Framleiðsla og sala á búvörum

177. fundur
Sunnudaginn 09. maí 1993, kl. 00:21:08 (8502)


     Steingrímur J. Sigfússon (um þingsköp) :
    Ég vil þá, forseti, leyfa mér að flytja munnlega tillögu með vísan til 62. gr., 1. mgr., um að gengið verði tafarlaust til atkvæða um 16. dagskrármál þessa fundar. Ég óska eftir því að forseti láti fara fram atkvæðagreiðslu um það eins og ég hef rétt til samkvæmt þessari málsgrein. Ég sem þingmaður flyt slíka tillögu, skriflega ef forseti óskaði eftir að fá hana skriflega, en með vísan til þess að heimilt er að flytja munnlegar tillögur úr ræðustóli, þá vænti ég þess að það sé fullnægjandi. Það stendur skýrum stöfum í upphafi 62. gr. þingskapa að heimilt sé þingmanni að krefjast þess að gengið sé til atkvæða um eitthvert þingmál umræðulaust. Það stendur ekkert um, hæstv. forseti, að það, eitthvert þingmál, eigi að vera á einhverju tilteknu stigi, fyrir umræðu, í umræðu eða eftir umræðu. Það má krefjast þess að gengið sé til atkvæða um eitthvert þingmál. ( Forseti: Forseti er búinn að taka málið út af dagskrá.) Hvaða mál? ( Forseti: 16. dagskrármálið.) Ekki þá tillögu sem ég er að flytja. ( Forseti: Nei, en forseti tók 16. dagskrármálið út af dagskrá.) Því var mótmælt, forseti, að það mál væri tekið út af dagskrá. ( Forseti: Forseti var

búinn að tilkynna það.)
    Hæstv. forseti. Mér þykir leitt að þurfa að segja það, en ég lít á þetta sem hreint ofbeldi við fundarstjórnina og ég mun ekki treysta mér til þess að ávarpa hæstv. forseta oftar á þessum fundi. ( Forsrh.: Þú átt að biðjast afsökunar.) ( Forseti: Forseti mun taka því eins og ýmsu öðru.)