Atvinnuleysistryggingar

177. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 23:12:11 (8486)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Ég tala fyrir brtt. sem minni hluti heilbr.- og trn. flytur við frv. til laga um atvinnuleysistryggingar, en áður en ég tala fyrir þeim tillögum vil ég vekja athygli forseta á því að mér sýnist að það vanti þskj. 1289 inn í dagskrána en það er þingskjalið þar sem brtt. okkar er að finna. ( Forseti: Það er rétt hjá hv. þm. en það er búið að veita afbrigði fyrir þessari brtt.) Ég þakka forseta fyrir þessa útskýringu en ég vil þá kynna þessar brtt.
    Í fyrsta lagi er það við 9. gr., að á eftir 1. málslið efnismálsgreinar b-liðar komi ný málsliður svohljóðandi: Bótaréttur glatast þó ekki þótt umsækjandi hafni vinnu ef hann með læknisvottorði sannar að hann geti eigi stundað þá vinnu sem hann á kost á.
    Með þessu er í rauninni verið að leggja það til að aftur verði tekin inn læknisvottorðin sem búið var að fella út áður því það er fráleitt annað en að taka læknisvottorð gild og leggja það einhliða í mat úthlutunarnefndar hvort gildar ástæður eru fyrir höfnun vinnu eða ekki.
    Í öðru lagi er tillaga um að reyna að milda þann biðtíma sem fólk, sem er atvinnulaust og búið að vera það í meira en 12 mánuði, þarf að vera án bóta ef það ekki tekur þau námskeið sem í boði eru. Við teljum að slíkar refsingar eigi ekki við í því langtímaatvinnuleysi sem þessari ríkisstjórn hefur tekist að skapa hér á landi.
    Í þriðja lagi gerum við ráð fyrir því að sú skerðing sem öryrkjar verða fyrir verði milduð þannig að örorkustyrkur sem er auðvitað til þess að mæta auknum kostnaði vegna fötlunar verði ekki látinn skerða atvinnuleysisbætur.