing hefur staðið meira og minna linnulaust í níu mánuði. En þessar aðstæður eru nú uppi. Mér finnst einhvern veginn ekki lögð alveg nóg alúð við það, ég verð að segja það, hæstv. forseti, hvorki

af hæstv. forseta né hæstv. forsrh., að reyna í það minnsta að ryðja þessu ágreiningsmáli úr veginum Það ætti ekki að þurfa að standa hér í stórkostlegum umræðum um jafneinfaldan hlut og þann að leggja til hliðar þingfrestunartillöguna sem er formsatriði málsins (Gripið fram í.) og geyma það þangað til við værum búin. Þangað til þingið hefði lokið störfum. Þá er það auðvitað einfalt mál að afgreiða hana og mundi ekki kalla á neinar umræður. Og ég er viss um að þeir sem kynnu að vera á mælendaskrá væru fúsir til að falla frá orðinu ef það væri orðin niðurstaða að þingið hefði afgreitt öll þau mál sem taka ætti fyrir eða til afgreiðslu og það lægi orðið ljóst fyrir hvenær þinglausnir yrðu. En svo er ekki. Og ég segi það að ég harma, hæstv. forseti, að ekki skuli vera orðið við óskir okkar um að fresta þessari umræðu. Ég vil beina því til hæstv. forsrh. hvort hann sé tilbúinn til þess að höggva á þennan hnút og koma hér og leggja til að það verði gert. Þá er ég sannfærður um að hæstv. forseti er tilbúin til þess fyrir sitt leyti.
    Ég vil segja það að mér finnst hv. formaður þingflokks Sjálfstfl., 8. þm. Reykv., túlka nokkuð harkalega eða ósveigjanlega niðurstöðu þingflokksfundar í dag. Þó svo að menn kunni þá að hafa reiknað með að umræðu gæti lokið um þingfrestunartillöguna þá vissu menn ekki á þeirri stundu hverjar aðstæður yrðu mörgum klukkutímum seinna þegar þessum fundi lyki. Það má vel ímynda sér að menn hafi verið í þeirri trú að þá yrði orðin niðurstaða í þinghaldinu og samkomulag og ljóst orðið hvaða mál fengju afgreiðslu og hver ekki. En það hefur bara ekki tekist um það neitt samkomulag. Og þar er ekki við okkur stjórnarandstæðinga að sakast eins og alkunnugt er. Það strandar á illdeilum í ríkisstjórninni og í stjórnarflokkunum. Ekki bara í einu máli heldur fleirum er mér nær að halda. Og við þær aðstæður sérstaklega finnst mér nú harkalegt, hæstv. forseti, að verða ekki við jafnsanngjarnri ósk og þeirri að fresta nú umræðunni um þingfrestunartillöguna og geyma þá umræðu þangað til síðar. Ég verð að segja það alveg eins og er að mér finnst það ekki sanngjörn eða mildileg framkoma í garð réttmætra og sanngjarnra óska okkar í stjórnarandstöðunni um þetta. Það er eins og ég segi ekki góður svipur á því að ekki einu sinni skuli nást samkomulag um þetta litla atriði.
    Ég sé mig knúinn til þess, hæstv. forseti, ef svona er í pottinn búið og þessari umræðu á þrátt fyrir óskir manna að ljúka nú, að lýsa því þá yfir fyrir hönd Alþb. a.m.k. að við hljótum að varpa allri ábyrgð yfir á herðar hæstv. ríkisstjórnar og meiri hluta hennar hér á Alþingi varðandi þessi þinglok. Við hljótum að gera það. (Gripið fram í.) Ef meiri hluti er þá fyrir því í stjórnarliðinu að ljúka þingstörfunum fyrr en þá að undangengnum vissum skilyrðum. En það kemur væntanlega í ljós.
    Ég ítreka óskir mínar til hæstv. forseta og forsrh. og ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð. Það hefur í sjálfu sér ekkert upp á sig. Enda er réttur minn víst búinn til þess að tala í þessari einu umræðu um þessa þáltill. um frestun á fundum Alþingis. En ég harma að svona skuli að þessu staðið og mótmæli því og vona að hæstv. forseti, verði þó seint sé við óskum um að umræðunni verði nú frestað.