Stjórnarskipunarlög

8. fundur
Miðvikudaginn 26. ágúst 1992, kl. 15:08:52 (80)


     Flm. (Steingrímur Hermannsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég hef ekki tíma til að ræða stjórnarskrárþáttinn en ég furða mig á því að viðskrh. gaf þessa yfirlýsingu sína í byrjun júlí. Aðrar skýrslur komu síðar, bæði dr. Guðmundar og prófessors Björns og ég er að velta því fyrir mér hvort hann hafi nokkurn tíma lesið þær, eða hafa þær ekki haft nokkur áhrif?
    Ég kom hins vegar til að svara þeirri fullyrðingu hans að engin breyting hefði orðið á EFTA-stofnuninni frá því að skýrslan var gefin í mars 1991. Þetta er alrangt og þykir mér satt að segja ótrúlegt hjá svo, eins og alþjóð veit, fróðum og nákvæmum manni. ( Gripið fram í: Veit alþjóð það?) Já, ég held það, ég held það hafi oft komið fram.
    Í skýrslunni frá mars 1991 segir, með leyfi forseta: ,,Sérfræðingar um samkeppnisreglur fjalla nú um hlutverk eftirlitsstofnana á sviði samkeppnisreglna. Ef samið verður um að EFTA-eftirlitsstofnun geti kveðið á um sektir eða rannsókn á bókhaldi fyrirtækja verður fullnusta slíkra ákvarðana að vera í höndum þar til bærra yfirvalda í aðildarríkjunum.``
    Hér fer náttúrlega ekkert á milli mála að verið er að semja. Í raun og veru er verið að byrja að semja um hlutverk eftirlitsstofnunarinnar. Hvaða hlutverk fær hún svo samkvæmt þeirri upptalningu sem er í skýrslu fjórmenninganna? Hún fær í fyrsta lagi það hlutverk að gefa bindandi yfirlýsingar um það hvort tilteknar aðgerðir brjóti í bága við samkeppnisreglur EES. Hún fær heimild til að gefa tímabundnar bindandi bráðabirgðaráðstafanir gegn fyrirtækjum, hún fær heimild til að framkvæma rannsóknaraðgerðir gegn

fyrirtækjum á vettvangi, m.a. bókhaldsrannsóknir, hún fær heimild til að ákveða sektir og févíti sem er aðfærarhæf hjá fyrirtæki o.s.frv. Svo segir hér:
    ,,Ákvörðun eftirlitsstofnunarinnar um þau atriði sem nú hafa verið greind verða ekki bornar undir dómstóla í aðildarríkjum heldur undir EFTA-dómstólinn til endanlegrar úrlausnar.`` Ég held að öllum hljóti að vera ljóst að það varð gjörbreyting, það varð bylting á því sem menn höfðu áður í huga um eftirlitsstofnun EFTA.