Afgreiðsla dagskrármála

177. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 23:01:56 (8483)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér í dag hefur óneitanlega verið staðið einkennilega að málum. Það hefur ekki fengist uppgefið í allan dag hvaða mál væri fyrirhugað að fengju lokaafgreiðslu á þessu þingi. Það hefur oft verið vitnað til þess í umræðum í vetur að stjórnarandstaðan hafi beitt ofbeldi í EES-málinu en ég veit ekki hver það er sem er að beita ofbeldi ef það er ekki ríkisstjórnin. Hún hefur valtað yfir okkur með valdhroka sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar eiga í svo ríkum mæli og þjóðin hefur horft upp á frá því að þessi ríkisstjórn hóf sitt starf hér. Hún hefur líka sýnt það að hún vill ekki semja um neitt. Hún vill sýna yfirburði hins sterkari og þannig hafa líka málin verið sem hún hefur lagt fram, ævinlega til þess að sá sterkari ætti að ráða. Þannig eru vinnubrögð ríkisstjórnarinnar. Nú hafa ráðherrar --- og ég endurtek ráðherrar hennar --- ákveðið hvaða mál fái afgreiðslu hér í kvöld, ekki hæstv. forseti. Því miður er það svo að það er hæstv. forsrh. sem segir fyrir um það hvaða mál skuli fá afgreiðslu og í hvaða röð. Og þingheimi til upplýsingar ætla ég núna að lesa það upp, því þó að stjórnarandstaðan viti það þá gæti vel verið að sumir hv. þm. stjórnarliða viti það ekki, að hér á að ljúka við 9., 10., 11., 12., 13., 14. og 15. mál, en 16. mál sem bíður atkvæðagreiðslu og mikið hefur verið rætt um í dag á ekki að fara í atkvæðagreiðslu. Síðan á að taka 17. mál fyrir, þá 20., 21., 22. og 23. mál. Þannig er listinn sem hæstv. forsrh. hefur ákveðið að tekinn skuli fyrir. En stjórn þingsins hefur ekki gefið þetta upp og ég mótmæli svona vinnubrögðum.