Evrópskt efnahagssvæði

7. fundur
Þriðjudaginn 25. ágúst 1992, kl. 18:59:42 (61)


     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Í sambandi við fyrirspurn hv. þm. Tómasar Olrich þá var það svo varðandi umræðu í EFTA-ríkjunum á þessum tíma, fyrri hluta árs 1990 og raunar allt frá hausti 1989, að þar voru ýmsar efasemdir uppi varðandi stofnanaþáttinn og stjórnarskrár landanna. Þetta varðaði Sviss kannski alveg sérstaklega en þessar raddir voru líka uppi á Norðurlöndum, í Svíþjóð og í Noregi, ekki háværar frá talsmönnum ríkisstjórna heldur voru þær inni á þjóðþingunum. Og ég lít nú svo til að þjóðþingin séu hluti stjórnvalds í hverju landi og þegar ég orða þetta svo, þá er ég áreiðanlega að vísa til umræðna sem komið höfðu fram af hálfu aðila sem voru að fjalla um þessi mál, ekki endilega ríkisstjórna heldur einnig á þjóðþingum landanna. Ég hafði ekkert fyrir mér á þeim tíma að af hálfu íslensku ríkisstjórnarinnar lægi það mat fyrir sem eitthvert heildarmat að ákvæði samningsins kynni að brjóta í bága við íslensku stjórnarskrána en gerði mínar tilraunir til þess að koma þessum áhyggjum mínum á framfæri.
    Varðandi túlkun á mínum ummælum hér áðan, þá ætla ég ekki að fara í neinar ritskýringar varðandi þau. Ég vísaði til þess sem kom fram í máli formanns utanrmn. og þess framhalds sem af því spratt og hafði þá í huga sérstaklega þau viðbrögð sem hér komu fram, m.a. af hálfu forsrh. í tilefni athugasemda í umræðunni.